25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

251. mál, stofnun húsfélaga

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ein af ástæðunum fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að afgreiðslu þessara mála þarf að hraða vegna þess að við erum að tala um það t.d. að í þessum hópi er mikið af ellilífeyrisþegum sem greiða að meðaltali um 2000 kr. á mánuði í viðhaldskostnað í þessum byggingarflokkum, svona meðalbúð, og það þýðir að þeir greiða sem sé tveggja mánaða elli- og lífeyristryggingu á ári í viðhald á þessum húsum. Hvað sem fullyrðingum manna líður virðist manni við nánari athugun að það séu svona alls kyns aðferðir í því að framfylgja þessu eftirliti og þar komi ekki alltaf vilji íbúa hvers húss endilega til skila þegar um ræðir.

Ég held að fullyrðingar þess fólks sem hér um ræðir séu réttar og sannar. Hér er um að ræða ákveðið mál sem ekki verður leyst innan þessa félags. Ég held að ráðherra eða ráðuneyti verði að leysa þetta mál. Við erum að tala um 15 byggingarflokka, 526 íbúðir, eins og ráðherrann sagði, byggðar á mjög löngu árabili, í mjög mismunandi ástandi, og við erum að tala um það að Byggingarfélagi verkamanna í Reykjavík er haldið á lífi vegna þess að það á samkvæmt orðanna hljóðan að innheimta afborganir af þessum íbúðum sem um ræðir sem enn þá eru í gangi. Þar erum við að tala um það að innheimta peninga sem eru fyrir löngu orðnir algjörlega verðlausir og gjörsamlega skynsemislaust að halda áfram að innheimta í raun og veru. Að sama skapi erum við að tala um það að gera upp viðhald undanfarinna ára þar sem hver sú upphæð sem um ræðir, sem er orðin meira en fjögurra eða fimm ára gömul, er gjörsamlega marklaus í raun og veru og þýðingarlaust að tala um hana eða hugsa um að taka tillit til hennar í þessu uppgjöri. Þess vegna álít ég að hér sé virkilega verkefni fyrir hæstv. félmrh., að fara að dæmi hins forna nafna síns og höggva á þennan hnút með sama hætti og hann gerði og leysa hann í eitt skipti fyrir öll með því að gefa mönnum sem þarna um ræðir fyrirskipun um að leysa þetta mál hér og nú og taka alls ekki tillit til þeirra hluta sem eru eldri en fimm ára í þessu dæmi.