20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

Tölvukaup fyrir grunnskóla

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég vil taka undir áherslu manna á nauðsyn þessa máls og harma að ráðuneytið skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu sem það hefur komist að því að ég tel að hér sé á ferðinni álíka mikilvægt mál og þegar hafin var ókeypis dreifing námsbóka í því mikla átaki að koma þessari þjóð allri til mennta og læsis. Ég álít að þetta mál, sem hér um ræðir, sé einfaldlega um „læsi“ framtíðarinnar, nákvæmlega jafnmikilvægt og það þótti áður að menn gætu lesið staf á bók, og þess vegna er full þörf á því að væða alla skóla, sem haldið er úti, þessum tækjum.

Ég vil meira að segja ganga svo langt að fullyrða að ókeypis dreifing ríkisvaldsins á ódýrum tölvum til allra barna á skólaaldri mundi skila sér í miklum verðmætum á næstu áratugum, að gera börnum kleift strax á skólaaldri að verða læs á þau tæki sem verða vinnutæki þeirra í framtíðinni. Það má benda á að við höfum náð hér á Íslandi ákveðnum árangri og forskoti fyrir þá einu tilviljun að tölvur voru ekki tollaðar hérna þannig að þær voru miklu ódýrari en annars staðar. Ég vil þá líka að gefnu tilefni í öðru máli vara við þeirri stefnu að ætla að fara að tolla tölvur.