20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

Tölvukaup fyrir grunnskóla

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þetta er á misskilningi byggt, allt sem skiptir máli og fram kom í ræðu hv. 5. landsk. þm.

Ég held að við getum verið sammála um að hér er um afar mikilvægt málefni að tefla, sem er tölvukennsla og tölvuvæðing skólanna, grunnskólans ekki síst, og til þess þarf að vanda til hins ýtrasta. Þegar ég settist í stól menntmrh. var málið á þeim rekspöl sem hv. þm. nú hefur tíundað. Ég hafði velt fyrir mér tölvumálum allmikið í fyrra starfi mínu og þykist hafa gert mér grein fyrir því að fyrir dyrum stendur eða kannske má segja er skollin á tölvubylting og við þurfum að aðlaga okkur þessum breyttu, nýju viðhorfum. Mér var ekki sú tilhugsun í öllu falli geðfelld eða skapfellileg, svo ómanneskjulegt sem fyrirbrigðið hefur virst mér, en ég hef hins vegar látið töluvert huggast við að sjá hvernig ungmenni hafa þreytt þetta nám og leik, sem getur farið saman, við tölvuna.

Ég leitaði ráðs og gerði ráð mitt með manni sem ég hygg að flestir geti verið sammála um að hafi mesta þekkingu á málefninu og það er nýskipaður prófessor í tölvunarfræðum, ef menn vilja nefna það svo, við Háskóla Íslands, Jóhann Malmquist, bað hann um að ráðleggja mér, og ráð hans komu í þann stað niður að engum tilboðum skyldi tekið af þeim sem gerð voru vegna útboðsins á liðnu hausti. Og ástæðan er afar einföld. Það er hans skoðun og raunar vissa að ný kynslóð tölva komi á markaðinn fyrir árið 1990.

Það skiptir öllu að við undirbúum tölvuvæðinguna rétt og samræmi verði í hlutunum, bæði varðandi tegund tækjanna og svo hugbúnað allan. Á meðan munum við undirbúa kennslu í þessum fræðum hjá Kennaraháskóla Íslands sem ekki veitir af að þjálfa til hins ýtrasta til þess að geta sinnt þessum mikilvægu störfum í grunnskólunum. Það vill þannig til að við erum ekki tilbúin. Skólakerfið er ekki tilbúið nema til þess að taka við þessu sem fikti. Og ekki ætla ég að efna til þess eða verja stórkostlegum fjármunum til þess að með þeim hætti verði staðið að verki. Það er alveg ljóst eða ég er um það sannfærður að með því að gefa sér betri og lengri tíma til undirbúnings mun margt vinnast og raunar allt vegna þess að ef menn rasa um ráð fram mun það hafa í för með sér margfaldan kostnað og margfalt minni gagnsemi en ella.