25.02.1986
Sameinað þing: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

277. mál, rannsókna- og tilaraunastöð fiskeldis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð í sambandi við þessa þáltill. sem hér er til umræðu. Ástæðan fyrir því er m.a. sú að ég á sæti í nefnd sem er að fjalla um þessi mál og á, eins og segir í skipunarbréfi til nefndarinnar, að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar. Í þessari nefnd eru átta menn, þar af þrír alþm., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Kjartan Jóhannsson auk mín. Í þessari nefnd eru menn með nokkuð mikla þekkingu á þessu sviði, þ.e. Árni Ísaksson og Jónas Matthíasson. Þeir hafa bæði þekkingu og reynslu í þessum málum.

Ég held að ég megi segja að þessi nefnd sé á einu máli um að það sé sjálfsagt að reyna að efla tilraunastöðina í Kollafirði til að annast þær rannsóknir eða hafa yfirumsjón með rannsóknum sem þarf að gera í þessum málum. Gallinn er bara sá í augnablikinu að stöðin er þannig sett að hún má ekki selja neitt frá sér og þannig gæti það farið í tvö, þrjú ár eins og nú horfir. Því miður eru fleiri stöðvar með þennan nýrnasjúkdóm sem gætu lent í sölubanni á seiðum. Það er ákaflega erfitt um vik varðandi allar rannsóknir á meðan á þessu banni stendur, a.m.k. í stöðinni sjálfri. Það er þungt áfall þegar svona kemur upp og ekki síst í rannsókna- og tilraunastöð.

Það er áreiðanlega rétt, sem hefur komið fram hjá þeim tveimur hv. þm. sem hafa rætt um þessi mál hér, að hér á landi virðast vera mjög miklir möguleikar í sambandi við fiskeldi. Það byggist fyrst og fremst á jarðhitanum. Menn eru nokkuð bjartsýnir með þetta kvíaeldi. Ég var að heyra það að í Grundarfirði eru þeir að hugsa um mikið kvíaeldi í sjó. En það getur engum blandast hugur um það að þarna er um verulega áhættu að ræða. T.d. hafa verið gerðar mælingar í sjó fyrir Suðurlandi, t.d. inni í Hvalfirði. Þá hefur hitinn farið ofan í 0 gráður í staðinn fyrir að hitinn á Grundarfirði virðist vera um 3 gráður. Maður hefði ekki trúað þessu að óreyndu en mælingarnar sýna þetta hvort tveggja.

Ef hitinn í Hvalfirði mundi falla um 0,6 gráður eða rúma hálfa gráðu er sá fiskur, sem er í kvíaeldi þar, kominn í hættu. Í Grundarfirði eða annars staðar fer þetta svo mikið eftir straumum, þetta árið getur þetta blessast, annað árið ekki.

Næstkomandi fimmtudag hefst ráðstefna í Ósló þar sem sérfræðingar víðs vegar að úr heiminum koma saman til að bera saman bækur sínar um eldi á landi í tönkum. Það er verið að prófa þetta í Norður-Noregi og við vitum það náttúrlega að hafinn er undirbúningur undir slíkt hér á landi. Talið er að þarna höfum við möguleika fram yfir flesta aðra vegna jarðhitans. En það er ekki nóg að hafa jarðhita, það þarf líka að hafa nægilegt ferskt vatn.

Norðmenn eru komnir langt á þessu sviði. Ég tók eftir því að frummælandi, hv. þm. Björn Dagbjartsson, minntist t.d. á að við ættum hugsanlega að taka upp lúðueldi. Norðmönnum hefur ekki tekist að klekja út lúðu, það lifðu aðeins tvö seiði í haust hjá þeim frá s.l. vori og þeir eru búnir að átta sig á því hvers vegna. Þær lifa á miklu dýpi og þyngdarþrýstingur er mikill og allt annar en er á þessum landstöðvum. E.t.v. komast þeir yfir það. En ýmislegt annað eldi gengur þar vel, sérstaklega með sandhverfu, og með bleikju bæði frá Noregi, Íslandi og Kanada. Ég hef ekki trú á að á næstunni verði hægt að stunda lúðueldi enda er það kannske óþarfi vegna þess að sandhverfan er fiskur sem er mjög gott að eiga við í eldi og er svipað verð á á erlendum mörkuðum. Það er mikill möguleiki líka á urriða og jafnvel þorski, Norðmenn virðast vera búnir að ná tökum á því.

Ég ferðaðist dálítið um Norðurlönd í fyrrasumar á eigin vegum og skoðaði tilraunastöðvar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Í Svíþjóð eru þessar tilraunastöðvar fjármagnaðar af virkjununum eingöngu. Í Danmörku er þetta með líku sniði og þáltill. leggur til, þ.e. að það er þjónusta við þá sem reka eldisstöðvar. Í stöð, sem er í úthverfi Kaupmannahafnar, eru einir tíu sérfræðingar á ýmsum sviðum sem þjóna þessum stöðvum og selja sína þjónustu.

Sú nefnd, sem fær þessa till. til umfjöllunar, ætti að skoða þessi mál mjög vel. Ég er ekki alveg sannfærður um að það sé rétta lausnin sem þarna er lögð til. Ég held að ríkið eigi fyrst og fremst að reka þessa stöð, eina stöð. Það getur verið spurning hvort eigi að selja þessa þjónustu. En ég legg til að þessi mál verði skoðuð. Þetta eru brýn mál og það þarf að hefjast handa sem fyrst.