24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

181. mál, almannatryggingar

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það kom því miður fram dálítill misskilningur í máli ráðherra áðan. Ég hef ekki lagt til að heimavinnandi konur fái sömu upphæð í fæðingarorlofsgreiðslur og þær konur sem útivinnandi eru eins og hún virðist álíta. Ég hef lagt til að þær konur sem útivinnandi eru fái laun sín óskert í fæðingarorlofsgreiðslum og njóti þannig fullrar afkomutryggingar og ég hef lagt til að þær konur sem heimavinnandi eru fái þær greiðslur að fullu sem nú er miðað við í fæðingarorlofslöggjöfinni, þ.e. tæplega 25 þús. kr. á mánuði.

Ég tel að heimavinnandi konur geti engu síður en útivinnandi konur búið við fjárhagslegt óöryggi, ekki síst þær konur sem eru heimavinnandi vegna þess að þær komast ekki út að vinna vegna fjölda barna. Þær konur eru enn til á Íslandi þótt tala fæðinga gefi til kynna að þeim kunni e.t.v. að fara fækkandi. Eins eru konur sem eru heimavinnandi vegna þess að þær komast ekki út á vinnumarkaðinn þótt þær þurfi þess vegna umönnunar gamla fólksins eða vegna umönnunar fatlaðra einstaklinga. Það er því ekki síður brýnt að heimavinnandi konum sé tryggt nokkurs konar lágmarksafkomuöryggi þann viðkvæma tíma sem í hönd fer strax eftir fæðingu barns.

Ég hef margoft sagt það úr þessum ræðustól að þar með er ég ekki að leggja til að um sé að ræða einhvers konar fullnaðarumbun fyrir starf heimavinnandi kvenna. Fjarri því. Ég hef sagt: Þetta er eina færa leiðin innan ramma fæðingarorlofslaganna til að tryggja rétt heimavinnandi kvenna á meðan ekkert mat er til á störfum þeirra. Á meðan heimavinnandi konum eru ekki greidd nein peningalaun fyrir sín störf er þetta eina leiðin í fæðingarorlofsgreiðslum. Ég er þá vitaskuld eingöngu að tala um greiðslu fæðingarorlofs en ekki vanda heimavinnandi í heild sinni.

Hins vegar hef ég hér margoft talað fyrir nauðsyn þess að meta störf heimavinnandi á einhvern hátt og að þau verði á einhvern hátt talin til verðmæta í þessu þjóðfélagi. Það er vitaskuld ekki gert með fæðingarorlofslöggjöf. Í fæðingarorlofslöggjöfinni snýst málið um að ná til heimavinnandi kvenna því að við getum ekki leyst vanda heimavinnandi kvenna með löggjöf um fæðingarorlof. Því hefur aldrei verið haldið fram hér, a.m.k. ekki af þeim þm. sem hér stendur.

Ég nefndi skattalögin áðan og hæstv. ráðh. gerði það einnig. Okkur greinir á um hvernig réttur heimavinnandi verði best tryggður í skattalögunum. Ég nefndi þau lög vegna þess að þau eru einmitt dæmi um löggjöf þar sem hægt er að tryggja rétt heimavinnandi. Það er annað mál en núna vona ég að það sé nokkuð skýrt hvað fæðingarorlofsfrv. gengur út á.