20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

263. mál, fullorðinsfræðslulög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að hafa frumkvæði að því að flytja þessa till. inn í þingið og þakka henni raunar fyrir ýmis þörf efni sem hún hefur á stuttum tíma hér á Alþingi vakið máls á og flutt í formi tillagna, atriði sem hafa legið óþarflega lengi hjá garði þótt á sumum þeirra hafi verið tekið á fyrri stigum án þess að þau fengju þá afgreiðslu sem vert hefði verið.

Ég tek eindregið undir efni þessarar þáltill. og get tekið undir ég held allt sem fram kom í máli hv. flm. hér áðan um nauðsyn þessa máls. Ég þekki nokkuð til þeirrar þróunar sem hún rakti í þessum efnum, var sjálfur áhugamaður um þessi efni þegar ég sinnti skólamálum heima í héraði og fékk m.a. á þeim tíma til umsagnar þann mikla tillögubálk sem hv. þm. minnti á, frv. sem lagt var fram margsinnis í tíð Vilhjálms Hjálmarssonar þáv. menntmrh., en án þess að þingið tæki til þess afstöðu. Ég var alveg sama sinnis og kom fram hjá hv. þm. áðan, að þar var óþarflega mikill umbúnaður um þarft mál. Ég hygg að það hafi dregið úr mönnum kjarkinn e.t.v. að setja lög um þetta efni þó að það sé ekki eitt út af fyrir sig afsökun því að þinginu átti auðvitað að vera ljóst hver nauðsyn var á að taka á þessu máli.

Það eru tveir þættir sem þetta snýst aðallega um. Það er stuðningur við frjálsa starfsemi á þessu sviði og ákvæði sem þarf að leiða í lög um stuðning við slíka frjálsa fullorðinna fræðslu og síðan hvernig hið lögboðna skólakerfi tekur á þessum málum og styður við slíka fræðslustarfsemi, bæði á eigin vegum og við hina frjálsu fræðslu.

Það urðu mér vonbrigði þegar kom í ljós að fyrrv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir hafði ekki hug á að vinna að þessum málum með þeim hætti sem hér hefur verið rætt um heldur lét við það sitja að flytja frv. varðandi stuðning við öldungadeildir, út af fyrir sig gott og gilt mál sem var lögfest á síðasta eða næstsíðasta þingi, en afar takmarkað og kemur engan veginn í stað þeirrar rammalöggjafar sem setja þarf um stuðning hins opinbera við fullorðinnafræðslu í landinu.

Ég reyndi sem iðnrh. á sinni tíð að leggja þessum málum svolítið lið með því að efnt var til Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins á þeim tíma, sem enn er starfrækt og hefur unnið þegar gott starf til að ýta undir fræðslu, starfsmenntun, á sviði atvinnulífsins, og þar er enn þá unnið að þeim málum undir forustu Þuríðar Kristjánsdóttur sem veitir þessari fræðslumiðstöð forstöðu af atorku að mér best er kunnugt.

Ég hvet til þess að á þessum málum verði tekið eins og hér er lagt til án þess að ég sé þar með að taka afstöðu til þess frv. til l. um fullorðinsfræðslu sem birt er sem fskj. með þessari till. Ég hygg þó að þar sé mjög margt sem gæti orðið gott og gilt í löggjöf um þessi efni, en það er nokkuð um liðið síðan þessi till. kom fram og sjálfsagt að líta á málið með tilliti til aðstæðna og þróunar síðar.

Það er tvímælalaust hægt án stórfellds tilkostnaðar að ýta undir og styðja við starfsemi á þessu sviði ef á því er tekið af skynsemi og með jákvæðum huga, sérstaklega að tryggja að skólakerfið, sem ríkið stendur að sjálft eða með sveitarfélögunum, ljái þessari starfsemi lið og að starfsleg uppbygging skóla og einnig hönnun taki mið af fullorðinna fræðslunni og símenntun sem á að geta farið fram innan veggja starfandi skóla.

Ég nefni hér aðeins að lokum, herra forseti, eitt dæmi sem varðar þetta mál og ég reyndi að koma til leiðar þegar ég átti sæti í byggingarnefnd menntaskóla austur á landi, en það var um að byggja upp gagnasafn þess skóla, sem nú er starfandi á Egilsstöðum, Menntaskólans á Egilsstöðum, byggja þar upp gagnasafn sem tæki mið af þörfum fullorðinna fræðslu og opnaði skólann gagnvart umhverfinu, að þar yrði um samstarf að ræða milli heimaaðila um slíkt gagnasafn, þar á meðal bókasafn skólans og umhverfisins. Slíkt gagnasafn yrði eins og andlit út á við og laðaði fólk að til þess að taka þátt í þeirri fræðslustarfsemi sem ég vonaði að þar yrði komið á fót til þess að opna skólann. Ég held að þetta sé eitt dæmi um það hvernig hægt er að hjálpa til í þessum efnum og gera starfandi skólastofnanir meira aðlaðandi fyrir fólkið hið næsta og aðra sem sækja vilja til slíkra stofnana. Auðvitað er svo hægt að taka á þessum þáttum í námskeiðsformi utan reglubundins starfstíma viðkomandi stofnana og þá að nýta þann búnað, húsnæði og aðstöðu sem þar liggur fyrir.

Mjög mikið starf hefur verið unnið af frjálsum samtökum í sambandi við fullorðinna fræðslu og er í gangi fyrir atorku fólks víða um land. Hv. 1. flm. þessarar tillögu hefur lengi verið starfandi við góðan orðstír á þessum velli og veitt mörgum lið, veit ég, út um landið og á hún þakkir skildar fyrir þá aðstoð.

Ég vænti þess að þessi tillaga sofni ekki í nefnd heldur fái þar afgreiðslu og á eftir fylgi undirbúningur að löggjöf um þetta efni. Verði hins vegar framkvæmdarvaldið ekki við því þá ber okkur þm. auðvitað skylda til þess að flytja þetta mál í formi lagafrv. hér inn í þingið og reyna að tryggja framgang skynsamlegrar löggjafar um fullorðinna fræðslu.