27.02.1986
Neðri deild: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Hjörleifur Guttormsson (frh.):

Herra forseti. Ég átti eftir að gera grein fyrir brtt., sem ég flyt við frv. til sveitarstjórnarlaga, á þskj. 545, en fyrr í máli mínu dró ég saman ýmis atriði sem varða þróun byggðamála að undanförnu og hversu afar skuggalega horfir þar á mörgum sviðum eins og ég nefndi um mörg skýr dæmi. Ég tel því að við meðferð þessa máls sé mjög brýnt að leitað verði nýrra leiða í sambandi við stjórnskipun í landinu til þess að treysta stöðu landsbyggðarinnar. Brtt. mín lýtur að þessu markmiði og mun ég nú víkja að henni.

Ég geri till. um að við 6. gr. frv. í stað 1. málsgr. komi tvær nýjar málsgr. sem orðist svo:

„Sett skal á fót nýtt stjórnsýslustig, héruð, milli ríkis og sveitarfélaga til að treysta byggð í landinu, koma á virku lýðræði og dreifa valdi frá ríki til landshluta.

Verkefni, sem sýslunefndum hafa verið falin með lögum, skulu falla til héraða nema sveitarfélög komi sér saman um annað.“

Í öðru lagi flyt ég um það till. að IX. kafli frv., væntanlegra laga, orðist svo:

„Um héruð. 97. gr. Landinu skal skip í héruð svo sem hér segir:

1. Suðurnes. Nær yfir Gullbringusýslu, Grindavíkur-, Keflavíkur- og Njarðvíkurkaupstað.

2. Kjalarnes. Nær yfir Kjósarsýslu, Reykjavík, Hafnarfjarðar-, Seltjarnarnes-, Kópavogs- og Garðakaupstað.

3. Vesturland. Nær yfir Vesturlandskjördæmi.

4. Vestfirðir. Nær yfir Vestfjarðakjördæmi.

5. Norðurland vestra. Nær yfir Norðurlandskjördæmi vestra.

6. Norðurland eystra. Nær yfir Norðurlandskjördæmi eystra.

7. Austurland. Nær yfir Austurlandskjördæmi.

8. Suðurland. Nær yfir Suðurlandskjördæmi.“

Ég vil víkja aðeins nánar að efni þessarar greinar. Hér er það lagt til að landinu verði skipt upp í átta héruð. Varðandi sex þeirra verði fylgt núverandi kjördæmismörkum, en um tvö þeirra, þ.e. suðvesturhornið, suðvesturhlutann, Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi, verði breytt til um mörk þannig að Suðurnes verði sér en Stór-Reykjavíkursvæðið verði sameinað í einu héraði.

Ég viðurkenni vissulega að skipting af þessu tagi er alltaf álitamál og ég tel það út af fyrir sig ekki meginmál í þessu samhengi hvar slík mörk eru dregin og væri reiðubúinn til þess að skoða aðrar hugmyndir.

Eins og menn muna og vita er í IX. kafla frv. gert ráð fyrir myndun héraða með öðrum hætti en hér er gerð till. um. Meiri hl. félmn. leggur til að sá kafli í heild falli brott. Þar var gert ráð fyrir tvöfalt fleiri héruðum að mig minnir og skiptingu sem fylgdi nokkurn veginn sýslumörkum, þó ekki alls staðar að mig minnir, en í meginatriðum fylgt sýslumörkum. Það eru átján héruð sem þar er lagt til að stofnuð yrðu, eða héraðsnefndir eins og það er kallað, en hér er gert ráð fyrir mun stærri svæðum eða átta og að fylgt verði kjördæmismörkum sem meginreglu með fráviki hér suðvestanlands.

