27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

Kjarasamningar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Talsmenn þingflokka og ríkisstjórnar hafa í þessum umræðum gert grein fyrir afstöðu sinni og flokka sinna í þessum málum. Ég ætla mér ekki þá dul að draga niðurstöður þessara umræðna saman hér í stuttu máli. Ég ætla að reyna að virða fyrirmæli forseta um að hafa þetta stutt og laggott. Ég tel að þessi umræða hafi orðið til gagns áður en menn snúa sér að því í deildum og síðan í nefndastarfi að ræða einstök atriði.

Aðalatriðin eru tiltölulega fá þrátt fyrir allt. Menn spyrja: Benda þessar umræður til þess að við getum vænst raunverulegs árangurs af þessari sáttargjörð, þeim lífskjarasáttmála sem hér er raunverulega verið að efna til? Getum við náð þessum árangri? Ég sagði í frumræðu minni áðan: Það er fyrst og fremst spurning um hvernig ríkisstj. bregst við. Það er spurning um hvort ríkisstj. er fáanleg til þess að breyta stefnu sinni. Hver er afstaða ríkisstj.? Hver voru hennar svör? Í raun og veru bar talsvert í milli þeirra svara sem annars vegar fengust frá hæstv. forsrh. og hins vegar frá hæstv. fjmrh.

Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. lagði sig meira fram um að taka undir með sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar og reyndar aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn róttækra breytinga í ríkisfjármálum. Sérstaka athygli mína vakti að hann tók undir þá afstöðu okkar Alþýðuflokksmanna að nú væri tíminn og tækifærið til að leggja á stóreignaskatt eða eignarskattsauka til að auka jöfnuð í skattbyrði. Hann virtist einnig taka afdráttarlaust undir tillögur og hugmyndir um að nú væri tíminn og tækifærið til að árétta vilja manna til árangurs, að breyta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og að endurskoða útgjaldaáform ríkissjóðs með niðurskurði. Þetta gerði hann með mun afdráttarlausari hætti en fram kom í svörum hæstv. fjmrh.

Hæstv. fjmrh. hafði meira á hornum sér. Honum þótti undarlegt að því væri haldið hér fram að krafa aðila vinnumarkaðarins væri um að ríkisstj. breytti stefnu sinni í ríkisfjármálum. Í raun og veru er maður undrandi á að hæstv. fjmrh. skuli lýsa undrun sinni. Um hvað snýst erindi aðila vinnumarkaðarins sem þeir beina til ríkisstj.? Það eru tillögugerð og óskir um að meiri hluti þm. og ríkisstj. breyti ríkjandi stefnu í skattamálum, taki ákvörðun um að lækka tekjuskatt, beini því til sveitarstjórnaryfirvalda að lækka útsvar, taki ákvörðun um að lækka fyrst a.m.k. nafnvexti og breyti vaxtapólitík, beiti sér fyrir lækkun á opinberum þjónustugjöldum ríkis og sveitarfélaga, beiti sér fyrir breytingum á forsendum tolla, beiti sér fyrir lækkun tolla, eins og hv. þm. Stefán Benediktsson tíundaði á gamansaman máta, á grænmeti, fólksbifreiðum, hjólbörðum, heimilistækjum o.s.frv., afnemi lög um verðjöfnunargjald af rafmagni, stefni að því að lækka raforkuverð til almennra neytenda um 20%, tryggi að sjálfvirk hækkun búvöruverðs fari ekki fram, beiti sér fyrir niðurfellingu á launaskatti í fiskiðnaði og samkeppnisgreinum. Hvað er þetta allt annað en óskir og kröfur um að hæstv. ríkisstj. komi til móts við tillögur um að breyta í mjög veigamiklum þáttum þeirri stefnu sem hún hefur mótað? Þetta er raunverulega krafa um að ríkisstj. breyti forsendum við gerð fjárlaga og lánsfjárlaga eins og hún gekk frá þeim fyrir jól. Og það er ekki bara þetta. Það eru tillögur um grundvallarbreytingar í húsnæðismálum, grundvallarbreytingar að því er varðar lífeyrisréttindakerfið o.s.frv.

