24.02.1986
Neðri deild: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að flytja hv. félmn. sérstakar þakkir fyrir þá miklu vinnu sem hún hefur lagt í meðferð þess lagabálks sem hér er til 2. umr. Það var alveg ljóst í upphafi að endurskoða þyrfti ýmis ákvæði þessa frv., en ég vil taka það fram að ekkert frv. hefur fengið eins mikla umfjöllun á undanförnum árum og einmitt það sem hér um ræðir, bæði á vegum endurskoðunarnefndarinnar og eins eftir að það kom frá henni, en þá var það sent hverjum einasta sveitarstjórnarmanni á Íslandi, sýslunefndarmönnum o.s.frv., og beðið um viðbrögð og sömuleiðis rætt um það á ýmsum ráðstefnum sem haldnar hafa verið um þessi mál og landshlutasamtakafundum.

Það er alveg ljóst að þetta frv. hefur aukið á umræðuna um þörfina á því að stuðla að breyttu stjórnsýslukerfi hér á landi og viðhorf til þeirra mála hafa skýrst í þeirri miklu umræðu sem um þessi mál hefur farið fram. Ég vil leggja áherslu á að þetta frv., svo mikilvægt sem er að það verði að lögum, opnar áframhaldandi umræður um þessi mál og gerir viðhorfin til þeirra skýrari þannig að menn geri sér grein fyrir því hver á sínu svæði á hvað ber að leggja meiri áherslu til framtíðar en áður hefur þekkst.

Ég tek það fram að ég geri mér grein fyrir því að auðvitað hlýtur umræðan, eftir að þetta frv. er orðið að lögum, að beinast fyrst og fremst að því hvaða ákvörðun á að taka í sambandi við hið svokallaða þriðja stjórnsýslustig. Samþykkt þessa frv. lokar á engan hátt fyrir það heldur eykur þvert á móti þörfina á þeirri umræðu og ákvörðunartöku.

Ráðuneytið mun að sjálfsögðu, eftir að þetta frv. verður að lögum, leggja gífurlega mikla vinnu og áherslu á aukið samstarf sveitarfélaga og sameiningu þeirra í stærri heildir til að taka við auknum verkefnum sem allir eru sammála um að hljóti að verða viðfangsefni á næstu misserum og árum.

Það er ljóst, eins og hefur raunar komið fram í umræðunni, að margir hv. þm. tengja þetta mál við endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem hefur farið fram um nokkurt skeið. Það er eðlilegt því að auðvitað er ljóst að um leið og aukin verkefni færast til sveitarfélaga þurfa tekjustofnar að vera fyrir hendi. Ég get sagt það hér að þessi endurskoðun er núna á lokastigi og áformað er að leggja frv. um tekjustofna sveitarfélaga fyrir í byrjun næsta mánaðar eða það tímanlega að það sé í samræmi við breytta skipan um þingsköp og hægt verði að taka það til umræðu og skoðunar og senda það út svo að taka megi það til lokaafgreiðslu á næsta þingi.

Sömuleiðis er alveg ljóst að umræðan um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er komin á það stig að það þarf að fara að vinna úr henni og taka ákvörðun. Það eru uppi áform um að viðkomandi ráðuneyti ásamt Sambandi ísl. sveitarfélaga muni taka það mál til sérstakrar umfjöllunar núna í vor og sumar og reyna að einangra þetta mál þannig að hægt sé að taka ákveðna málaflokka sem fylgja þá lokaákvörðun um breytta tekjustofna sveitarfélaga.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að lengja þessar umræður. Ég skil áhuga manna fyrir þessu máli. Þetta er mál sem snertir hvert einasta mannsbarn í þessu landi. Ekki skal ég draga úr þeim rökum sem hér hafa komið fram um að auka vald sveitarfélaganna úti um landið og efla sjálfstæði þeirra og þannig valddreifingu. Það er sú stefna sem ég vil fylgja og tel mig fylgja. Í frv. sem hér er til lokaafgreiðslu er einmitt ýmislegt sem opnar fyrir þá stefnu og gerir auðveldara að vinna að þeim málum eftir að þetta frv. verður að lögum.

Ég endurtek svo þakkir mínar til félmn. og til þeirra aðila sem að þessu frv. hafa komið. Ég vænti þess að það sem kom fram í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl., 2. þm. Reykv., verði tekið til greina og greitt verði fyrir því að þetta frv. verði að lögum sem allra fyrst til þess að hægt sé að gera þær stjórnarfarslegu aðgerðir sem til þarf til þess að þau komi til framkvæmda á þessu vori.