Í máli hv. 5. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar í gær kom það fram að hann mælti mjög eindregið með því að stofnað yrði þriðja stjórnsýslustig, en taldi að þar ættu menn að endurreisa hina fornu fjórðunga og hafa þetta enn stærri svæði en ég er að leggja til. Ég tel ekki vera nein skýr rök fyrir slíkri skipan mála í rauninni og tel vafasamt að farið sé út í slíka skiptingu, tel að þau svæði sem þar er um að ræða séu í rauninni of stór miðað við þau markmið sem æskilegt er að ná fram með slíku nýju stjórnsýslustigi. En ég trúi því ekki að þetta sé meginásteytingsefni og að það sé ekki hægt að ná saman milli þeirra sem eru í reynd þeirrar skoðunar að stofna beri slíkt stjórnsýslustig. Það kom fram hjá hv. þm. þegar hann var um það spurður að fjórðungamörkin eru ekki alveg skýr og klár, a.m.k. reyndust þau ekki vera það hjá honum, og ég hygg að það hafi gerst breytingar á þjóðveldisöld í sambandi við þau efni. Heyrt hef ég það að mörk Austurlands- gagnvart Suðurlandsfjórðungi hafi verið um Fúlalæk eitt sinn eða Jökulsá á Sólheimasandi og báðar Skaftafellssýslur hafi fylgt Austfirðingafjórðungi hinum forna, að minnsta kosti um skeið. Um þetta vil ég ekki neitt fullyrða, ég hef ekki kannað þetta sérstaklega, en nefni þetta hér vegna þess sem fram kom í máli hv. þm.

Ég eyði ekki frekar orðum að þessari tillögu um svæðaskiptinguna, um skiptingu landsins í héruð, en brtt. mín við 98. gr. er þannig, með leyfi forseta: „Héruð taka við svæðisbundnum verkefnum frá ríkinu eftir því sem fjármagn og tekjustofnar leyfa og Alþingi og viðkomandi héraðsþing samþykkja. Einnig geta sveitarfélög innan héraða falið þeim stjórn eða umsjá sameiginlegra mála að fengnu samþykki héraðsþinga.

Færa skal frá ríki til héraða hið fyrsta m.a. eftirtalda málaflokka að því er varðar svæðisbundin verkefni: húsnæðismál, almannatryggingar, skipulagsmál, byggðamál, menntamál, þjóðminjavernd, heilbrigðismál, vegamál, orkumál, opinbert eftirlit (með rafmagni, heilbrigði, öryggi og annarri hliðstæðri starfsemi), ráðgjöf í atvinnumálum.

Samhliða slíkri tilfærslu verkefna til héraða skal dregið úr umsvifum stjórnarráðsins og ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu.“

Með þessari till., herra forseti, er alveg ljóst að fyrst og fremst er um að ræða að flytja verkefni frá ríkinu út til héraðanna, en síðan er það hreint samkomulagsatriði við sveitarstjórnir á viðkomandi svæði hvort og í hve miklum mæli héruðin yfirtaka verkefni frá sveitarfélögunum. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin hafi ekki rétt til að skylda héruðin til þess heldur þurfi héraðsþingin að samþykkja slíka yfirtöku verkefna ef óskað er eftir og samkomulag er um. Þetta bið ég menn að hafa í huga. Þetta er alveg skýrt eins og það er lagt fyrir. Hér er það fyrst og fremst tilfærsla á verkefnum frá ríkinu, frá hinu miðstýrða valdi sem safnast hefur upp í höfuðstað landsins, í stjórnarráði og stofnunum, sem gert er ráð fyrir að færa út í landshlutana. Upptalningin er ekki tæmandi. Auðvitað koma margir fleiri málaflokkar til álita og vissulega getur tekið tíma að ná slíkri tilfærslu fram. Aðalatriðið er að ganga í verkið og styrkja héruðin og styrkja landsbyggðina alveg sérstaklega með þeirri tilfærslu sem þarna er um að ræða þó að héraðaskipanin varði einnig höfuðborgarsvæðið og falli mjög vel að því samstarfi og nauðsynlega samráði sem þarf að verða á þessu svæði og samstöðu um margháttaða þjónustuþætti sem ríkið nú veitir og sveitarfélögin gætu lagt til ef þeim sýnist til Kjalarness.

Varðandi nafngiftina Kjalarnes tek ég það fram að hún er ekki frá mér komin. Ég tók hana upp úr frv. sjálfu þar sem gert var ráð fyrir Kjalarneshéraði með sömu mörkum og þarna er gert ráð fyrir. Ég hefði alveg getað hugsað mér Kjós eða eitthvert annað heiti á þetta hérað og eftirlæt mönnum út af fyrir sig að spreyta sig á slíkri nafngift.

