24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

181. mál, almannatryggingar

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 206 hef ég lagt fram frv. til l. um breytingu á lögum nr. 103 frá árinu 1980, um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67 frá 1971, með síðari breytingum. Hér er um að ræða fylgifrv. með frv. til l. um fæðingarorlof sem ég hef þegar flutt á þessu þingi.

Þegar ég mælti fyrir því frv., sem hefur málanúmerið 180, lét ég í ljós þá ósk að hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsti hér hug sínum til þessara mála og ef hæstv. ráðh. er viðlátinn þætti mér vænt um að hann gæti verið viðstaddur þessa umræðu. (Forseti: Já, ég skal láta athuga hvort ráðherrann getur komið hér inn.) Takk.

Nú sé ég að hæstv. ráðh. gengur í salinn og vil ég þá láta þess getið aftur að þá er ég mælti fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um fæðingarorlof fyrir tveimur vikum lét ég í ljós þá ósk að hæstv. heilbr.- og trmrh. gæti hér að einhverju leyti lýst hug sínum í garð þessara mála. Það skipaðist þá þannig að slíkt var ekki unnt á þeim fundi hér í hv. Ed. sökum anna hæstv. ráðh. og þar sem ég er nú að flytja fylgifrv. með fæðingarorlofsfrv. fór ég þess á leit við virðulegan forseta að hæstv. ráðh. gæti verið viðstaddur þá umræðu og látið hér í ljós álit sitt á þeirri skipan fæðingarorlofsmála sem ég hef mælt fyrir í hv. deild.

Í grg. með frv. á þskj. 206 segir, með leyfi forseta: „Frv. var áður flutt á 107. löggjafarþingi. Það gerir ráð fyrir 1% hækkun á framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga og er flutt til þess að afla tekna til aukinna fæðingarorlofsgreiðslna, sbr. frv. til l. um breytingu á lögum nr. 97 frá 1980, um fæðingarorlof, breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 61 frá 1971, með síðari breytingum.

Á fjárlögum árið 1985 er gert ráð fyrir að lífeyristryggingagjöld atvinnurekenda nemi 595 millj. kr. og miðað við þá upphæð er hér um að ræða nær 300 millj. kr. tekjuaukningu ríkissjóðs.“

Síðan stendur í grg.: „Nemur þessi tekjuaukning ríflega 2/3 þess kostnaðar sem lenging fæðingarorlofs hefur í för með sér.“ Þetta er rangt og vil ég nú útskýra hvernig á því stendur.

Þetta frv. var lagt fram á hæstv. Alþingi á s.l. hausti, í nóvemberlok minnir mig, og það var áður en Tryggingastofnun ríkisins hafði handbærar tölur um fjölda fæðingarorlofsþega og upphæð fæðingarorlofsgreiðslna á árinu 1985. Í grg. með frv. er því miðað við óbreyttar tölur milli ára og því stendur þarna að áætlað sé að frv. muni ná að mæta 2/3 hlutum þess kostnaðar sem lenging fæðingarorlofs hefur í för með sér.

Nú bregður hins vegar svo við að fæðingum fækkaði töluvert á árinu 1985. Þær voru 3846 í stað 4258 á árinu 1984. Mér telst til að þar sé um u.þ.b. 10% fækkun fæðinga að ræða. Auk þess hafa laun kvenna enn rýrnað á árinu. Launaskriðið svonefnda hefur sniðgengið margar konur og það lækkar enn kostnað við það fæðingarorlofsfrv. sem ég hef hér áður flutt, en þar er gert ráð fyrir að foreldri njóti launa sinna óskertra í fæðingarorlofi eins og hv. þm. rekur eflaust minni til. Niðurstaðan er því sú að þetta fylgifrv., sem ég er hér að mæla fyrir, gerir meira en greiða þann kostnað sem af lengingu fæðingarorlofs hlýst.

Fylgifrv. skilar 300 millj. í ríkissjóð á meðan þær breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni sem ég hef lagt til hefðu kostað í heild sinni, miðað við verðlag ársins í fyrra, 250 millj. kr. Sem sé: vegna fækkunar fæðinga og rýrnandi launa kvenna er því hér um 50 millj. kr. tekjuafgang, ef svo má segja, að ræða í fjáröflunarviðleitni minni. Ef svo fer fram að fæðingum heldur áfram að fækka er okkur óhætt að lækka enn prósenturnar sem frvgr. hljóðar upp á, jafnvel færa hana úr 3% niður í 2,5% og væri þá um að ræða 0,5% en ekki 1% hækkun á framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga.

Ég vil beina þessum ábendingum til hv. heilbr.- og trn. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar. Það er ljóst að kostnaðaráætlanir verður að endurmeta ef sveiflur eiga sér stað í fjölda fæðinga á milli ára, eins og gerst hefur á milli áranna 1984 og 1985, og ef breytingar verða í launaskiptingu þjóðfélagsins.

Síðan segir áfram í grg. með frv., með leyfi forseta: „Eins og fram kemur í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1986 er hagur atvinnurekstrar í landinu að undanskildum sjávarútvegi allgóður um þessar mundir. Á það einkum við um verslun, iðnað og ýmsar greinar þjónustu og munu þessar atvinnugreinar því geta borið þá gjaldaaukningu sem hér er lögð til. Bætt aðstaða foreldra og ungbarna, sem lenging fæðingarorlofs felur í sér, skilar sér án nokkurs vafa í heilbrigðari einstaklingum. Á það jafnt við um börnin sem í hlut eiga og um foreldra þeirra sem nú eru uppistaða vinnuafls í landinu. Öllum atvinnurekstri er hagur að því að fá til starfa heilbrigða einstaklinga og því er sjálfsagt að atvinnurekendur leggi nokkuð af mörkum til þess að svo megi vera.“

Hér lýkur grg. með frv. Ég vil aðeins taka það fram að lagagreinin sjálf er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að í stað 2% kemur 3%.

Ég hef nýverið gert ítarlega grein fyrir nauðsyn á lengingu fæðingarorlofs svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka röksemdir mínar þar um nú. Það frv. sem hér er á ferðinni felur einfaldlega í sér öflun tekna til að standa straum af kostnaði vegna lengingar fæðingarorlofs þannig að ekki þurfi að treysta á fé úr ríkissjóði til þessara hluta.

Það þarf í sjálfu sér lítið meira um þetta frv. að segja nema e.t.v. að ég tel að varla sé með því verið að ganga nærri atvinnurekstri í landinu. Hann hefur blómgast að undanförnu í skjóli núverandi ríkisstj., eins og allar tölur sýna og sanna, og ætti því að geta borið þá gjaldaaukningu, sem hér er lögð til, án stórskaða.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.