20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

247. mál, sölu- og markaðsmál

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ásamt 15 öðrum þm. Sjálfstfl. flyt ég till. til þál. um skipulagningu náms og vinnu í sölu- og markaðsmálum. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því með samstarfi menntmrn., viðskrn., utanrrn. og aðila vinnumarkaðarins að skipuleggja nám og starfsþjálfun á sviði sölu- og markaðsmála innan lands og utan, jafnhliða sérstökum aðgerðum til að afla þekkingar á mörkuðum. Markmiðið verði að koma á fót í skólakerfinu og viðskiptalífinu, víðtæku námi í sölumennsku, markaðsöflun, áróðurs- og auglýsingatækni og samningagerð.“

Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi en má segja að hafi frosið inni í því mikla málaflóði sem þar var og er endurflutt hér. Það skýtur sannarlega skökku við að þjóð sem þarf að selja nær alla sína framleiðslu til annarra landa skuli hvergi í skólakerfinu hafa skipulagt víðtækt nám sem tengist sölu- og markaðsmálum með hliðsjón af þeirri sérstöðu sem Íslendingar búa við, þ.e. fámenni þjóðarinnar og þeirri staðreynd að sjávarafurðir eru grundvöllur undir gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Möguleikar til náms á þessu sviði eru ekki fyrir hendi í grunnskólum, fjölbrautaskólum, framhaldsskólum, sérskólum né Háskóla Íslands, nema að mjög takmörkuðu leyti, og þá helst í Háskóla Íslands, en ekki er mér grunlaust um að sú bók sem helst er notuð í þeim efnum þar sé 25 ára gömul og dönsk.

Í framhaldi af umræðum hér á hinu háa Alþingi í þessu máli s.l. vetur kom upp ákveðin hreyfing að stofna vísi að slíkum skóla og á vegum ákveðinna samtaka. Það hefur gerst síðan að þann 6. janúar s.l. stofnuðu Stjórnunarfélag Íslands og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins vísi að skóla sem heitir Útflutnings- og markaðsskóli Íslands. Þessi skóli hefur nú skipulagt nám næstu 10-11 mánuði og nokkur styttri námskeið á þessu tímabili. Þarna tel ég vissulega vera spor í rétta átt, en þó aðeins spor því þarna er mikið verk óunnið og mikil ástæða til að tengja þennan þátt og þessa þætti hinu almenna menntakerfi landsins, ekki aðeins á sérsviðum heldur einnig hinu almenna menntakerfi.

Sölumennska hefur um langt árabil verið litin hornauga á Íslandi og í raun höfum við kannske lengst af verið lélegir sölumenn. Einhvers konar minnimáttarkennd eða einangrun lítillar þjóðar í langan tíma virðist hafa leitt til skilningsleysis á því hversu mikilvægt er að keppa af festu og einbeitni á öllum mörkuðum þar sem hægt er að bæta söluaðferðir og þar með afkomu þjóðarinnar. Þótt margir hafi vissulega staðið sig vel í samkeppninni á alþjóðavettvangi, eins og t.d. á sviði flugmála, siglinga, sjávarafurða og vísinda, þá þarf að herða þarna verulega á með samstilltu átaki og markvissri vinnu með framtíðina í huga. Íslendingar eiga ekki og þurfa ekki að biðjast afsökunar á því sem þeir bjóða á erlendum mörkuðum því hérlendis er allra kosta völ í þessum efnum ef rétt er að verki staðið í framleiðslu, markaðs- og sölumálum.

Við eigum t.d. nær allt okkar undir sölu sjávarafurða en í einhliða framleiðslu felst mikil áhætta ef eitthvað fer úrskeiðis. Þess vegna þarf sífellt að vera á verði í þeim efnum, sem og öðrum þáttum okkar framleiðslu, leita nýrra leiða, nýrra markaða um allan heim. Þótt við vitum hvað við höfum verðum við að gæta þess að láta ekki þar við sitja heldur leita nýrra leiða. Þróunin og aðstæður allar kalla á það að við stefnum að fullvinnslu alls okkar hráefnis innan lands, hvort sem er á vettvangi sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, hvort sem við viljum selja íslenska þekkingu og reynslu á alþjóðavettvangi eða t.d. náttúrufegurð landsins til að laða að ferðamenn, hvað þá hráefni okkar lands.

