24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég er vitaskuld sammála flm. um að það þarf að vera einhvers konar fast vinnusamband á milli launþega og atvinnurekenda til þess að það fyrirkomulag sem þetta frv. kveður á um geti átt við. En hv. flm. tók alveg ágætis dæmi, dæmið um skúringarnar. Það er ljóst að ef hann réði sig í skúringar til mín í viku gætu ákvæði þessa frv. ekki átt við. Ef hann réði sig hins vegar í skúringar til mín í heilan vetur og það þarf bara að skúra hjá mér einu sinni í viku ætti þetta frv. ágætlega við hann sem starfsmann. Samt sem áður nær hann ekki þeim 1550 vinnustundum sem grg. gerir ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður þurfi að hafa til að geta fengið þessi réttindi. Það eru hlutastörf sem þessi sem ég var að tala um, þ.e. ekki daglaunastörfin, heldur þau störf sem eru innan við þennan vinnustundafjölda en byggja samt sem áður á föstu sambandi launþega og atvinnurekenda.

Ég tek einnig undir það að heppilegra væri að leysa vanda þeirra sem daglaunavinnu stunda eða eru í einhvers konar tímabundnu sambandi við launagreiðanda með því að tryggingarnar annist þeirra réttindi og ég vildi þá gjarnan sjá frv. þess efnis.