Í 99. gr., herra forseti, er vikið að tekjustofnum héraða og þar gert ráð fyrir að til þeirra renni framlög frá ríkinu skv. fjárlögum og þá skipt svæðisbundið á málaflokka sem héruðin yfirtaka frá ríkinu. Ég geri sem sagt ráð fyrir því að það verði ráðstafað við gerð fjárlaga óskiptu fjármagni til einstakra málaflokka yfir til héraðanna og það væri verkefni héraðsþinganna að skipta því niður. Alþm. losni við það verkefni, ég skal ekki segja hversu kært það er mönnum, að vera að skipta aurunum, sem ráðstafað er í þessa málaflokka við fjárlagaafgreiðslu, niður á einstaka þætti. Ég tel miklu farsælla að fela heimamönnum að glíma við það verkefni og ég er alveg viss um að þó það geti valdið mönnum höfuðverk á þeim vettvangi ekki síður en hér á Alþingi leiði það fyrr en varir til skynsamlegri deilingar og samvinnu um verkefni innan héraða í þeim málum sem um er að ræða og þá fyrr en varir til betri nýtingar fjármagns og betri verkaskiptingar og ákvarðana um einstaka þætti. Ég er alveg sannfærður um að ef við berum gæfu til að lögfesta þessa skipan, sem hér er gert ráð fyrir, verður það fyrr en varir til þess að heimaaðilar ná fyrr saman um verkefni og hagfellda skipan stórra mála en nú er.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að meðal tekjustofna héraða verði hluti af heildartekjum ríkissjóðs af söluskatti samkvæmt nánari ákvörðun af hálfu Alþingis. Hversu stór hluti það yrði er ekki gert upp hér. Því er vísað til nefndar, sem gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða, en það gæti orðið umtalsverður hluti og síðan skipt á héruðin í samræmi við íbúatölu. Þarna er um að ræða aukið fjármagn. Þarna yrði um að ræða fjármagnstilfærslu af þessum gildasta tekjustofni ríkisins sem nú er ráðstafað að meginhluta eða verulegu leyti hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Þannig mundi vera um að ræða tekjutilfærslu til landsbyggðarinnar umfram það sem gerist við núverandi skiptingu, t.d. í fjárlögum.

Þá er gert ráð fyrir því að aðstöðugjald eða hluti af aðstöðugjaldi fyrirtækja og stofnana í ríkiseigu eða sem ríkið á hlut að renni til héraða, svo og gjald frá aðilum sem fá stóran hluta tekna sinna af viðskiptum víða um land. Það eru nefnd tryggingafélög, skipafélög, innflutningsfyrirtæki - sem eru jú ekki fá hér í Reykjavík fyrst og fremst - bankar og hliðstæð fyrirtæki. Gert er ráð fyrir ákvörðun í sérlögum um skiptingu á þessu gjaldi.

Síðan sem 4. atriði í d-lið, að sveitarfélögin leggi til héraða fjármagn í samræmi við þau verkefni sem þau kjósa að ráðstafa til héraða.

Þetta er um tekjustofnana og vissulega getur sitthvað fleira komið þarna til greina, en það skiptir auðvitað ekki öllu máli að þarna fylgi með fjármagn til ráðstöfunar, eins og hér er gerð till. um, og saman fari yfirtaka verkefna og nauðsynlegt fjármagn - og aukið fjármagn - út til landsbyggðarinnar í þessi verkefni.

Í 100. gr. er fjallað um héraðsþingin og segir þar, með leyfi forseta:

„Héraðsþing fara með málefni héraða, þar á meðal skiptingu fjármagns til framkvæmda og rekstrar í málaflokkum sem héruð taka að sér, sbr. 98. gr.

Til héraðsþinga skal kosið í almennum hlutfallskosningum fjórða hvert ár, um leið og kosið er til sveitarstjórna, samkvæmt nánari reglum í kosningalögum.

Fjöldi fulltrúa á þingi hvers héraðs skal vera fimmföld tala alþm. sem kjörnir eru í viðkomandi kjördæmi þar sem saman fara mörk héraðs og kjördæmis. Í Suðurnesjahéraði skal kjósa 30 fulltrúa á héraðsþing og í Kjalarneshéraði 60 fulltrúa.

Kjósa skal jafnmarga varamenn á héraðsþing af hverjum lista og aðalmenn eru.

Alþm. viðkomandi kjördæma eiga rétt til setu á héraðsþingi með málfrelsi og tillögurétti, svo og varamenn þeirra.

