20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

263. mál, fullorðinsfræðslulög

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að leggja fram þessa tillögu, sem ég tel mjög þarfa og tímabæra. Hún hefur einnig lagt fram frv. í Ed. Alþingis um svipað efni og ég held að þetta sé mjög gott framtak og tek undir hennar orð í framsöguræðunni hér.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér um en ég vil benda á eitt. Hæstv. menntmrh. hefur rætt mikið um opinn háskóla og það er gott og gilt, en til þess að opinn háskóli nýtist fullorðnu fólki víðs vegar um landið, sem hefur ekki greiðan aðgang að því öldungadeildakerfi sem til er í þéttbýli, þarf það að hafa greiðari aðgang að undirbúningsmenntun. Það sem kemur fram í þessari tillögu bæði varðandi menntun í gegnum fjölmiðla og annað mundi því nýtast þessu fólki til þess að geta síðan áframhaldandi nýtt sér þá góðu hugmynd sem kemur fram í opnum háskóla.Ég vildi undirstrika þetta, en að öðru leyti tek ég undir það sem hér hefur komið fram í þessari umræðu.