24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Þetta frv. er orðinn gamall kunningi hér í hv. Ed., en ég vil ekki láta hjá líða að lýsa hér eindregnum stuðningi mínum við þá hugsun sem frv. byggir á. Ég vil einnig láta það koma fram að ég tel sjálfsagt, þótt efni þessa frv. sé til umræðu í samningum aðila vinnumarkaðarins, að Alþingi fjalli um þetta mál og móti fyrir sitt leyti stefnu í málum sem þessum. Þetta mál má skoða sem lið í því að hagræða íslensku þjóðfélagi á þann veg að aukið svigrúm verði fyrir börn, þarfir barna og þarfir foreldra barna.

Ég hef eina spurningu varðandi þetta frv. 1. gr. þess er takmarkandi. Hún kveður á um hverjir geta notið þeirra réttinda sem frv. fjallar um. Spurning mín er þessi: Því er þetta ekki haft á þann veg að hér sé um að ræða grundvallarreglu sem nær til allra launþega? ?. gr. frv. kveður á um að um áunnin réttindi sé að ræða. Ég hefði álitið að það ætti að duga sem viðmiðun til að ákveða rétt hvers og eins.

Ástæða þess að ég vek máls á þessu hér er að ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvort frv., eins og það er orðað, nær t.d. til þeirra sem eru í hlutastarfi úti á vinnumarkaðnum. Í hlutastörfum eru konur fjölmennar og ástæða þess er oft sú að þær komast ekki með góðu móti út af heimilunum til að stunda fulla vinnu vegna barna. Þetta er því hópur sem þau réttindi sem frv. kveður á um munu væntanlega skipta miklu máli. Þess vegna spyr ég: Ná þau réttindi sem frv. kveður á um til fólks í hlutastörfum? Einnig spyr ég: Ná þau til þeirra sem búa við ótryggt atvinnuöryggi, svo sem þeirra sem við fiskvinnslu starfa? Mér finnst skipta miklu að þessi réttindi nái til þessara hópa einnig því þetta eru þeir hópar sem þurfa ekki hvað síst á þeim að halda.

Eins og fram kemur í grg. með frv. njóta félagsmenn sumra launþegasamtaka þegar þessara réttinda og frv. er að nokkru leyti flutt til að félagsmenn í öðrum launþegasamtökum njóti þeirra líka ef ég hef skilið flm. rétt,. Þetta er því samræmingarfrumvarp og ég tel eðlilegt að fyrst um slíka samræmingarviðleitni er að ræða þá verði þessi mál samræmd þannig að allir launþegar njóti þessara réttinda, þar með talið fólk í hlutastörfum.