24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

181. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Hv. flm. þessa frv. ræðir um hæfilega umbun til handa heimavinnandi húsmæðrum, þeim sem annast börn sín heima, og nefnir í því sambandi sem umbun til heimavinnandi húsmæðra fæðingarorlof jafnhátt og til þeirra sem missa af launatekjum við barnsburð. Ég er þeirrar skoðunar að þessi samanburðargrundvöllur sé alrangur.

Í fyrsta lagi: Ef frú Sigríður, sem er heimavinnandi húsmóðir, eignast barn getur hún átt kost á einhverri heimilishjálp, hún getur jafnað sig heima, hún þarf ekki að biðja neinn um frí úr vinnu sem hún kannske mundi missa ef hún kemur ekki aftur eftir 12 daga eða 14 daga eins og það var til skamms tíma. Aftur á móti er frú Guðrún útivinnandi. Hún var þannig sett áður en fæðingarorlof var lögleitt að hún varð stundum að gera svo vel að standa fyrir innan búðarborð við afgreiðslu 12 dögum eftir barnsburð. Ef hún gerði það ekki átti hún á hættu að missa vinnuna sem var lífsframfæri hennar.

Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt að rétta hlut Guðrúnar að þessu leyti og sjá til þess að hún yrði a.m.k. eins vel sett heima fyrir og sú sem áður hafði ekki verið úti á vinnumarkaðnum, þ.e. í þessu dæmi Sigríður. Ég get ekki skilið þann samanburðargrundvöll að líta svo á að Sigríður hafi misst spón úr aski sínum við það að Guðrúnu voru veitt þessi réttindi. Það get ég ekki skilið. Ég held að við verðum að vera menn til þess að rétta hlut þeirra sem eru illa settir án þess að aðrir, sem betur eru settir, sjái ofsjónum yfir því og vilji fá sams konar fjárhæðir sér til handa. Þetta er önnur ástæðan.

Hin ástæðan er að mér þykir ekki frambærileg röksemd fyrir þessu að tala um umbun til heimavinnandi húsmæðra þar eð þeirra störf séu lítt sem ekki metin til fjár. Mér þykir hv. flm. frv. vera heldur lítilþægur að telja að það sé umbun til heimavinnandi húsmóður að fá laun sem svara launum úti á vinnumarkaðnum í 3-6 mánuði. Hvað þá með allan hinn tímann sem hún er heima á sínu heimili og sinnir e.t.v. mörgum börnum eða þá konu sem hefur alls ekki legið á sæng nýlega eða er kannske barnlaus, sinnir kannske sjúklingi eða gamalmenni á heimili sínu?

Ég held að við séum að tala hér um að leysa margt ólíkt með einni og sams konar greiðslu eða bótategund úr almannatryggingum. Ég held að þau atriði, sem hér hafa verið rædd, þurfi þrenns konar lausnir:

Í fyrsta lagi eru þær konur sem eru launþegar og þurfa að fá frí en hafa öryggi samt á vinnumarkaðnum og komast í vinnu sína, sem var þeirra lífsframfæri, aftur. Þær fái fæðingarorlofið. Heimavinnandi konur geti fengið slíkt kannske í frjálsum tryggingum eða að einhverju marki eins og nú er í lögum. Til að jafna aðstöðu allra foreldra og bæta yfir höfuð aðstöðu barna og foreldra sem annast börn séu fyrst og fremst barnabæturnar. Loks tel ég að ef við erum að tala um umbun til handa heimavinnandi húsmæðrum, sem hið opinbera eigi með einhverjum hætti að standa á bak við, sé það ekki fæðingarorlofsgreiðsla sem leysir það mál heldur skattalögin. Þess vegna held ég að sú regla, sem stundum hefur verið talað um, að skipta tekjum hjóna til helminga áður en skattur er á þær lagður, sé miklu nær því að vera einhver raunveruleg umbun til handa þeim sem eru heimavinnandi eða að slíkt fyrirkomulag gefi báðum hjónum miklu meira svigrúm til að ákveða hvort aflar teknanna eða hvernig þau standa að því, hvort þau gera það bæði eða hvernig.

Með slíku fyrirkomulagi getum við komið á miklu meira jafnrétti milli heimavinnandi kvenna og útivinnandi karla, bænda þeirra, eða þá öfugt, heimavinnandi bænda og útivinnandi húsmæðra eins og stundum er nú á síðari árum. Það er ekki búið að lögvernda heitið „bóndi“ svo að maður má tala um bónda sinn enn þá án þess að brjóta lög. En þetta finnast mér vera grundvallaratriði. Til þess að ná hverju þessara markmiða fyrir sig þurfum við líka mismunandi leiðir eftir því hvert markmiðið er.