24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

181. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Ef ég má byrja þessa ræðu á smáathugasemdum um þingsköp spyr ég þessa hv. deild hvort henni þyki nokkuð við það að athuga að víð hættum að veigra okkur við að segja frú forseti. Þegar kvenmaður situr í forsetastól eru menn alltaf að finna upp eitthvert lýsingarorð framan við starfsheitið í stað þess að menn segja feimnislaust „herra“ þegar karlmaður situr í forsetastól. Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því, nema síður sé og þykir þar enn meiri virðing að, að forseti fengi að halda sínum frúartitli líka í forsetastól. Þess vegna segi ég, ef ekki verður við það gerð athugasemd, frú forseti.

Ég þakka hv. flm. þessa frv. fyrir þá virðingu sem hún sýndi mér með því að gera boð eftir mér. Hér er vissulega verið að ræða um mikilvægt mál.

Mig langar til að vekja á því athygli, sem ég raunar hef áður gert í sambandi við umræður um fæðingarorlof, að ég tel að við verðum að varast að rugla saman hugtökum í sambandi við þetta mál. Þá ítreka ég að minn skilningur á orðinu „fæðingarorlof“ og sá skilningur sem lengi vel ríkti líka í umfjöllun um tryggingalöggjöf er: greiðsla sem kemur í stað þeirra atvinnutekna sem maður missir vegna forfalla af völdum fæðingar. M.ö.o.: reglur um fæðingarorlof fela í sér að það er verið að viðurkenna barnsfæðingu og nokkurn tíma í kringum þann atburð sem lögleg forföll af vinnumarkaði til að gefa móðurinni og síðar reyndar föðurnum líka tækifæri til að vera heima og sinna hinu nýfædda barni og svo líka jafna sig eftir fæðinguna. Þessu miðaði afar hægt lengi vel. Ég segi enn að ég tel að stærsta skrefið sem stigið var í þessu efni hafi í fyrsta lagi verið þegar lögleitt var þriggja mánaða fæðingarorlof kvenna sem vinna hjá hinu opinbera og svo í öðru lagi þegar lögleidd var sú skylda að greiða tiltekna upphæð í fæðingarorlof til kvenna sem voru í öðrum launþegafélögum en hjá hinu opinbera.

Nú er það svo að þegar við gerum ráð fyrir að fæðingarorlof sé greitt úr opinberum sjóðum en ekki af hálfu vinnuveitanda hvers og eins er afar örðugt eins og á stendur um okkar grundvallarsjónarmið í tryggingalöggjöfinni að lögleiða að upphæðir sem einhverjir allt aðrir en hið opinbera sjálft ákveða séu greiddar úr þeim sjóðum. M.ö.o.: það er mjög erfitt að taka upp eina tegund bóta sem greidd er úr almannatryggingasjóði og hafa hana háða almennum ákvörðunum einstakra vinnuveitenda en ekki að hún sé lögbundin ásamt öðrum grundvallarupphæðum í almannatryggingum. Ástæðan fyrir því að þetta er mjög örðugt er að það þýðir að mjög erfitt er að gera kostnaðaráætlanir. Það er ekki nóg með að við sjáum ekki alltaf nákvæmlega fyrir hversu margar fæðingar verða á hverju fjárhagsári þó að við sjáum nokkuð langt fram á það ár vafalaust. Þetta yrði allt enn þá örðugra ef upphæðirnar yrðu mismunandi eftir því hjá hvaða vinnuveitanda konan hefði unnið. Þess vegna hefur það verið mín skoðun að fæðingarorlof sem greitt er fyrir tilstilli almannatrygginga skyldi vera tiltekin upphæð, tiltekin viðmiðun sem væri sem næst meðallaunum, en hins vegar væri um það sem þar væri fram yfir sérstaklega samið milli launþega og vinnuveitenda. Ég tel að þegar við erum að fjalla um ráðstöfun fjár úr opinberum sjóðum væri slík skipan miklu eðlilegri, enda er það svo að menn hljóta tilteknar upphæðir í lífeyri, í mæðralaun og ýmiss konar bætur alveg án tillits til þess hjá hverjum maður hefur áður unnið eða hverjar tekjur manns hafa að öðru leyti verið.

