25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

256. mál, leghálskrabbameinsleit

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Megintilgangur þessara tveggja fsp., sem hvor fylgir annarri á tveimur þskj., er sá að á s.l. mánuðum hafa konur, margar konur, komið að máli við mig og kvartað yfir því hve hátt skoðunargjald þær þurfa að greiða hjá leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands fyrir leghálskrabbameinsleit. Með samanburði sín á milli hafa þær komist að því að gjaldið hefur hækkað, sem konur eiga að greiða fyrir skoðun, og veit ég til þess að einhverjar stúlkur og konur hafa hætt við að koma í skoðun vegna þess að gjaldið er of hátt.

Margar konur hafa það naumt fé milli handa, eins og hv. 10. landsk. þm. gat um áðan, að þeim getur reynst erfitt að greiða þær 750 kr. sem upp eru settar fyrir slíka skoðun og laun margra kvenna eru svo lág, 20-30 þús. kr. á mánuði, að slík fjárhæð skiptir máli og ekki síst síðari hluta mánaðar. Auk þess eru margar konur sem láta sjálfar sig mæta afgangi og bíða, en setja þarfir annarra ofar. Inn í þetta kemur svo einnig skortur á fræðslu um mikilvægi slíkrar skoðunar, kvíði gagnvart skoðuninni sem slíkri og síðan misjafnlega mikið dulinn ótti við krabbamein sem fælir konur frá skoðun. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja á þskj. 487 hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„1. Hve mikinn hluta kostnaðar af leghálskrabbameinsleit hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins greiða konur sjálfar? Hverjir aðrir aðilar taka þátt í greiðslu þess kostnaðar? Er sama gjald tekið af konum við slíka skoðun um land allt?

2. Hefur einhver breyting orðið á hlutdeild kvenna í þeim kostnaði á s.l. ári?

3. Ef svo er, hefur sú breyting haft áhrif á aðsókn kvenna að leitarstöð Krabbameinsfélagsins?"