25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2745 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

279. mál, kaup ríkissjóðs á húseign í Borgarnesi

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi innti eftir því hvort upplýsingar yrðu veittar um niðurstöðu úr könnun Fasteignamats ríkisins varðandi samanburð á markaðsverði og þeim kaupsamningi sem gerður var um þetta húsnæði. Að sjálfsögðu verða þær upplýsingar veittar þegar niðurstöður liggja fyrir.

Varðandi vinnubrögð við kaup á fasteignum skal ég taka fram að fjmrn. skrifaði ráðuneytum bréf í byrjun októbermánaðar þar sem greint var frá tillögum fjmrn. í fjárlagafrv. um heimildir er snerta eignir og fjárlagafrv. gerði ráð fyrir að heimilt yrði að kaupa. Í þessu bréfi segir svo, með leyfi forseta:

„Heimildir í fjárlögum eru háðar ákvörðunum fjmrh. Ráðuneytið lítur svo á að fallist Alþingi á heimildir þessar verði beiting þeirra í höndum fjmrh., þar með talið umboð til kaupa og afsals eigna.“

Ég tel rétt og nauðsynlegt að á þann veg verði farið með heimildir í fjárlögum til kaupa og afsals á eignum. Út af því hefur verið brugðið í þessu tilviki. Fjmrn. mun fyrir sitt leyti ganga eftir því við önnur ráðuneyti að þessari starfsreglu verði fylgt. Það á hins vegar eftir að koma í ljós þegar mat liggur fyrir af hálfu Fasteignamats ríkisins hvort það verð sem kaupsamningurinn gerir ráð fyrir sé í eðlilegu samræmi við markaðsverð á íbúðum í Borgarnesi á þessum tíma og verður ekki leitt í ljós fyrr en það mat liggur fyrir. En ég er þeirrar skoðunar og mun fylgja því eftir af minni hálfu að þær heimildir sem veittar eru í fjárlögum verði nýttar með þessum hætti þannig að fjmrn. hafi frumkvæði og annist þá samningsgerð til þess að fyllsta samræmis sé gætt og fjárskuldbindingar ekki gerðar nema í samræmi við þá hagsmuni sem fjmrn. er ætlað að gæta.