25.02.1986
Sameinað þing: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

277. mál, rannsókna- og tilaraunastöð fiskeldis

Flm. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Fyrst og fremst vildi ég gera það að tillögu minni að þessari till. verði vísað til hv. atvmn. sem mér láðist að gera áðan. Í öðru lagi vildi ég þakka þær undirtektir sem till. hefur fengið.

Mér fannst gaman að hv. 4. þm. Norðurl. e. minntist á hinn merka mann Þórð í Koti og má vísa á gagnmerka grein um þann mann og hans merku störf í Árbók Þingeyinga eftir dóttursonarson Þórðar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um annað sem fram kom hjá hv. þm. Ég vildi þó aðeins minnast á lúðueldi sem hv. 3. þm. Norðurl. e. kom hér inn á. Það er rétt - ég hef líklega þessar sömu upplýsingar og hann - að lúðuklak hefur gengið ákaflega stirðlega hjá Norðmönnum. Hins vegar hefur þeim tekist að ala lúðublöð upp og það er að takast hér líka í smærri tilraunum suður á Reykjanesi. 140 lúðublöð, sem veidd voru s.l. haust, hafa nú tekið vel við sér, aðeins 7 þeirra hafa drepist. Nú er búið að kenna þeim átið og þau eru að byrja að taka við sér. Þessar hugmyndir held ég að séu allrar skoðunar verðar en ég er alveg sammála hv. þm. um það að sjálfsagt er langt í land með það að við getum stjórnað öllum þeim lífsferli. Að öðru leyti vil ég ekki orðlengja þetta frekar en þakka undirtektir.

Umr. (atkvgr.) frestað.