30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Það er út af þeim orðum sem hér hafa fallið. Eins og ég tók fram vænti ég þess að þetta frv. fái vandlega meðferð í þeirri nefnd sem því verður vísað til og ég þekki af nokkurri reynslu að er mjög vandvirk og vinnur störf sín af mikilli kostgæfni.

Hins vegar vil ég benda á að þetta frv. er fyrst og fremst um framkvæmd alþjóðasamninga sem við höfum gerst aðilar að. Því fylgja skyldur að gerast aðilar að alþjóðasamningum. Þær skyldur verða alltaf tiltölulega dýrari fyrir smærri þjóðir en stærri. Hins vegar tek ég alveg undir þau orð hv. 5. þm. Norðurl. e. að við verðum að gæta þess að gera ekki eftirlitið að bákni. Þess vegna eru mörg ákvæði í þessu frv. með þeim hætti að eftirlitið er sett á margar hendur þannig að reynt er að samræma þessi eftirlitsstörf. Eftirlitið fer vitaskuld eftir því hversu miklu fjármagni er varið til eftirlitsstarfa. Það fer líka eftir því hvort það ráðuneyti, sem á að sjá um framkvæmd laganna, reynir að stuðla að því að samræma þessi störf og fara ekki fram á of mikið.

Varðandi það sem segir í 5. gr., að lýsi merki „allar tegundir feitmetis sem unnið er eða kemur úr sjávarlífverum“, held ég að það væri fulldjörf túlkun á þessu ákvæði að með því væri bannað að kasta öllum fiskúrgangi í sjóinn. Það mál þarfnast frekari undirbúnings og það mál þarf líka að leysa í samvinnu við viðkomandi fagráðuneyti sem er sjútvrn. og ég vil ekki túlka á þann veg með þessu frv.

Þeir sem eru meðlimir í Æðarræktarfélaginu og einhverjum slíkum félögum líta kannske nokkuð öðrum augum á orðið „varp“ en við hinir sem höfum víða komið við. En mér er það ekkert heilagt. Ef mönnum finnst varpið vera heldur óþjált í meðferð geta þeir í nefndinni eða aðrir orðhagir menn valið sér einhver önnur orð eins og „fleygja“, „kasta“ eða „losa“. Þau koma öll til greina og jafnvel mun fleiri, mér detta þessi orð bara í hug í bili. En þetta er aukaatriði þó að mér falli vel við þetta orð. En það er eins og ég segi, menn eru misjafnlega hændir að fuglinum og vilja því ekki einangra hann sérstaklega við það. Út af fyrir sig hefur hver og einn rétt á að hafa þá skoðun.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri en endurtek það að ég vona að nefndin, sem fær málið til meðferðar, vinni vel að þessu máli því að nauðsynlegt er að samræma þessa löggjöf með þessum hætti, sérstaklega í framhaldi af þeim alþjóðaskuldbindingum sem við höfum áður tekið á okkur og líka vegna stóraukinnar hættu bæði í höfnum og á hafi úti af völdum mengunar. Þá heyrist í flestum þegar eitthvert slíkt slys á sér stað.