25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2745 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

279. mál, kaup ríkissjóðs á húseign í Borgarnesi

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin sem voru skýr og skilmerkileg nema að því er varðaði síðasta lið fsp. Hann greindi frá því að hann hefði falið Fasteignamati ríkisins að kanna það mál sérstaklega. Því vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvernig hann hyggist koma þeim upplýsingum á framfæri á hinu háa Alþingi.

Það er alveg ljóst af svörum hæstv. fjmrh. við þessum spurningum að hér hefur ekki verið staðið að verki með eðlilegum hætti þegar ríkið er að kaupa fasteign undir starfsemi á vegum ríkisins. Ég hjó eftir því að hæstv. fjmrh. sagði að samningur hefði verið gerður með fyrirvara um samþykki heilbr.- og trmrn. Ég hélt að hér þyrfti samþykki Alþingis að koma til og slíka samninga ætti að gera með fyrirvara um samþykki Alþingis, en það er ljóst af svörum hans að það var engin heimild til þessara kaupa þegar kaupin eiga sér stað. Henni er bætt inn á eftir og heimildin er veitt þegar fjárlög eru samþykkt, en þá eru þessi kaup búin og gerð.

Ég hef um það rökstuddan grun að vitneskja um þetta hafi ekki borist fjmrn. fyrr en töluvert löngu eftir að allt var um garð gengið. Ég held að mál sem þessi eigi að heyra undir eignadeild fjmrn. og ég held líka að það eigi að vera föst venja þegar ríkið kaupir fasteignir að auglýsa eftir eign. Það er gert í ýmsum tilvikum. Það var hins vegar ekki gert í þessu tilviki. Ég get svo sem ekki verið að krefja hæstv. fjmrh. svara við því vegna þess að hann hefur skýrt frá því að allt hafi þetta gerst á vegum heilbr.- og trmrh., en má vera að hæstv. heilbr.og trmrh. sé nú að greina fjmrh. frá því hvernig þessi kaup á eyrinni gerðust.

Það hefur verið afar einkennilega að þessu máli staðið. Ég vil bara spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji að hér hafi verið eðlilega staðið að því að verja fé skattborgaranna til kaupa á fasteign, hvort það séu eðlileg vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð. Ég er þeirrar skoðunar að hér hafi verið viðhöfð í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð og ámælisvert og gagnrýnivert sé hvernig hér hefur verið að málum staðið. Ég hef grun um að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi t.d. ekkert komið nálægt þessum kaupum. Ég vil eindregið mælast til þess að fá álit hæstv. fjmrh. á því hvort hér hafi verið rétt að staðið.