Einnig eiga rétt til setu á héraðsþingi með málfrelsi og tillögurétti fulltrúar frá sveitarstjórnum í héraðinu, einn frá hverjum lista sem fengið hefur kjörinn fulltrúa í sveitarstjórn, svo og sveitarstjórar. Sveitarstjórn, sem kosin hefur verið óhlutbundinni kosningu, hefur á sama hátt heimild til að senda einn fulltrúa á héraðsþing.

Kostnað af setu alþm. á héraðsþingum greiðir Alþingi samkvæmt nánari reglum. Kostnað af þátttöku fulltrúa sveitarstjórna á héraðsþingum greiða viðkomandi sveitarfélög.“

Í 101. gr. er fjallað um tilhögun á starfi héraðsþinga svofellt:

„Héraðsþing skulu koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári, í janúar- og septembermánuði og er hinn síðari fundur aðalfundur. Í janúar skal skipt fjármagni til einstakra verkefna, m.a. á grundvelli fjárlagaafgreiðslu. Héraðsþing kýs árlega héraðsstjórn með hlutfallskosningu og skulu stjórnarmenn eigi vera færri en sjö. Héraðsstjórn fer með málefni héraðsins milli héraðsþinga og í umboði þeirra og ræður framkvæmdastjóra fyrir héraðið, undirbýr mál fyrir héraðsþing og hefur umsjón með viðfangsefnum í samvinnu við hlutaðeigandi.“

Þetta eru þær greinar sem fjalla um héraðsþingin, hvernig til þeirra er kjörið, hverjir hafa þar seturétt fyrir utan kjörna fulltrúa og um lágmarksfundahald á vegum héraðsþinganna.

Eins og hér kemur fram, herra forseti, er það tillaga mín að kosið verði með beinum hætti í hlutbundinni kosningu fjórða hvert ár til héraðsþinga. Um tölu fulltrúa á héraðsþingum er gert ráð fyrir tölu sem er nálægt 30 varðandi minnstu kjördæmin, heldur meira varðandi kjördæmi sem fjölmennari eru og sérreglu varðandi Suðurnesja- og Kjalarneshérað. Auðvitað er ákvörðun um fjölda fulltrúa á héraðsþingi álitamál og sú viðmiðun, sem hér er sett fram, er mér engan veginn heilög. Það kann að vera að eitthvað fleiri eða eitthvað færri væri skynsamleg skipan mála. Þetta er álitamál og ég er mjög sáttur við að það verði athugað nánar ef áhugi er á því að ná saman um þessa tillögu.

Ég tel æskilegt að tengja alþm. við störf héraðsþinga með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, þó þannig að þeir séu þar ekki með atkvæðisrétti. Menn benda eflaust á að þeir þurfi að deila sér upp á tvö héraðsþing í Kjalarneshéraði og Suðurnesjahéraði. Ég tel þeim það enga ofætlan að skjótast á milli á þessu landsvæði þar sem samgöngur eru greiðar og vegalengdir stuttar og unnt sé að haga þinghaldi þannig að þm. Reykjaneskjördæmis, sem hér ættu í hlut, gætu farið á milli og fylgst með störfum þessara héraðsþinga.

Einnig er hér að mínu mati gert ráð fyrir eðlilegri aðild sveitarstjórnarmanna að héraðsþingum, sem auðvitað er nauðsynlegt að geti fylgst með störfum þeirra og haft þar eftir atvikum áhrif á afgreiðslu mála.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, að lengja ræðu mína með því að fara yfir þær greinar sem ótaldar eru, 102.-105. gr. sérstaklega, þar sem er meira um að ræða fyrirkomulagsatriði og tæknileg atriði varðandi starfsemi héraðsþinga, fundasköp, kostnað af störfum þeirra og gerð fjárhagsáætlunar. 105. gr. er samhljóða till. í frv. því sem hér er til umræðu en síðan er ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

„Vegna ákvæða laga þessara um héruð sem þriðja stjórnsýslustig skal sett á fót nefnd á vegum félmrn. með aðild eins fulltrúa frá hverjum þingflokki og fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nefnd þessi skal gera nánari tillögur um tekjustofna héraða, sbr. 99. gr., og tilfærslu verkefna frá ríki til héraða, sbr. 98. gr. Nefndin skal einnig fjalla um önnur álitaefni vegna tilkomu héraða sem nýs stjórnsýslustigs og skila tillögum sínum fyrir 1. okt. 1986.“

Þetta er tillaga mín um ákvæði til bráðabirgða. Síðan er gert ráð fyrir að fyrirsögn verði: „Frumvarp til laga um sveitarstjórnir og héruð“, þetta verði lög um sveitarstjórnir og héruð til þess að eðlileg áhersla komi fram í heiti frv. þar sem gert er ráð fyrir lögfestingu á nýju stjórnsýslustigi.

