16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á fundi þingflokks sjálfstæðismanna á mánudag í síðustu viku var þess óskað af hálfu þingflokksins að formaður flokksins tæki sæti í ríkisstjórn og gerði tillögur til þingflokksins um breytingar á starfaskiptingu ráðherra í framhaldi af þeirri ákvörðun sem þingflokkurinn þá tók. Ég gerði síðan tillögur í samræmi við ákvörðun þingflokksins um breytingar á starfaskiptingu ráðherra Sjálfstfl. í eðlilegu samræmi við þá ákvörðun sem þingflokkurinn hafði áður tekið. Þessar ákvarðanir voru teknar og ákveðnar samhljóða í þingflokki sjálfstæðismanna og voru síðan staðfestar á ríkisráðsfundi í morgun, svo sem hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir.

Vegna fyrirspurnar hv. 7. landsk. þm., hvers vegna þessar breytingar hafi ekki verið gerðar fyrr, er rétt að taka fram að þegar núverandi ríkisstj. var mynduð var önnur forusta fyrir Sjálfstfl. Það var ekki fyrr en tæpu hálfu ári eftir myndun núv. ríkisstj. að breytingar urðu þar á á landsfundi flokksins. Ég lýsti því þá yfir að við svo búið mundi ég ekki óska eftir því að taka sæti í ríkisstjórn. Þingflokkur sjálfstæðismanna tók ákvörðun sína í síðustu viku um að óska eftir þessari breytingu og ég tel hana vera gerða á eðlilegum tíma.

Ég vil einnig taka fram vegna annarrar spurningar hv. 7. landsk. þm. að Sjálfstfl. mun starfa í þessari ríkisstjórn á sama grundvelli og áður, á grundvelli meginstefnu flokksins og á grundvelli þeirra samþykkta sem síðasti landsfundur flokksins, í vor sem leið, gerði og á þeim grundvelli sem hann fól þingflokki sjálfstæðismanna að vinna að framgangi stjórnarmálefna í þessari ríkisstjórn. Þar á verður ekki breyting og Sjálfstfl. mun vinna á sama grundvelli hér eftir sem hingað til.

Hv. 5. þm. Reykv. vék að því í ræðu sinni að hér væri um að ræða vantraust á ráðherra Sjálfstfl., þá sem nú hefðu tekið við nýjum ráðuneytum. Sérstaklega nefndi hann til hæstv. núv. iðnrh. í því efni. Hann nefndi að sá sem rekinn hefði verið, eins og hann orðaði það, væri hæstv. utanrrh. og hvers vegna hann hefði verið talinn óhæfur og sýnt vantraust með þessum hætti. Síðar í ræðunni sagði hann að sá sem hefði leyst það sem hann kallaði vandamál í Sjálfstfl. hefði verið hæstv. utanrrh. Þannig stangast þessar fullyrðingar af þessu tilefni á og eru marklausar og sýnir kannske miklu fremur hversu mikil málefnafátækt stjórnarandstöðunnar er og hversu haldlausar athugasemdir hennar eru við þessar breytingar að fullyrðingarnar ganga út og suður eftir því hvar menn eru staddir í ræðum sínum í það og það skiptið.

Kjarni málsins er sá að hér er um að ræða eðlilegar breytingar á starfaskiptingu með tilliti til þeirrar ákvörðunar þingflokksins að formaður flokksins taki sæti í ríkisstjórninni.

Hv. 5. þm. Reykv. fór mörgum orðum um það hvernig forsætisráðherrar Bretlands gera breytingar á ríkisstjórnum. Menn minnast þess að hann lýsti því einhverju sinni yfir að hann hefði lært til þess að vera forsætisráðherra. Mér kom það í hug undir þessum lestri að sennilega hefði hann lært til þess að vera breskur forsætisráðherra og er spurning hvaða erindi þessi málflutningur á inn á Alþingi Íslendinga. (JBH: Hvenær tekur hann við af þér?)

Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að þessar breytingar, sem ákveðnar hafa verið á ríkisstj., væru framkvæmd á þeim samþykktum sem þingflokkur sjálfstæðismanna gerði á fundi í Stykkishólmi 28. og 29. sept. Þessar breytingar eru ekki í neinum tengslum við þær niðurstöður sem urðu á þeim fundi, en vegna umfjöllunar hv. 3. þm. Reykv. og spurninga hv. 5. þm. Reykv. um þau efni og þær ákvarðanir sem þar voru teknar og það samkomulag sem orðið hefur milli stjórnarflokkanna af því tilefni vil ég, með leyfi forseta, lesa bókun þess fundar um þá málefnalegu niðurstöðu sem þar varð. En niðurlag bókunar í fundargerðabók er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vegna ábendinga og tillagna sem fram komu á fundunum ítrekaði formaður flokksins þá stefnu Sjálfstfl. að utanríkisviðskipti verði sem næst hallalaus og að skuldasöfnun erlendis verði stöðvuð. Hann taldi nauðsynlegt að efnahagsstefna ríkisstj. þjónaði þessu markmiði, þar á meðal gerð fjárlaga, lánsfjárlaga og þjóðhagsáætlunar. Drög að þjóðhagsáætlun sem fyrir liggja fá Þjóðhagsstofnun þyrfti því að endurskoða til samræmis við þessa yfirlýstu stefnu. Vegna breytinga sem af því kunna að leiða væri því einnig nauðsynlegt að móta tillögur um sparnað og niðurskurð ríkisútgjalda við meðferð Alþingis á fjárlagafrv. og munu ráðherrar flokksins leggja því starfi lið þannig að unnt verði að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár án rekstrarhalla. Formaður taldi að með samdrætti opinberra útgjalda væri best stuðlað að jafnvægi á vinnumarkaði og þannig sköpuð skilyrði fyrir því að þensla og launaskrið spillti ekki viðleitni til að bæta kjör hinna lægst launuðu.“

