27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

Kjarasamningar

Kristín S. Kvaran:

Hæstvirtur forseti. Það er auðvitað ekki hægt að láta hjá líða við þetta tækifæri að færa fram hamingjuóskir og taka til hve ánægjulegt það er að samningar skuli hafa tekist. Auðvitað er það ánægjulegt að nú sé ljóst að verðbólgan náist niður. Auðvitað er það ánægjulegt að vita til þess að ekki komi til verkfalla og auðvitað er það síðast en ekki síst ánægjulegt að vita til þess að aðilar vinnumarkaðarins skuli setja allt sitt traust á ríkisstj. En það sem er ekki ánægjulegt í þessu sambandi og ekki hamingjuóska virði er að hinn almenni launamaður getur ekki sett allt sitt traust á ríkisstjórnina, svo oft hefur hún brugðist illilega því trausti sem launþegar hafa leyft sér að bera til hennar. Þess vegna er nú svo komið að almenningur treystir ekki lengur loforðunum sem gefin eru á þeim bæ.

Að mati hins almenna launþega eru þessir samningar ekkert annað en blekkingarleikur. Það sem er ekki ánægjulegt heldur er að ef það árar svona vel að ríkisstj. hefur talið sér fært að gera ráðstafanir til að bæta hag fólksins í landinu átti hún að vera búin að því eða a.m.k. að gefa úf um það yfirlýsingar að ætlunin væri og til stæði að láta fólkið í landinu njóta þess. Að láta fólkið í landinu njóta þess að góðæri væri innan seilingar, að batahorfur efnahagslífsins, eins og það heitir á máli til þess menntaðra, væru miklar.

Ef hæstv. ríkisstj. hefur talið verðlækkun olíu á erlendum mörkuðum og hækkað fiskverð svo marktæka þætti að út á þá reynist nú unnt að lækka skatta, útsvör, tolla af bifreiðum, dekkjum, lækka rafmagn o.s.frv. hefðu það að sjálfsögðu átt að vera fyrstu viðbrögð hæstv. ríkisstj. að gera til þess ráðstafanir að fólkið í landinu fengi að njóta þessa aukna hagvaxtar. Það á ekki að vera kjarasamningsatriði. Kjarasamningar eiga ekki að fjalla um tollaafslætti af bifreiðum og dekkjum og lækkun tolla af heimilistækjum.

Það sem verra er er að það er ekki liðinn nema rétt u.þ.b. mánuður síðan nánast öll opinber þjónusta var hækkuð. Póstburðargjöld voru t.d. að meðaltali hækkuð um 25%, rafmagn um 14%, Hitaveita Reykjavíkur hækkaði sína taxta um 17,6%, afnotagjald af sjónvarpi og útvarpi hækkaði um 15,1%, dagvistargjöld í Reykjavík hækkuðu um 20%, verð á lyfjum, þ.e. hluti sjúklings, hækkaði um 30% og hlutur sjúklings fyrir viðtal við lækni á stofu hækkaði um 22,8%. Þetta allt saman gerði það að verkum að vísitölustig verðbólgu hækkaði þá um það sama eða þó heldur fleiri stig en hún lækkar um nú við þá samninga sem eru í burðarliðnum.

Nú er verið að tala um það með miklum hofmóði að lækka beri hlut neytenda í gjöldum til opinberra stofnana. En auðvitað segir það sig sjálft að sú þjónusta mundi óhjákvæmilega lækka af sjálfu sér ef verðbólgan lækkar, svo að óþarft ætti að vera að hafa það atriði með inni í þessum samningi. Það er auðvitað bara til þess gert að blekkja fólk, slá ryki í augu þess og láta það halda að nú sé loksins verið að gera einhver ósköp fyrir það.

Nú ætlar sem sagt ríkisstj. náðarsamlegast að lækka þessa þjónustu aftur, þó ekki eins mikið í öllum tilfellum eins og hún hækkaði í janúar. Mér er spurn: Hvað á það að þýða að vera að draga fólk svona á asnaeyrunum? Mér er nær að taka undir orð konunnar í símatíma morgunútvarpsins, ég held að hún heiti Guðlaug, en hún sagði að nú væri svo komið að þessir greifar, sem semdu um kaupið hennar og annarra launþega, væru orðnir verstu óvinir launþega í landinu. Hún útnefndi þá sem óvini númer 1. Þeir skynjuðu ekki að þeir sem hafa þau laun sem hún hefur lifa einfaldlega ekki af þeim þannig að greifarnir væru augljóslega úr öllum tengslum við það hvernig það væri að lifa af lægstu laununum. Forseti Alþýðusambandsins lætur hafa eftir sér í morgun í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„En forseti Alþýðusambandsins sagði augljóst að með þessum samningum væri verið að taka áhættu. „Það er ekki hægt að fullyrða að allt gangi eftir“, sagði hann. „Samningar eru alltaf happdrætti og hingað til hefur launafólk mikið haft á tilfinningunni að vinningnum hafi verið stolið.“"

Svo mörg voru þau orð. Skyldi fólk halda vinningnum núna? Hefur einhver trú á því? Það er óskandi að svo verði.