Hitt er svo annað mál að það getur verið og er að mínu viti skynsamlegt að koma því kerfi á að miða við lífsafkomu manns að öðru leyti þegar litið er á lífeyrisupphæðir. Það hefur til þessa verið talið hlutverk sem almannatryggingar og lífeyrissjóðir gegndu sameiginlega en ekki einungis almannatryggingar þar sem menn eru skyldugir aðilar og greiða tilteknar fjárhæðir. Mér þykir því vanta e.t.v. grundvöllinn undir framkvæmd þeirrar hugmyndar í þetta.

Ég hef gert nokkurn greinarmun á því sem ég kalla fæðingarorlof og yrði greitt konum sem misst hafa launatekjur úti á vinnumarkaðnum vegna forfalla í kringum fæðingu og svo aftur á móti bótum eða fjárhæð sem greidd væri konum sem hvort sem er voru heimavinnandi og eiga að því er ég tel að heita, eins og bætur til handa öllum fæðandi konum, fæðingarstyrkur. Það væri einfaldlega hækkun á fæðingarstyrknum sem ákvæði gilda um þegar í almannatryggingalögum. Menn geta haft það sjónarmið að það ætti að stórhækka þann styrk. Þá verðum við líka að skoða forgangsröð á ýmsum bótum almannatrygginga. Hvað er það í raun og veru sem við teljum þar liggja mest á? Hvort er það að hækka bætur til þeirra sem eru við fulla heilsu og vel bjargálna eða þá að hækka bætur til þeirra sem e.t.v. hafa engar tekjur nema ellilífeyri? Þetta eru atriði sem á sínum tíma ollu því, þegar ég var að berjast fyrir slíku frv. fyrir ellefu árum, að ég kaus að leggja til að sjóður utan almannatrygginga fjármagnaði þessar greiðslur. Mér er ljóst að með sérstöku fyrirkomulagi er unnt að hafa þetta innan almannatrygginga, en þá verður einnig að taka enn ríkara tillit til þess að það séu alveg fastar reglur sem gilda um þessar bætur.

Að því er varðar það hvernig við viljum styðja foreldra ungra barna til að sinna þeim sem allra mest eða bæta úr ýmiss konar félagslegum örðugleikum, sem hæstv. forseti Sþ. hefur rætt um í sambandi við frumvörp sín um breytingu á lagareglum sem gilda um fóstureyðingar, ef við lítum á hvernig við viljum koma til móts við foreldra ungra barna betur en nú er gert, þá er það mín skoðun að það séu fyrst og fremst barnabætur sem við eigum að beina athyglinni að. Barnabætur ná til barna ekki aðeins nýfæddra heldur líka fram yfir þann tíma sem fæðingarorlofsgreiðslur mundu ná til foreldranna. Aftur á móti þykir mér eðlilegt að fæðingarorlofsgreiðslurnar haldi sér með svipuðum skilningi og verið hefur. Það eina sem ég tel að við gætum athugað í því sambandi væri e.t.v. lenging.

En ég vil taka fram að sjónarmiðunum sem sett eru fram í þessu frv. þykir mér að öðru leyti vera langbest fullnægt með aðferðum sem ná þá til að aðstoða börn eða öllu heldur foreldra til að annast vel þeirra afkomu og framfæri, með barnabótunum sem við eigum að beina augum að. Alveg ljóst er að vandinn minnkar ekkert hvað snertir framfæri barna þó að þau séu orðin þriggja mánaða, fjögurra mánaða, fimm mánaða, sex mánaða eða þaðan af eldri. Og hvað snertir einnig aðstoð við þá foreldra sem einstæðir eru tel ég líka að hún ætti að hafa forgang.

Það grundvallaratriði sem ég hef verið að ræða snertir hugmyndirnar um fæðingarorlof og vík ég þá aðeins að því frv. sem tengist því og liggur hér fyrir og er um hækkun á gjaldskyldu atvinnurekenda. Ég sé ekki annað en það mál sé þess eðlis að það hljóti að koma inn í viðræður aðila vinnumarkaðarins hvort ætti að fara að skylda atvinnurekendur til að greiða meira í þennan almenna sjóð. Menn standa í viðræðum út af lífeyrissjóðum sem atvinnurekendur greiða í. Atvinnurekendur greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð og slysatryggingar. Ég tel að það væri eðlilegt að opinberir aðilar og Alþingi ræddu mál sem þetta við aðila vinnumarkaðarins. Að vísu er það ekki skylt. Alþingi getur ákveðið hvað sem er með lögum. En ég hygg að reynslan sýni okkur og lýðræðishugur manna almennt sýni okkur að það sé skynsamlegt að athuga hvort þarna verði ekki samkomulag að standa að baki.