27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

287. mál, aðild Spánar og Portúgals að Efnahagsbandalagi Evrópu

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Það mál sem hér er til meðferðar hefur verið kynnt hv. Alþingi. Það var kynnt utanrmn. s.l. mánudag og á þriðjudag gerði hæstv. viðskrh. grein fyrir efni þessarar þáltill. Ætla ég ekki að lengja fundinn með því að rifja þau atriði upp. Þetta er um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd tvær viðbótarbókanir sem til eru komnar vegna aðildar Spánar og Portúgals að Efnahagsbandalagi Evrópu og Kola- og stálbandalagi Evrópu.

Eins og kunnugt er var Portúgal meðlimur EFTA fram að síðustu áramótum, en gekk þá úr því bandalagi yfir í Efnahagsbandalagið. Það gerir nauðsynlegt að útvíkka samkomulag EFTA-ríkjanna við Efnahagsbandalagið svo að það nái til Spánar og Portúgals.

Eins og fram hefur komið, bæði í athugasemdum við þessa þáltill. og í ræðu hæstv. viðskrh., hefur þetta sáralítil áhrif á viðskipti Íslands við téð lönd að sinni. Reyndar má gera ráð fyrir að þetta verði fremur hagkvæmt þegar fram í sækir. Það var einróma álit utanrmn. að mæla með því að þáltill. verði samþykkt. Einu athugasemdirnar sem fram komu voru þær að málið væri seint fram komið og æskilegt hefði verið að hið háa Alþingi hefði haft meiri tíma til að kynna sér það, en með tilliti til þess að hér er um nokkuð sjálfsagt mál að ræða og enn fremur að gerð var rækileg grein fyrir því í utanrmn. af ráðuneytisstjóra viðskrn. telur nefndin ekki ástæðu til að gera neina sérstaka athugasemd við þetta, mælir sem sagt einróma með samþykkt ályktunarinnar.