Það var annars mjög svo athyglisvert að vera vitni að því að það voru upp til hópa konur sem töldu þennan samning algeran skrípaleik og að vonlaust væri að taka nokkurt mark á honum. Þær töldu fólk þurfa hærri laun en þar er um rætt. Getur það bent til þess og sannað það, sem talið hefur verið hingað til og í mörgum tilfellum athugað, að konur hafa mun lægri laun, þær eru á lægstu töxtunum og ekki yfirborgaðar? Hins vegar voru það nær einvörðungu karlar þarna í morgunútvarpinu sem hrósuðu þessum samningum og það flögraði óhjákvæmilega að mér að þarna væru komnir þeir sem nú sjá sér leik á borði með þessum samningum eða atvinnurekendurnir, vinnuveitendur, enda sagði fulltrúi þeirra í Morgunblaðinu í morgun, með leyfi herra forseta:

„Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, sagði sem svo: „Almenningur þarf að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem verða á allra högum við nýjan stöðugleika í efnahagslífinu. Það getur vafalaust reynst mörgum erfitt, sérstaklega á allra næstu mánuðum.“"

Já. Erfitt, sagði hann. Skyldi hann vita hvað hann er að tala um? Nú sjá atvinnurekendurnir fram á að þeir þurfi ekki að greiða launþegum nema rétt um 13% yfir árið í launahækkun, á meðan sú kjarabót sem talin er koma með öllum tilfærslunum úr ríkissjóði nemur um 4%. Þar eru teknar inn lækkanir á opinberri þjónustu sem ég gat um áðan að auðvitað eru hreinar blekkingar. Hún mundi að sjálfsögðu lækka sjálfkrafa við hjöðnun verðbólgu. Það átti auðvitað ekkert að þurfa að semja sérstaklega um slíkt atriði í þessum samningum. Kostnaður við opinbera þjónustu hlýtur að lækka eins og aðrir kostnaðarliðir hljóta að lækka við hjöðnun verðbólgu.

Það voru fremur einkennileg fyrstu viðbrögð hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu, með leyfi herra forseta, en þar sagði hann:

„Við fögnum því vitanlega að farið skuli út á þá braut að lækka verðlag og horfið af braut verðbólgusamninga. Hins vegar er ljóst að þessir samningar ganga öllu lengra en tillögur ríkisstjórnarinnar frá 11. febrúar gera ráð fyrir og því er ekki hægt að ganga að þeim nema á kostnað annarra markmiða. Þetta þýðir t.d. að það verður að öllum líkindum viðskiptahalli á árinu.“

Enn fremur sagði hæstv. forsrh. þegar hann var spurður að því á hverju tillögurnar væru byggðar:

„Í sjálfu sér ekki því þessar tillögur eru auðvitað byggðar á því að ríkið greiði niður verðbólguna“. Hann talar um það, hæstv. forsrh., að ríkið greiði niður verðbólguna. Það væri fróðlegt að vita og fá svar við því frá hæstv. forsrh. hver hann álítur að sé ríkið. Og hvað þýðir það sem hann er að segja þarna? Jú, hver verður það sem greiðir viðskiptahallann? Það verður bara tekið aftur í hækkandi verðlagi. Það hefur alltaf verið þannig og ég á ekki von á því að það hafi verið fundnar einhverjar nýjar leiðir.

Það kemur einnig fram í samningsdrögunum sú óskhyggja að lífeyrissjóðirnir komi eitthvað til móts við hæstv. ríkisstj. og bjargi henni fyrir horn. Sér er nú hver áreiðanleikinn rétt eins og í nánast öllum öðrum töluliðum þessa samnings. Þetta er ekkert annað en óskhyggja. Það er sem sagt stólað á tvo þætti í hagvexti þessa lands sem hingað til hafa ekki þótt sýna af sér neinn sérstakan stöðugleika, fiskverð og olíuverð. Þetta er auðvitað fáránlegt. Þar fyrir utan er ekki einu sinni haft fyrir því að setja gólf á samningana. Þeir sem eru með lægstu launin ná því ekki einu sinni í árslok að vera komnir upp í 25 þúsund króna mörkin sem sumir hafa þó talið sig þurfa til að lifa af á dag þegar þeir eru á kostnað launþega í útlöndum. Þessir sömu menn ætla öðrum að lifa af mánuðinn á þessum krónum ásamt fjölskyldu sinni. Hvernig á að vera hægt að ætlast til þess, að þessir hinir sömu menn beri skynbragð á hvernig það er að draga fram lífið á launum sem eru langt fyrir neðan þessi mörk? Það er ekki hægt. Þeir eru löngu komnir svo langt frá því að vera í tengslum við kjör láglaunafólks að það væri í raun og veru ekkert sjálfsagðara en að dæma þá til þess að lifa í að minnsta kosti eitt ár af slíkum launum og sjá þá til hvort skilningurinn yrði ekki meiri eftir en áður.

