30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

75. mál, umferðarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er komið einu sinni enn nýtt frv. til umferðarlaga þrátt fyrir að vissulega megi margt að orðalagi finna. Vænti ég þess að nefndin taki orðalagið sérstaklega til umfjöllunar. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd og þess vegna langaði mig að koma hingað með örfáar ábendingar og taka reyndar líka undir orð hæstv. forseta þegar hann nefndi slysarannsóknarnefnd. Ég held að það sé mjög tímabært að setja á laggirnar slysarannsóknarnefnd þannig að við fáum úr því skorið hvaða orsakir það séu sem liggja fyrir mörgum og tíðum slysum. Á sumum götuhornum eru slys mjög tíð þannig að það hlýtur að vera annaðhvort hönnun þessara götuhorna eða eitthvað í aðstæðum þar sem leiðir til þessarar slysatíðni. Í öllum tilvikum þarf að rannsaka nákvæmlega orsakir slysa en okkur vantar aukna þekkingu varðandi umferðarslys hér á landi.

Ég fagna líka samræmingu á hámarkshraða hvar sem er á landinu. Það hefur verið hvimleitt þegar maður hefur ekið norður að hér í kringum Stór-Reykjavíkursvæðið má aka á 80 km hraða en 70 þegar maður kemur upp í Hvalfjörð. Þessu hefur náttúrlega varla nokkur maður farið eftir. En svona eru lögin og verða ef þetta frv. verður ekki að lögum, þá verður þetta svona enn um sinn.

Síðan langaði mig til þess að leggja fsp. fyrir hæstv. ráðh. varðandi skráningu ökutækja. Það kemur fram í 65. gr. að það verður í reglugerð hvernig skráningu ökutækja verður háttað. Mér skilst að þar eigi að verða breyting á. Nú skilst mér að ökutæki séu tvískráð eins og sakir standa. Þau fá visst skráningarnúmer þegar þau koma til landsins og síðan fá þau annað númer og hver eigandi þarf alltaf að skipta um númer. Þetta er mjög dýrt kerfi eins og það er núna og tími til kominn að einfalda það, en það koma engar skýrar ábendingar fram í frv. um með hvaða hætti þetta sé hugsað og væri gott að fá upplýsingar um hvernig á að koma þessu fyrir.

Þm. hafa hér úr ræðustól farið víða um völl varðandi ökukennslu, notkun bílbelta og eitt og annað. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en ég vil bara minna á að það er ekki hægt að kenna allt í skólum landsins. Þó vissulega sé hægt að kenna umferðarreglur og annað slíkt og sýna á myndböndum hvernig skuli aka, þá er hin raunverulega kennsla náttúrlega falin í því að aka sjálfur og við getum ekkert lítillækkað ökukennara með því að upphefja skólana eða á neinn annan máta. Það þarf að láta hvern og einn fá reynslu í því að aka, enda sjáum við líka í skýrslum um umferðarslys að það er reynsluleysi sem veldur oft og mörgum sinnum slysum. Ég vildi endilega benda á þetta því að hv. þm. Eiður Guðnason vildi gera mikið úr kennslu í skólum en minna úr ökukennurum.

Notkun bílbelta er vissulega góð en þar dugir ekki bara lagabókstafurinn til. Það þarf líka að hvetja ökumenn til þess að nota bílbeltin. Við höfum það í lögum að nota skuli bílbelti enda þótt ekki séu í gildi sektarákvæði. Þá þarf að hvetja bara meira til þess að bílbeltin verði notuð en til þess þarf jú fjármagn og hæstv. forseti minnti hér á fjárskort hjá Umferðarráði. Mætti vissulega bæta þar úr. Þrátt fyrir að fjármagnið sé ekki allt sem þarf í sumum tilfellum, þá þarf alla vega varðandi kynningu og áróður í umferðarmálum að kosta miklu til.