Ég tek eftir því, herra forseti, að hér eru margir þm. sem tala fyrir lagasetningu eða ákvörðun um nýtt stjórnsýslustig ekki ósvipað og hér er gerð till. um þó að þeir geri ekki um það markaðar tillögur eins og,ég hef leyft mér hér að leggja fyrir hv. þingdeild. Ég heyrði það í máli hv. 7. landsk. þm., talsmanns Kvennalistans, að þar er að finna eindreginn stuðning við stofnun þriðja stjórnsýslustigsins.

Ég heyrði það á hv. 5. þm. Vestf. að hann er eindreginn talsmaður slíkrar skipunar mála. Ég geri mér hins vegar ekki grein fyrir hversu víðtækan stuðning slík skipan á í þingflokki hv. 5. þm. Vestf. og væri vissulega æskilegt að fá um það nánari vitneskju. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er fulltrúi Framsfl. í byggðanefnd þingflokkanna og mun á þeim vettvangi hafa verið talsmaður þriðja stjórnsýslustigsins. En ef marka má frv. og brtt. hv. félmn. virðist ekki vera eindreginn stuðningur við þessa skipan mála í þingflokki Framsfl. En kannske víkur hæstv. félmrh. að þessu atriði hér síðar í umræðunni því að vissulega væri æskilegt að fá um það fyllri vitneskju en hér liggur fyrir.

Sama gildir um Sjálfstfl. Hann virðist ekki hafa markað sér stefnu í þessum efnum. Ég hef ekki orðið var við eindregna talsmenn úr röðum þeirra sjálfstæðismanna fyrir þriðja stjórnsýslustigi. En það væri æskilegt að frsm. félmn., hv. 2. þm. Reykv., gæti upplýst um viðhorf síns flokks í þessum efnum.

Ég tel skylt að geta þess hér að í þingflokki Alþb. er ekki fullur stuðningur við þá skipan mála sem ég mæli hér fyrir. Sú er ástæðan fyrir því að ég flyt þessa till. í eigin nafni en hún er ekki flutt af talsmanni 2. minni hl. félmn. þó að hann sé stuðningsmaður þriðja stjórnsýslustigsins, enda flm. ásamt mér að 3. máli yfirstandandi þings, till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga, en sú till. gerir einmitt ráð fyrir því að Alþingi álykti um þetta efni og lýsi vilja sínum um stofnun nýs stjórnsýslustigs.

Það hefur líka komið fram hjá fulltrúa Alþb. í byggðanefnd þingflokkanna að meiri hluti þingflokks Alþb. styður slíka skipan mála. Það var innt eftir því í erindi í febrúarmánuði í fyrra af hálfu byggðanefndar þingflokkanna hvert væri viðhorf þingflokkanna til þessa efnis. Það kom fram í erindi frá byggðanefndinni að innan hennar væri vilji fyrir slíkri skipan mála og fulltrúi Alþb. í nefndinni, hv. þm. Helgi Seljan, flutti þau boð frá þingflokki Alþb. að þingflokkurinn væri að meiri hluta til meðmæltur því að leitað yrði samstöðu um tillögur varðandi þriðja stjórnsýslustigið.

BJ hefur lýst sínum vilja í þessu efni. Hv. 4. landsk. þm. hefur oft mælt hér úr þessum ræðustóli með þriðja stjórnsýslustiginu og fyrir liggur þáltill. um skipan nefndar til að gera breytingar á stjórnarskránni í þessa veru. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt þó að það geti vissulega komið til greina að fella slík ákvæði inn í stjórnarskrá, en unnt er að skipa slíkum málum með lögum. Það er ekkert sem stangast á við stjórnarskrá okkar sem gerir það ekki kleift að lögfesta þessa skipan. Ég tel satt að segja ekki sérstaklega vænlegt að vísa þessu máli að svo komnu yfir til stjórnarskrárnefndar eða ætla að bíða þess að menn nái saman á slíkum vettvangi um þetta. Ég tel málið í rauninni miklu brýnna en svo að við getum beðið eftir slíku.