Sumir stjórnarandstæðinga, einkum talsmenn Kvennalista og Bandalags jafnaðarmanna, hafa um það orð að vinnubrögðin í þessum málum séu ólíðanleg vegna þess að fólk úti í bæ, einhverjir aðilar vinnumarkaðarins, einhverjir atvinnurekendur og forustumenn í stéttarfélögum, setji fram kröfur um breytingar á stjórnarstefnu og að ríkisstjórnarmeirihlutinn beygi sig fyrir slíkum kröfum. En gegnir hér ekki sama máli um stjórnarandstöðuna innan þings og þá aðila sem nú eru að lýsa yfir vantrausti á stjórnarstefnuna utan þings? Ég var að telja upp áðan kröfurnar um breytta stjórnarstefnu. Rifjum upp. Hafa ekki verið fluttar hér á Alþingi tillögur um breytingar á skattakerfi, um lækkun á tekjuskatti, um lækkun á vöxtum, um breytingar á opinberri þjónustu, um breytingar á landbúnaðarpólitík svo ég nefni nokkur dæmi? Stjórnarandstaðan er í nákvæmlega sömu aðstöðu. Hún hefur flutt hér tillögur af ótal tilefnum um breytingar á stjórnarstefnu. Hún hefur ekki komið þessum tillögum fram. Ef henni bætist liðsauki utan þings sem leiðir til þess að þessar tillögur nái fram að ganga sé ég út af fyrir sig ekki ástæðu til annars en að fagna því. (KH: Ert þú að gagnrýna stjórnina, Jón?) (StB: Það var búið að samþykkja tillöguna fyrir fram.) Ef hv. þm. hugleiða málið er það svo að meginið af þeim tillögum sem meiri hluti þings, stjórnin, ríkisstjórnarmeirihlutinn, leggur hér fyrir er runnin undan rótum einhverra aðila sem við getum kallað úti í bæ. Það er mjög oft um að ræða mál sem eru beinlínis smíðuð ef ekki af embættismannakerfinu sjálfu þá af ýmsum hagsmunaaðilum úti í bæ. Síðan fara þeir rétta boðleið gegnum þingflokka stjórnarflokkanna og þegar kemur til kasta stjórnarandstöðunnar eru stjórnarliðar búnir að taka afstöðu til þessara mála. Í þessum skilningi finnst mér að við í stjórnarandstöðunni ættum ekki að leggja megináherslu á þessi formsatriði heldur fyrst og fremst á málefnin sjálf. Spurningin er: Erum við samþykkir þessum breytingum á stjórnarstefnunni eða ekki? Ef við erum það ekki er það að sjálfsögðu ekkert fagnaðarefni.

Aðalspurningin er ósköp einfaldlega þessi: Er von til þess að það náist árangur? Hvað má ráða af hinum skriflegu svörum um það efni?

Í fyrsta lagi: Í svari hæstv. forsrh. liggur fyrir, og það kom líka fram í svari hæstv. fjmrh., að fyrirsjáanlegt er að það mun myndast halli í ríkisbúskapnum. Það verður um að ræða hallarekstur á ríkisbúskapnum. Nú held ég því að vísu fram að sá hallarekstur sé þegar innbyggður allverulegur og hér sé um að ræða aukinn hallarekstur í ríkisbúskapnum. Menn greinir ekkert á um það að hallarekstur í ríkisbúskapnum skapar ákveðna hættu á verðbólguþenslu, mismunandi mikla eftir því hvernig honum er mætt. Þeim mun meiri sem honum er mætt eingöngu með lántökum, en ekki með breytingum og tekjuöflun og lækkun útgjalda. Ef menn vilja tryggja árangur er tvímælalaust rétta leiðin, og það tók hæstv. forsrh. undir, sú að fara þá leið að beita hvoru tveggja úrræðinu, að lækka ríkisútgjöld og afla tekna, sér í lagi þegar rök standa til þess að þeir aðilar í þjóðfélaginu sem best hafa efnin hafa sloppið of vel frá skattheimtu. Þess vegna nefnum við t.d. eignarskattsaukann. Þess vegna benda aðilar vinnumarkaðarins á hluti eins og aukaskattlagningu á bankakerfið. Þegar um er að ræða upplýsingar um að hagnaður þess hefur aukist og nemur hundruðum milljóna króna núna er það mjög þörf og góð ábending. Það hefur ekki komið fram hér, en við værum reiðubúnir, til þess að tryggja þennan árangur í verki, að sætta okkur við niðurskurð að einhverju leyti á framlögum til vegagerðar ef það gæti orðið til að tryggja þennan árangur í sessi. Og við fögnum því að aðilar vinnumarkaðarins sameinast um að benda ríkisstj. og þingmeirihlutanum á eignarskattsaukann sem tekjuöflunarleið til að tryggja þennan árangur.