Það var einnig í morgunútvarpinu kona nokkur sem spurði hver það væri sem ætti að hafa eftirlit með því að vörur í verslununum hækkuðu ekki. Hvernig er ætlunin að koma í veg fyrir það? Hvernig á að koma við eftirliti? Ætli það verði ekki sömu brögð að því og hingað til, enda frjáls álagning og þess vegna ekkert við það að athuga að vöruverð haldi áfram að hækka eða hvað? Þessi kona sagði einnig að hún myndi ekki betur en að talað hefði verið um það í síðustu samningum og hefði verið eitt af kjarasamningsatriðum þá einnig að verðbólgunni hefði verið ætlað að síga niður á við, en hún sagði að hún hefði aldrei verið verr á vegi stödd en eftir síðustu samninga. Það að setja traust sitt á ríkisstjórnina væri greinilega alveg út í hött. Mér sýnist þetta einungis vera ein leið enn fyrir hæstv. ríkisstj. að kaupa sér lengri lífdaga. Þegar fram á samningstímabilið dregur heyrum við örugglega sömu gömlu romsuna sem við þekkjum svo vel sem er eitthvað á þessa leið: Ja, það vildi nú svo til að við treystum á batnandi hagvöxt og að fiskverð héldist stöðugt. Einnig var það svo að við héldum okkur geta stólað á að olíuverð á heimsmarkaði færi áfram lækkandi eða héldist í það minnsta óbreytt. En því miður brugðust vonir okkar í því sambandi og því fór sem fór og við verðum að bregðast við því og vinna okkur út úr vandanum. Ríkisstjórnin stólar á alla landsmenn og heitir á þá í baráttunni við að vinna okkur út úr vandanum þannig að með þjóðarsátt megi takast að ná valdi á verðbólgunni. - Skyldum við kannast við það? Auðvitað verður þetta viðkvæðið.

Við höfum heyrt þetta svo oft áður. Það er launafólkið, þeir launþegar sem hafa allægstu launin, sem er ætlað að greiða niður verðbólguna á sama tíma og ekki eru skorin við nögl ferðalög ráðuneytismanna til útlanda. að viðlögðu sjálfstæði þjóðarinnar. En ég bara spyr: Verðum við eitthvað sjálfstæðari við það eða með betra þjóðfélag á takteinunum til að sýna þeim ráðamönnum erlendum sem við kappkostum svo að hafa samband við á erlendum vettvangi með því að við komum okkur upp mikilli fátækt og stéttskiptu þjóðfélagi, nokkuð sem við höfum hingað til getað stært okkur af að hér væri ekki?

Þessi tvö atriði, sem virðast vera aðalundirstaðan undir það að ríkisstj. gat komið til móts við atvinnurekendur, já ég segi til móts við atvinnurekendur, og greitt niður það sem þeim ber, lækkun á heimsmarkaðsverði olíu og verðhækkunin á fiskinum á erlendum mörkuðum, verða þegar þær vonir bregðast notuð sem afsökun fyrir því að verðbólgan æði af stað og verðhækkanir dynji yfir landsmenn rétt eins og ekkert hafi í skorist. Ég segi það þess vegna enn og aftur: Það á að vera mál vinnuveitenda og launþega að semja um það sín á milli hvernig kaup og kjör skuli vera en ekki ríkisstjórnarinnar sem fimmta hjóls undir vagninum. Hún á ekki að koma inn í almenna kjarasamninga á þennan hátt. Maður gæti freistast til þess að halda að allir landsmenn væru orðnir ríkisstarfsmenn. Eru þeir það eða verða þeir það með þessum samningum?

Nú eru aðilar vinnumarkaðarins búnir að semja fyrir ríkisstj. raunverulegt plagg sem t.d. strikar út fjárlögin fyrir árið 1986 sem samþykkt voru á hinu háa Alþingi fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum og þeir eru búnir að taka að sér fyrir ríkisstj. að koma verðbólgunni niður í 78%, sem ekki hefur verið nokkur leið að tala um í ein 15 ár. Ef ríkisstj. tekur nú við þessum samningum, eins og allt virðist benda til, og lætur aðila vinnumarkaðarins sjá um þessa þætti undanbragðalaust, á ríkisstj. auðvitað að sama skapi og kinnroðalaust að hafa frumkvæði að því og hafa burði til þess að segja af sér vegna þess að það er augljóst að almenningur treystir henni ekki og einnig vegna þess að það er augljóst að hæstv. ríkisstj. treystir Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu mjög vel til að sjá um efnahagsmál almennt og almennt um stjórnun. Þar er sem sagt um gagnkvæmt traust að ræða og þess vegna álít ég að hún ætti, og það án þess að reyna að víkja sér undan, að segja af sér og afhenda aðilum vinnumarkaðarins, sem hún treystir svona vel, í hendur landstjórnina. Ég held að það færi vel á því undir þessum kringumstæðum.