24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

181. mál, almannatryggingar

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir að hafa tekið til máls við þessa umræðu. Eftir að hafa hlýtt á hennar mál gæti ég trúað því að það þyrfti ekki ýkja margt að skilja okkar á milli í þessu máli.

Ráðherra hóf mál sitt á að tala um hvaða skilning við legðum í fæðingarorlof og vildi hún leggja þann skilning í það að fæðingarorlof væri greiðsla sem kæmi í staðinn fyrir tekjumissi vegna forfalla foreldris á vinnumarkaði. Þetta er að hluta til einnig minn skilningur og það er einmitt þess vegna sem ég hef lagt til að foreldri njóti fullra launa sinna í fæðingarorlofi.

Að auki hef ég þann skilning á fæðingarorlofi að þar sé einnig verið að greiða nokkurs konar laun fyrir vinnu sem foreldrar inna af hendi fyrstu mánuði í ævi barns. Eins og við vitum getur það verið ákaflega yndislegur en líka ákaflega annasamur tími í lífi þeirra sem í hlut eiga.

Fyrir mér er fæðingarorlof því greiðsla sem tryggir afkomu foreldra og ungabarna fyrstu mánuðina í ævi barns og að auki laun eða nokkurs konar umbun fyrir það starf sem foreldrar ungra barna inna af hendi á þessum mánuðum. Á þeim grundvelli hef ég lagt til að þeir foreldrar sem heimavinnandi eru njóti þessara greiðslna einnig og hefur mér þótt það vera lágmarksviðurkenning á þeim störfum sem heimavinnandi konur vinna alla jafnan launalaust inni á heimilum landsins og sem hvergi koma fram sem verðmætasköpun eða sem hluti af þjóðarframleiðslunni.

Hæstv. ráðh. vildi meina að það væru nokkur vandkvæði á því að Tryggingastofnun ríkisins gæti greitt fæðingarorlofsgreiðslur út samkvæmt launum foreldra vegna þess að þau væru breytileg. Ég gerði það einmitt að umtalsefni í ræðu minni áðan að sveigjanlegar kostnaðaráætlanir væru nauðsynlegar í því efni. Fæðingum getur fækkað eða fjölgað, launakjör kvenna geta breyst til batnaðar eða til hins verra. Þetta gerir strik í reikninginn. Hins vegar er það svo að opinberar stofnanir inna þegar af höndum ýmiss konar greiðslur sem eru launatengdar og fara eftir launum á vinnumarkaðnum. Ég held að það ættu ekki að vera meiri vandkvæði með fæðingarorlofsgreiðslur að þessu leyti en aðrar greiðslur af því tagi.

Eins vil ég láta það koma hér fram, sem ég gerði að umtalsefni þegar ég mælti fyrir frv. um lengingu fæðingarorlofs, að samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins eru laun kvenna á aldrinum 15-44 ára hér á landi, þ.e. þeirra kvenna sem eru í barneign og ekki njóta þegar fullra launa í fæðingarorlofi eins og opinberir starfsmenn gera og konur sem eru aðilar að Sambandi bankamanna, laun þessara kvenna, sem flestar tilheyra ASÍ, eru mjög svipuð eða mjög nálægt því að vera að meðaltali það sem fæðingarorlofsgreiðslan er í dag eða tæpar 25 þús. kr. á mánuði. Þeirra hluta vegna er því mjög auðvelt að gera nokkuð nákvæmar kostnaðaráætlanir vegna greiðslu fæðingarorlofs.

Ráðherra varpaði fram þeirri hugmynd að eðlilegt væri að Tryggingastofnun ríkisins eða ríkið greiddi út ákveðnar fæðingarorlofsgreiðslur og síðan gætu fæðingarorlofsþegar samið um afganginn við atvinnurekendur hver á sínum stað, þ.e. ef fæðingarorlofsþegi hefði hærri laun en nemur hinni föstu greiðslu. Ég held að það fyrirkomulag muni ekki reynast ýkja vel þar sem konur eru þegar í töluverðri undirmálsstöðu á vinnumarkaðnum og ég hef ekki trú á því að þær eigi hægt með að sækja sinn rétt að þessu leyti til atvinnurekenda. Ég tel það ekki vera fyrirkomulag sem er líklegt til að skila konum árangri.

Hæstv. ráðh. gerði ekki að sérstöku umtalsefni lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex mánuði, en hún ræddi um barnabætur, nauðsyn þess að auka þær og að þær væru greiddar út vegna barna sem væru orðin eldri en þau börn sem um er að ræða vegna fæðingarorlofsgreiðslna. Ég tel að ekki sé rétt að blanda saman fæðingarorlofsgreiðslum og barnabótum. Ég held að það sé æskilegt að halda þessu tvennu aðskildu. Annars vegar er um að ræða greiðslur vegna fæðingar barns og hins vegar er um að ræða greiðslur vegna framfærslu barns. Hins vegar er ég sammála hæstv. ráðh. í því að barnabætur þurfi að auka og ég hef flutt tillögur þess efnis hér á hv. Alþingi. Við afgreiðslu frv. til skattalaga fyrir rúmu ári síðan t.d. gerði ég tillögu um að þeim 200 millj. sem þá var varið til samsköttunar hjóna yrði þess í stað varið til greiðslu barnabóta. Sú till. var reyndar felld. En ég er ráðherra hjartanlega sammála um að barnabætur þarf að auka. Þær eru handhæg leið til að koma greiðslu fyrir barnauppeldi til skila til þeirra sem hlut eiga að máli.

Að lokum gerði ráðherra að umtalsefni, ef ég skildi hana rétt, að sjálfsagt væri að viðra þá tekjuöflunarhugmynd, sem ég var að gera grein fyrir áðan, í þeim samningum sem nú standa yfir milli aðila vinnumarkaðarins. Jafnframt benti hún réttilega á að Alþingi er í sjálfsvald sett að setja lög um þessa hluti. Ég er eindregið fylgjandi því að þessi hugmynd verði viðruð í umræðum aðila vinnumarkaðarins, ég hvet mjög til þess að henni verði beint þangað og að þeir sem hlut eiga að máli þar taki einhverja afstöðu til hennar.