Það eru mörg mál sem varða endurskoðun stjórnarskrárinnar og mörg brýn verkefni, ég dreg ekkert úr því. En ég tel þetta mál svo brýnt að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að taka á því hið allra fyrsta og reyna að ná hér saman í þinginu um stofnun slíks þriðja stjórnsýslustigs.

En það er sem sagt stuðningslið ríkisstj., Framsfl. og Sjálfstfl., sem ekki hafa svarað jákvætt í þessum efnum. Byggðanefnd þingflokkanna spurði um þetta efni formlega fyrir ári síðan. Þessir þingflokkar hafa ekki svarað þessu máli jákvætt að meiri hluta til og engin svör í rauninni gefið önnur en þau að fella hér niður IX. kafla sem vissulega er vísir að stofnun þriðja stjórnsýslustigs, stofnun héraðsnefnda með þeirri skipan sem þar er lagt til þó að ég geti ekki undir þá tillögu tekið, ekki síst vegna þess að þar var gert ráð fyrir því að eingöngu sveitarstjórnarmenn væru kjörgengir til héraðsnefnda en ekki kosið til þeirra með beinum hætti eins og hér er gerð tillaga um.

Herra forseti. Ég er sannfærður um að úti í þjóðfélaginu og alveg sérstaklega á landsbyggðinni, í þeim sex kjördæmum sem gert er ráð fyrir að verði svæði fyrir héruð sem þriðja stjórnsýslustig, er mjög ríkur vilji hjá mörgum fyrir því að slík skipan mála nái fram að ganga. Við höfum orðið varir við það á mörgum vettvangi, alþm. og fleiri, og það hefur komið fram í ályktunum m.a. áhugasamtaka um jafnrétti milli landshluta. Það hefur einnig komið fram í umsögnum um þá þáltill., sem ég er 1. flm. að, um valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur t.d. mælt með samþykkt þeirrar till. og ýmsir fleiri aðilar, þar á meðal stjórnir ýmissa landshlutasamtaka sveitarfélaga, hafa mælt með samþykkt þeirrar till., þó í eitthvað breyttu formi að sumra áliti.

Ég vænti þess, herra forseti, að menn beri gæfu til þess að taka á þessum málum fyrr en seinna. Ég geri mér því miður ekki vonir um að þessi brtt. mín eigi meirihlutastuðning hér í hv. þingdeild enn sem komið er. En ég vona að það dragist ekki lengi að meiri hluti hv. þm. nái saman um skipan mála í líkingu við það sem till. mín gerir ráð fyrir. Ég vænti þess að flutningur hennar hér og málflutningur minn í sambandi við þetta efni verði til þess að gera mönnum ljósari hugmyndir í þessa átt, hugmyndir sem ég hef reifað í þáltill. og menn eigi auðveldara með að ræða þessi mál í ljósi þessarar brtt. sem ég er flm. að.

Ég vil svo, herra forseti, undir lok máls mín nefna tvö atriði í sambandi við frv. og brtt. við það, í fyrsta lagi þær tillögur sem eru um takmörkun á fjölda íbúa í sveitarfélögum og þar með á stærð sveitarfélaga miðað við íbúafjölda. Ég geri ekki mikið með þær tillögur sem þar hafa komið fram en get út af fyrir sig stutt það að 50 manna íbúafjöldi sé lágmark fyrir sveitarfélag. Ég hef látið það koma fram í mínum þingflokki að ég sjái ekki að það breyti neinu í reynd þótt menn fari að færa lágmarkstölu varðandi íbúafjölda sveitarfélaga upp í 100, hvað þá upp í hærri tölu. Ég er ekki reiðubúinn að standa að lögfestingu sem slíkri og mun því sitja hjá við afgreiðslu á þeim brtt. Ég tel þær út af fyrir sig ekki stórskaðlegar en ég tel að menn nái í raun ekki neinu því fram sem máli skiptir með því að fara að lögbjóða hærri tölu en þarna er gert ráð fyrir. Ég tel að leiðin liggi í gegnum þriðja stjórnsýslustigið og þá valddreifingu og fjármagnsdreifingu sem á að nást fram í krafti þess. Þetta er í sambandi við íbúafjölda í sveitarfélögum.

