20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

Tölvukaup fyrir grunnskóla

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að vekja athygli á því að þessa dagana er skólastjórum grunnskólanna á Íslandi og raunar framhaldsskóla líka að berast bréf undirritað af hæstv. menntmrh. þar sem fjallað er um tölvumál og þar sem skólastjórum er frá því skýrt að menntmrn. hafi ákveðið að hafna öllum þeim tilboðum sem borist hafa um kaup á tölvum til notkunar í grunnskólunum.

Hér tel ég vera býsna alvarlegt mál á ferðinni. Á s.l. vori ákvað þáv. hæstv. menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, sem nú gegnir embætti heilbrrh., að fram skyldi fara útboð vegna fyrirhugaðra kaupa á tölvubúnaði til notkunar í grunnskólum. Þetta útboð fór fram á vegum Innkaupastofnunar ríkisins og frestur til að skila tilboðum var til 10. september. Alls munu um 20 fyrirtæki, sem flytja inn tölvur og tölvubúnað, hafa skilað tilboðum.

Síðan er starfshópur tilnefndur af menntmrn. sem starfar og kemst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið skuli hafna öllum tilboðum sem borist hafa og ekki verja fé til kaupa á tölvubúnaði fyrir grunnskólana. Hins vegar kemur fram að verið sé að taka saman á vegum ráðuneytisins almennar upplýsingar um skilyrði sem æskilegt er að tölvubúnaður fyrir grunnskóla fullnægi og verði þær sendar skólum og fleirum.

Í bréfi, sem af hálfu Innkaupastofnunar ríkisins var skrifað til þeirra 20 fyrirtækja sem sendu tilboð, segir á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ekkert tilboðið er þannig að hópurinn treysti sér til að mæla með því umfram önnur og enginn þessara bjóðenda er með búnað sem sérstaklega er ætlaður grunnskólum.“

Hér er mjög einkennilega til orða tekið. Það er eins og ráðuneytið eða ráðherra hafi búist við að til séu einhverjar sérstakar tölvur, sérstaklega hannaðar fyrir grunnskóla. Þetta er mikill misskilningur.

Ástæðan fyrir því að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli á þessu máli er sú að hér er verið að draga lappirnar, ef þannig má taka til orða, hér er verið að tefja mál. Í ýmsum grunnskólum, m.a. hér í Reykjavík, var nemendum í 9. bekk boðið upp á tölvukennslu í haust. Það var beðið ákvörðunar ráðuneytisins um hvaða tölvur yrðu keyptar. Drátturinn og handarbakavinnubrögðin við þetta hafa valdið því að nú hefur verið hætt við þessa kennslu, hún verður ekki boðin. Nemendur hafa orðið af námi. Þeir völdu tölvunámið frekar en ýmislegt annað, höfnuðu einhverju öðru, hafa síðan beðið og nú er þetta allt komið í óefni. Það verður að átelja það harðlega þegar ráðuneyti og stjórnvöld standa svona að málum. Einn ráðherrann býður út og annar ákveður að ekkert skuli síðan gert án þess að frambærileg rök séu til staðar í málinu, að ég hygg.