20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

Tölvukaup fyrir grunnskóla

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði að ræða mín áðan hefði verið á misskilningi byggð. Hann nefndi ekki eitt einasta dæmi um það í hverju sá misskilningur væri fólginn.

Ég hef hlustað á hans rök. Hann segir: Sérfræðingar segja mér að það muni koma nýrri og fullkomnari tölvur á markaðinn í kringum 1990, ný kynslóð. Áreiðanlega er það rétt. Og staðan verður líka sú 1990 að þá verður enn ein ný kynslóð af tölvum áreiðanlega rétt væntanleg á markaðinn.

Ég starfaði einu sinni hjá opinberri stofnun þar sem var keypt töluvert af tæknibúnaði. Síðustu árin var stefna tæknilegs stjórnanda þar sú að það voru aldrei keypt nein tæki vegna þess að það voru alltaf að koma önnur betri. Einhvern tíma verða menn að taka ákvörðun.

Ég veit að margir skólar hafa beðið og bíða. Þeir munu ekki bíða fram til 1990. Það er tómt mál um að tala. Mér finnast það einkennileg ummæli hæstv. menntmrh. þegar hann talar um að nú sé þessi fræðsla þegar í „ýmsum“ skólum. Hún þyrfti að vera miklu, miklu víðar. Það sem á að gera í grunnskólunum er að nota á ódýrar tölvur - þær eru til, margar tegundir sem kosta kannske 15-20 þús., það á ekki að vera með einkatölvur sem kosta 100 þús. - þannig að nemendurnir í grunnskólunum fái smjörþefinn af þessu. Hæstv. ráðh. kallaði það fikt og sagðist ekki ætla að beita sér fyrir fikti. Ég held að það sé einmitt mjög nauðsynlegt og gagnlegt að nemendur í grunnskóla kynnist þessum tækjum og þeirra miklu möguleikum til að geta síða.n fikrað sig áfram eftir brautinni.

Mér finnst vera illa að þessu staðið þegar einn ráðherra ákveður þetta útboð og það senda mörg fyrirtæki hagstæð tilboð. Það er viðurkennt að með tilboðum á þessum vettvangi er hægt að lækka verð um kannske 30-40%. Það er svo með eina tegund tölva, algengustu tegund leiktölva sem hingað eru fluttar og eru kannske alneðsta þrepið í þessum tölvustiga, að þær eru til á tíunda hverju íslensku heimili. Þetta er nefnilega miklu útbreiddara en menn halda. Mér finnst það vera hættuleg stefna þegar ráðuneytið ætlar að hafa þessi mál í biðstöðu næstu árin. Það er mjög alvarlegt mál. Ég veit að í mörgum skólum hafa menn beðið eftir ákvörðun alveg frá hausti og nú hefur nemendum verði tilkynnt að það verði engin kennsla vegna þess að engin ákvörðun hafi verið tekin. Þetta er alvarlegt mál. Þetta er sá þáttur sem við eigum óhjákvæmilega að leggja mjög mikla rækt við í okkar menntakerfi á næstu árum.

Hvers vegna á stöðugt að bíða og bíða eftir því að betra komi? Það eru út af fyrir sig alltaf að koma betri og fullkomnari tæki á markaðinn. Einhvern tíma verða menn að taka ákvörðun og einhvern tíma verða menn að byrja. Ég held að það sé of seint að byrja eins og sú tillaga gerir ráð fyrir sem ráðherrann talaði fyrir.