25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2757 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

251. mál, stofnun húsfélaga

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Á þskj. 481 flyt ég fsp. til félmrh. um stofnun húsfélaga í húsum sem byggð voru á vegum Byggingarfélags verkamanna. Fsp. er í tveimur liðum:

„1. Hvers vegna mega íbúðareigendur einstakra húsa, sem byggð voru á vegum Byggingarfélags verkamanna, ekki stofna húsfélög um hvert hús eins og íbúðareigendur í fjölbýlishúsum?

2. Hvers vegna gefur ráðherra út reglugerð með ákvæðum um húsfélög, sbr. 31. gr. reglugerðar nr. 89/1985, með stoð í 66. gr. laga nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, en frestar framkvæmd laganna þó að ákvæðum reglugerðar hafi verið fullnægt?"

Í 66. gr. laga nr. 60/1984 - það eru lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins sem þá voru samþykkt - segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er félagsmönnum í byggingarfélögum verkamanna, sem annast sameiginlegt viðhald á íbúðum félagsmanna, að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976, um fjölbýlishús, þannig að húsfélögin taki sameiginlegt viðhald í sínar hendur. Félmrh. setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.“

Ég hef þessa reglugerð reyndar ekki undir höndum en í grófum dráttum fjallar 31. gr. reglugerðarinnar um það að einstakir byggingarhlutar, sem byggðir voru af Byggingarfélagi verkamanna á sínum tíma, verði að stofna sameiginlega húsfélög og lýsa til þess vilja sínum. Það er þá um það að ræða að mörg hús verða að stofna húsfélag sameiginlega.

Nú hafa einstakir byggingarflokkar lýst áhuga sínum á því að stofna slík húsfélög í samræmi við þessi ákvæði reglugerðarinnar en samt sem áður verður ekki af því að til þess komi. Út á það gengur eiginlega mín fsp. til hæstv. félmrh.: Hvað er það sem kemur í veg fyrir að þetta fólk fái að mynda húsfélög með þeim hætti sem reglugerðin gerir ráð fyrir? Í raun hefði ég viljað ganga lengra í þessu tilviki og spyrja: Hvað er það sem kemur í veg fyrir að þetta fólk fái að stofna húsfélög um sínar eignir eins og annað fólk, þ.e. ekki það að mörg hús þurfi að koma saman til þess að stofna húsfélag, eins þungt og það er augljóslega í vöfum, heldur að hvert hús fyrir sig geti stofnað húsfélag um sína eign?

Það hafa farið fram þó nokkrar bréfaskriftir milli ráðuneytisins og þessa fólks og þær bréfaskriftir enda þann 16. janúar þegar félmrn. sendir viðkomandi hópi bréf sem ég vil mega lesa, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Eftirfarandi skal upplýst: - Ofangreint erindi var tekið fyrir á fundi félmrh. með fulltrúum BVR [Byggingarfélags verkamanna í Reykjavík] og stjórnar Verkamannabústaða í Reykjavík þann 13. janúar 1986. Niðurstaða þess fundar var sú að gerð skuli athugun á því með hverjum hætti uppgjör BVR við sérhverja íbúð í byggingarflokknum . . . hvað varðar viðhaldskostnað geti átt sér stað þannig að framkvæmanlegt verði að hvert hús stofni sitt eigið húsfélag og taki að sér sameiginlegt viðhald þeirra. Uppgjör þetta mun taka nokkurn tíma. Að því loknu verður tekin til athugunar í ráðuneytinu breyting á reglugerð nr. 89/1985 um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðabyggingar að því er lýtur að því atriði er hér um ræðir.“

Því les ég þetta bréf upp að ég vil spara hæstv. félmrh. að tjá mér slíka hluti, heldur æski ég þess að svar hans beinist að því að skýra í hverju vandinn liggur og hvenær þetta fólk má vænta úrlausnar sinna mála.