Herra forseti. Ég vek sérstaklega athygli á því að í svari hæstv. forsrh. segir á blaðsíðu 3:

„Gert er ráð fyrir að þeim halla sem myndast af þessum sökum verði mætt með áðurnefndri lántöku frá lífeyrissjóðum, annarri lántöku frá innlendum lánastofnunum, lækkun útgjalda og nokkurri hækkun tekna ríkissjóðs. Ekki kemur til álita að afla fjár til þessara aðgerða með erlendum lántökum.“

Það hefur ekki komið fram í þessum umræðum hvernig á að mæta þessu með lækkun útgjalda. Hvaða útgjöld á að lækka? Er hér einungis átt við niðurfærslu verðlags til samræmis við breyttar verðlagsforsendur eða er um að ræða tillögur um raunverulega lækkun ríkisútgjalda? Og í annan stað: Það á að mæta því að hluta til með hækkun tekna. Að hvaða leyti? Hvernig? Ef ekki er um það að ræða að menn fallist á aukna skattlagningu, t.d, í formi eignarskattsauka eða aukinni skattlagningu á banka eða á aðra aðila eins og t.d. tryggingafélög, svo nefnd séu dæmi, hvaða hækkun skatta er þá um að ræða? Það þarf að fást upplýst og fæst væntanlega upplýst þegar bandorminn mikla getur loks að líta í deildum væntanlega í kvöld og síðan í starfi nefnda.

Herra forseti. Ég hirði ekki um að svara útúrsnúningum hæstv. fjmrh. þegar hann gerði að umtalsefni fjárlagatillögur okkar Alþýðuflokksmanna og lýsti þeim á þann veg að við hefðum einfaldlega lagt til að með einu pennastriki hefði átt að leggja niður Kennaraháskóla Íslands eða stofnanir eins og Fiskifélag og Búnaðarfélag. Þetta eru auðvitað fjarstæður og ekki samboðið virðingu hæstv. fjmrh. sem vissi auðvitað miklu betur. Við vorum að leggja til að því er varðaði Kennaraháskólann sameiningu á Kennaraháskóla og Háskóla Íslands sem fól í sér tiltölulega litla hagræðingu og sparnað í ríkisútgjöldum. Að öðru leyti vorum við að koma á framfæri tillögu um kerfisbreytingu í ríkisrekstri sem fól það í sér að stofnanir, sem fyrst og fremst þjónusta atvinnuvegi, séu á eigin ábyrgð, selji sína þjónustu, njóti þó að sumu leyti áfram styrkja frá ríkisvaldinu, en geri það á eigin reikning og verði sjálfstæðari gagnvart bæði ríkisvaldinu og atvinnuvegunum sem þær þjóna. Þetta eru fullkomlega málefnalegar tillögur og reyndar óhætt að fullyrða að þær njóta verulegs stuðnings í flokki hæstv. fjmrh. Útúrsnúningar af því tagi sem hann viðhafði eru ekki honum samboðnir í þessum umræðum.

Herra forseti. Við lýstum því yfir að við vildum allt til vinna sem á okkar valdi er til þess að samkomulag geti tekist um þær leiðir sem hér er verið að fara, þ.e. að ná samkomulagi um tiltölulega hóflegar peningalaunahækkanir gegn því að kaupmáttaraukinn verði tryggður á þann veg að það leiði ekki til aukinnar verðbólgu heldur hjöðnunar verðbólgu. Þetta er ekkert nýtt úr okkar munni. Þetta er búið að vera okkar afstaða, okkar stefna allan s.l. áratug, getum við sagt.

Það þýðir hins vegar ekki að við áskiljum okkur ekki rétt til að flytja brtt. eða hvetja ríkisstj. og þingflokka yfirleitt til að reyna að ná samkomulagi um brtt. ef þær mættu verða til þess að tryggja betur að tilætlaður árangur í hjöðnun verðbólgu náist. Þá eigum við fyrst og fremst við að við munum beita okkur fyrir því við framhaldsumræður málsins og í nefndum að gerð verði til þess heiðarleg tilraun að reyna að draga úr útgjöldum ríkissjóðs þegar um er að ræða útgjöld sem eingöngu byggjast á skattheimtu borgaranna, en hægt er að færa hagkvæmnisrök fyrir því að illa sé farið með fé eða viðkomandi starfsemi sé betur borgið með öðrum hætti. Jafnframt erum við ekki í nokkrum vafa um þær ábendingar, sem fram koma í grg. aðila vinnumarkaðarins og eru samdóma okkar skoðunum, að það mundi verða til þess að auka trú almennings á hugsanlegan árangur ef ríkisstj. mætti hluta af þessum útgjaldaauka með því að leggja skatta á þá aðila sem hingað til hafa sloppið allt of vel frá því að bera eðlilegar byrðar og nefni ég þá til sem dæmi um það ríkisbankana miðað við núverandi aðstæður.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að umræðan hafi orðið til góðs og vona að umfjöllun málsins í nefndum geti leitt til aukins samkomulags um einstakar tillögur.