20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

263. mál, fullorðinsfræðslulög

Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir undir þessa hugmynd okkar starfssystra sem við höfum borið hér fram. Frv., sem lagt er hér fram sem fskj., er aðeins plagg að mínum dómi sem hægt er að nota og byggja á í framtíðinni, þegar fólk býr til nýtt frv. til laga um fullorðinsfræðslu. Því eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi þá er frv. nú orðið nokkurra ára gamalt og þarf auðvitað örlítilla breytinga við, þó ótrúlega lítilla miðað við að það er þó orðið sex ára.

Hvað viðkemur opnum háskóla vil ég sérstaklega taka undir orð hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur um það að opinn háskóli mun ekki nýtast þeim sem minnsta menntun hafa fyrr en önnur fjarkennsla er komin á undan eða einhver önnur kennsla til að byggja á grunni. Þetta tvennt vildi ég taka undir.

Í minni framsöguræðu gat ég auðvitað ekki um allt sem gert hefur verið á fullorðinsfræðslusviðinu og sem til gagns og gæfu hefur verið fyrir þjóðina, svo sem eins og starfsemi Iðntæknistofnunarinnar sem hefur verið hin merkasta. Ég hef litið svo á að gagnasöfn, eins og gagnasafnið sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat um á Egilsstöðum, ættu að vera víðs vegar um landið og að fullorðinsfræðsla gæti byggst upp í kringum slík söfn. Fyrir nokkrum árum sá ég í London stofnun sem kallast City Litt. Þar er gagnasafn mikið og afskaplega ánægjulegt að sjá þá líflegu notkun sem hjá almenningi er á því safni.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.

Umr. (atkvgr.) frestað.