Hæstv. fyrrv. viðskrh., Matthías Á. Mathiesen, skipaði fyrir nokkru þrjár nefndir í markaðsmálum. Eina til að örva íslenska útflutningsstarfsemi og glæða áhuga almennings á markaðsmálum og útflutningsmálum með sérstakt markaðsátak á Norðurlöndum í huga árið 1986, og að því er nú unnið, aðra nefnd til þess að greiða fyrir útflutningi verkefna og þjónustu á sviði sjávarútvegs og orkuvinnslu og þriðju nefndina til að fjalla um samstarf útflytjenda og stjórnvalda til að efla útflutning. Til þess að fylgja slíku starfi eftir þarf að koma á námi í sölu- og markaðsmálum þar sem vænlegt er bæði í skólum landsins og í atvinnulífinu.

Á næstu árum þarf að hrinda í framkvæmd margþættu starfi á sviði sölu- og markaðsmála, afla meiri þekkingar á mörkuðum og möguleikum, skipuleggja hvernig nýta má þá möguleika sem Íslendingar hafa til að ná árangri í takt við nýjustu tækni og upplýsingamiðlun á alþjóðavettvangi. Full ástæða er til þess að sem fyrst verði sendir tugir manna til starfsnáms erlendis til þess að kynna sér vinnubrögð, markaði og söluleiðir fyrir íslenskar afurðir; kynna sér störf sem varða íslenska hagsmuni erlendis og störf við fyrirtæki sem tengjast íslenskum hagsmunum; kynna sér lönd eða markaðssvæði þar sem Íslendingar selja ekkert en möguleikar á sölu kunna að leynast þegar að er gáð. Meginmáli skiptir að vel takist til í útflutningsmálum og við verðum að hætta að láta hlédrægnina ráða ferðinni í sölu á okkar afurðum. Við megum ekki líta sölu- og markaðsmál hornauga.

Sérstaða Íslendinga í baráttunni í sölu- og markaðsmálum er framar öllu fólgin í því að við verðum að klæðskerasauma þessa vinnu, finna leið sem hentar íslenskum aðstæðum, búa til tækni þar sem engin fyrirmynd er til, þótt nýta megi þar að auki ýmislegt sem til er á alþjóðavettvangi. Þessi útfærsla verður umfram allt að henta okkur og má ekki vera algerlega í forsjá ríkisins, heldur með þeim hætti að forusta og frumkvæði liggi að hluta til í atvinnulífinu þar sem skilningurinn á að vera mestur og áþreifanlegastur. Með því að taka til höndum í þessum efnum erum við að vinna tíma og verðmæti fyrir framtíð íslenskrar þjóðar. Við verðum að herða okkur á því sviði sölu- og markaðsmála að kunna að taka púlsinn með sölu- og markaðsmál í huga. Við höfum látið undir höfuð leggjast að skipuleggja þennan þátt sem hvað mestu máli skiptir í samkeppninni um meira verð fyrir minni vinnu og við hverja einingu í framleiðslunni. Það eru sömu lögmál í þessum efnum hvort sem við erum að tala um Hafnarfjörð eða Hong Kong, Búðardal eða Brussel. Þetta er spurning um þekkingu.

Til að árétta það hvað við leggjum litla rækt við sölumennsku og menntun í þeim efnum má segja að kannske skýrist það best í því að við erum með líklega nær 1000 innflytjendur í landinu en fáa tugi útflytjenda sem hægt er að tala um sem raunverulega útflytjendur. Það hefur líka verið sagt að ef Dani og Íslendingur eru á ferðalagi í erlendu landi þá er Daninn að selja en Íslendingurinn að leita sér að umboði eða skemmta sér. A.m.k. getum við í þessum efnum lært af Dönum sem er einhver harðskeyttasta sölumennskuþjóð á jörðinni í dag. Við búum að mörgu leyti við staðnað kerfi, jafnvel þar sem við höfum náð mestum árangri í sölumennsku og þurfum að vera sívakandi fyrir endurskipulagningu og nýjum möguleikum byggðum á nýjustu tækni, áróðri og öðrum slíkum möguleikum í fjölmiðlum og sviðsljósi þjóðanna. Það er því eitt stærsta mál næstu framtíðar, að mínu mati, að setja hrygg í okkar sölu- og markaðs mál og framkvæmd þessarar tillögu á að geta stuðlað að slíku.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til félmn.

Umr. (atkvgr.) frestað.

1