Þetta var niðurstaða þess fundar sjálfstæðismanna sem hér hefur verið vitnað til, þingflokks og miðstjórnar, og full samstaða var um á þeim fundi.

Það er alveg ljóst að framleiðslugreinarnar í þjóðfélaginu hafa átt við erfiðleika að etja og eftir þær breytingar sem urðu á gjaldeyrismörkuðum fyrir skömmu með lækkun bandaríkjadollara hefur sjávarútvegurinn mætt nýjum erfiðleikum, sérstaklega frystingin. Það var af þeim sökum talið nauðsynlegt að endurmeta þau áform sem uppi hafa verið um að ná niður viðskiptahalla. Öllum má vera ljóst að þær duga skammt gömlu leiðirnar sem notaðar voru til þess að treysta hag sjávarútvegsins. Það er vísast að ef til þeirra einna yrði gripið mundu þær einungis leiða til aukinnar verðbólgu. Og með hliðsjón af því að það er ekki ætlun stjórnarflokkanna og ríkisstj. að beita aðhaldi á þann veg að kaupmáttur skerðist var talið rétt að við meðferð fjárlagafrv. á Alþingi yrði leitað leiða til þess að draga úr ríkisútgjöldunum og hafa á þann veg hemil á heildarútgjöldum ríkisins. Um þetta varð samkomulag á milli stjórnarflokkanna og ákvæði þar um er í þeirri þjóðhagsáætlun sem lögð hefur verið fram.

Sú var tíð að eina leiðin sem menn sáu til þess að draga úr viðskiptahalla var niðurskurður á kaupmætti og það er fróðlegt til upprifjunar fyrir hv. 3. þm. Reykv. að rifja upp með hvaða hætti hann stóð að aðgerðum á þessu sviði. Eins og menn muna var viðskiptahalli um 10% af þjóðarframleiðslu á síðasta heila starfsári fyrrv. ríkisstj. Sá viðskiptahalli náðist verulega niður á árinu 1983. Hv. 3. þm. Reykv. hefur á stundum hér í þessum ræðustól á hinu háa Alþingi haldið því fram að aðgerðir þeirrar ríkisstjórnar fyrir hans tilstilli hafi leitt til þess ásamt öðru að viðskiptahallinn náðist niður. Og hvaða aðgerðir voru það? Þær aðgerðir fólust í því að skerða verðbætur launa um helming í desember árið 1982. Eina úrræðið og það sem hann hefur stært sig af hér á hinu háa Alþingi til að ná niður viðskiptahallanum var að skera niður verðbætur á laun. Sú viðleitni sem þessi stefnumörkun mótar á hinn veginn er sú að freista þess að veita og sýna aukið aðhald í útgjöldum ríkisins í því skyni að ná niður viðskiptahalla án þess að það þurfi að koma niður á skertum kaupmætti. Ég tel að það sé mjög mikilvægur árangur, sem náðst hefur, að það skuli hafa tekist að auka ráðstöfunartekjur á þessu ári og viðhalda nokkurn veginn kaupmætti kauptaxta. Ég tel að það sé mikill árangur að tekist hafi að vinna sig út úr þeim ógöngum sem heimilin í landinu lentu í á síðustu misserum síðustu ríkisstjórnar þegar það mikla misgengi á milli lánskjara og launaþróunar varð til sem mörg heimili í landinu hafa verið að glíma við. En aðgerðir ríkisstj. gegn verðbólgu hafa fært okkur út úr þessum erfiðleikum og við höfum því sem næst náð jöfnuði á nýjan leik.