Þá eru það aðeins nokkur orð í sambandi við tillögur meiri hl. félmn. um héraðsnefndir og niðurlagningu, afnám sýslufélaganna. Ég verð að segja að ég hef ekki séð öllu kynlegri tillöguflutning en þann sem þarna er á ferðinni. Ég held að þeir verði margir út um landið - og ekki bara sýslunefndarmenn og þeir sem hafa staðið að verkum á vegum sýslufélaga - sem reka upp stór augu þegar þeim verður ljóst hvað hér er á ferðinni, hvers konar afmánartillaga þarna er á ferðinni af hálfu meiri hl. félmn. Ég segi: Þegar þeim verður það ljóst, því að ég er alveg sannfærður um að þrátt fyrir þá fulltrúa fjölmiðla sem sitja hér og fylgjast með störfum Alþingis hefur þessum boðum frá meiri hl. félmn. ekki verið komið til skila út til almennings í landinu.

Ég er alveg sannfærður um að menn gera sér ekki ljóst að þarna sé verið að gera tillögu um afnám sýslunefndanna og sýsluskipanarinnar í landinu og það amöbuform - ég veit ekki hvort menn kannast við það litla dýr, amöbuna - sem verið er að gera till. um að eigi að taka við starfsemi sýslufélaganna, því að það er sannarlega engin leið að átta sig á hvers konar skipan eigi þar að verða niðurstaðan.

Það er opnað fyrir það að einstök sveitarfélög geti tekið sig út úr héraðsnefndunum, sveitarfélög innan svæðismarka núverandi sýslufélaga, fá eða mörg eftir atvikum, og standi ekki að héraðsnefndunum. Ég sé ekki að það sé neitt sem skyldi sveitarfélög til að standa að héraðsnefndum.

Síðan er ákvæði um það að héraðsnefndir geti sameinast að hluta til eða í heild. Þetta er ekta amaba á eilífri ferð og flugi. Ég held að hv..2. þm. Reykv. ætti að líta í smásjá og skoða tiltektir amöbunnar áður en hann fylgir þessu máli hér fastar fram. (Gripið fram í.) Ég er alveg viss um að þeir menn eru til í þingflokki Sjálfstfl. sem eru alveg reiðubúnir til þess að leiðbeina hv. 2. þm. Reykv. í þessum efnum, jafnvel með hjálp smásjár, ef nauðsyn krefur. Ég gæti t.d. ímyndað mér að hv. 1. þm. Norðurl. v. væri í þeim hópi. Hann hefur þegar mælt mjög sterk aðvörunarorð hér. Og ekki kæmi mér á óvart að sessunautur hv. 2. þm. Reykv. hér í þingdeild, hv. 1. þm. Vesturl., væri líka reiðubúinn til að rétta hv. frsm. meiri hl. félmn, hjálparhönd í þessum efnum og jafnvel lána honum gleraugun sín, ef það gæti hjálpað.

Það eru mín lokaorð, herra forseti, í sambandi við þetta mál nú að ég bíð meiri hlutann hér á Alþingi að skoða sinn gang áður en menn fara að knýja fram lögfestingu á þessum vanskapnaði, sem hér er til umræðu, í mörgum greinum. Það er fyrst og fremst eitt sem rekur á eftir lagasetningu varðandi sveitarstjórnarmálin, kosningaaldurinn, kjördagur. Það er flest sem mælir með því að menn doki við og bíði t.d. eftir frv. um tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hæstv. félmrh. hefur boðað að sjái dagsins ljós væntanlega hér í hv. þingdeild eftir nokkra daga. Það væri meira en lítið slys ef við færum að senda þetta mál frá okkur án þess að hafa séð þær tillögur. En við stjórnarandstæðingar höfum þetta mál ekki í hendi okkar. Það er meiri hlutinn, ríkisstjórnarliðið hér á Alþingi, sem verður að ná áttum í þessu efni.

Ég vænti þess svo að gæfa þingsins verði sú að taka á nýskipan stjórnsýslunnar í landinu fyrr en seinna, þannig að með nýskipan á því sviði náist einhver viðspyrna gegn þeirri óheillaþróun sem er í fullum gangi varðandi byggðamál í landinu. Við þurfum á því að halda og við þurfum á því að halda að sameinast um þau efni og það ætti að vera nærtækt fyrir okkur þm. landsbyggðarinnar hér á Alþingi að vinna að því að ná slíkri skipan mála fram.