Spurningin er sú þegar talsmenn Alþb. hamast gegn áformum í þessu efni: Vilja þeir halda áfram skuldasöfnuninni og viðskiptahallanum eða telja þeir aðrar leiðir færari í því efni? Vilja þeir í raun og veru fara hina gömlu leið? Þeir hafa verið að skrifa, flokksmenn hv. 3. þm. Reykv., í Þjóðviljann upp á síðkastið. Þar má lesa greinar eftir góða og gilda flokksmenn sem benda á að kjararýrnunin í þjóðfélaginu stafi fyrst og fremst af rangri stefnu í orkumálum meðan hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var orkuráðherra og of mikilli skuldasöfnun sem að mestu leyti sé að kenna hv. 3. þm. Reykv. meðan hann var viðskrh. Þeir segja í greinum sínum að þetta sé ástæðan fyrir lakari lífskjörum í landinu. Hörður Bergmann skrifaði um daginn grein í Þjóðviljann, benti á þessar staðreyndir og segir í grein sinni: „Það er ekkert leyndarmál að Alþb. átti sinn þátt í að rýra lífskjör fólksins í landinu með þessum hætti.“ Þetta er til athugunar fyrir hv. 3. þm. Reykv. og formann Alþb. í þeim miklu málefnalegu þrengingum sem hann á nú við að etja í flokki sínum og til þess að vera sannfærandi í málflutningi gagnvart þjóðinni. Það boðar ekki gott að koma hér og krefjast þess að stefnubreyting verði og hin gamla skuldasöfnunarstefna, sem hann innleiddi, og hin ranga stefna, sem flokksbróðir hans innleiddi í orkumálum, verði upp tekin á ný. Flestum er ljóst - og þar á meðal flokksmönnum í Alþb. - að það var einmitt þessi stefna sem leiddi kjararýrnun yfir þjóðina. Þess vegna er mikilvægt að á þessum tímapunkti freistum við þess að veita aðhald í útgjöldum þjóðarbúsins án þess að það bitni á lífskjörum fólksins í landinu og leiði til kjararýrnunar, að við getum skapað skilyrði til að bæta rekstrarstöðu atvinnuveganna án þess að það leiði til nýrrar verðbólguholskeflu og það eru þau markmið sem að verður stefnt.

Hv. 5. þm. Reykv. vék hér að tekjuöflun ríkisins og skattamálum. Ég er honum að mörgu leyti sammála um það að tekjuöflunarkerfi ríkisins er á margan hátt gallað og þar á þarf að gera bragarbót. Söluskattskerfið þjónar ekki þeim tilgangi sem í upphafi var ákveðinn. Fyrir því m.a. hefur verið ákveðið að koma á virðisaukaskatti. Frv. um það efni verður endurflutt á þessu þingi, m.a. í því skyni að ráða bót á þeim miklu ágöllum sem eru á þessu kerfi.

Tekjuskattskerfið er einnig gallað. Prófessor Ólafur Björnsson benti á það fyrir allmörgum árum að í raun væri tekjuskatturinn launamannaskattur. Fyrir því höfum við barist og átt samleið með mörgum flokkum á Alþingi, þar á meðal Alþfl., að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Þegar hafa verið stigin skref í þeim áfangaáformum að því marki sem fyrirheit voru gefin um og efnd verða.

Í vor sem leið var tekin ákvörðun um hækkun á eignarskatti á eignum manna yfir ákveðnu marki til þess að sinna ákveðnum brýnum úrlausnarefnum í húsnæðismálum. Ég taldi það vera rétt og eðlilegt við þær aðstæður sem þá voru. Ég er hins vegar ekki sammála því að þær hugmyndir, sem Alþfl. hefur sett fram um þreföldun eignarskatta, fái staðist. Mín skoðun er sú - og hana má styðja með tölulegum rökum - að því aðeins verði eignarskattar þrefaldaðir að þeir komi með miklum þunga niður á öllum venjulegum fjölskyldum í landinu. Það er ekki til bóta í því ástandi sem nú er að leggja stórauknar byrðar á hina venjulegu fjölskyldu í landinu sem á kannske eign upp á 3.5 milljónir í íbúð og bíl. Að þrefalda eignarskatt á þessum fjölskyldum í landinu er ekki til þess að styrkja hag heimilanna. Og það er ekki til þess að styrkja hag atvinnufyrirtækjanna að fimmfalda eignarskatta á þeim og rýra enn eignastöðu þeirra. Hér á hv. Alþingi hefur á það verið bent að einn meginvandi framleiðsluatvinnuveganna byggist m.a. á því að þeir hafa sætt rýrnandi eiginfjárstöðu. Þessar breytingar á eignarskatti mundu ekki bæta aðstöðu framleiðslufyrirtækjanna og sjávarútvegsfyrirtækjanna að þessu leyti, mundu ekki auðvelda þessum fyrirtækjum að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem þau eiga við að etja í dag og ekki hjálpa þeim til að bæta lífskjör og launakjör fólksins sem þar vinnur. Þess vegna vara ég við því að lengra verði gengið á þessari braut. Ég taldi skynsamlegt að taka þá ákvörðun um hækkun eignarskatta, sem gerð var í vor sem leið, til að vinna að úrbótum í húsnæðismálum. En þær hugmyndir, sem Alþfl. hefur sett fram, eru að mínu mati fjarri öllum veruleika.