30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

75. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær undirtektir og þann áhuga sem komið hefur fram í máli manna hér fyrir umferðarmálum og framgangi frv. til nýrra umferðarlaga. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til þess að stuðla að því að þinginu vinnist tími til að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Ég lagði mikla áherslu á í mínu máli að það gæti orðið sem fyrst þó mér væri ljóst að þarna sé mikil vinna fram undan. Ég mun því athuga það að hafa samráð við allshn. Nd., líka um það hvernig hægt sé að haga nefndarstörfum þannig að það gæti orðið til þess að hraða því starfi og auðvelda.

Hér hafa farið fram allmiklar umræður um ýmis atriði þessara mála. Ég skal ekki fara langt út í það. En fundið hefur verið að því hér að frv. skyldi ekki hafa verið endurskoðað í sumarfríi Alþingis. Það getur verið að það hefði kannske eitthvað flýtt fyrir nefndarstörfum, ef það hefði verið gert, svo framarlega þá sem þær breytingar hefðu ekki verið með svo klúðurslegu orðalagi að það hefði ekki verið talið neitt til bóta af hendi hv. þm. Ég held að þó farið hefði verið að setja inn einhverjar slíkar breytingar þá hefði það aldrei getað losað þm. við að fara yfir athugasemdir, íhuga þær rækilega og kanna þá hvort þarna væri um réttar breytingar að ræða. Ég mun leggja áherslu á að dómsmrn. og þeir aðilar sem því tengjast munu í sambandi við vinnu nefndarinnar leggja fram þá aðstoð sem getur stuðlað að því að auðvelda nefndarstarfið og vinna málinu gagn.

Ég skal ekki fara langt út í einstök atriði. Það hefur verið minnst hér á að það þyrfti meira fjármagn til umferðarmála. Ég get tekið undir það. En það eru náttúrlega ekki eingöngu einstakir ráðherrar eða ríkisstjórn sem ræður. Það er Alþingi sem semur fjárlögin og þeim verðum við að hlíta.

Hv. 5. landsk. þm. vék að 47. gr. þar sem tvær stéttir manna voru teknar út úr með skyldu á því að segja til um ölvaða ökumenn. Ég veit ekki hvað hefur legið að baki þessari ákvörðun umferðarlaganefndar, að setja þetta þarna inn, en sé þó að í fyrri hlutanum, þar sem veitingamanni og hans þjónum er ætluð nokkur ábyrgð, kemur fram sú skoðun að það fylgi því nokkur ábyrgð að veita mönnum áfengi vegna þeirra afleiðinga sem slíkt getur haft. Ég hygg að í sumum löndum sé lögð nokkur ábyrgð á þá sem veita mönnum áfengi ef það síðan leiðir til slysa - ég er ekki nægilega fróður um það, en ég hygg að svo muni vera sums staðar - og þarna er sem sagt það sjónarmið sem liggur að baki.

Þessi ábyrgð er líka lögð á hendur bensínafgreiðslumönnum. Bensínið gerir mönnum kleift að aka og ef ökumenn hefðu það ekki gætu þeir ekki haldið áfram akstri þegar það væri þrotið, þannig að þar hefur kannske legið að baki sú hugsun að þar væri verið að gera mönnum kleift að aka, sem annars væri ekki. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta því að ég veit ekki að fullu hvaða hugmyndir liggja þarna að baki.

Hv. 8. landsk. þm. spurðist fyrir um umskráninguna sem hún réttilega benti á að er mjög dýr. Það er talið að það sé meira en þriðjungur af vinnu bifreiðaeftirlits sem felst í umskráningu. Ég hef látið þá skoðun í ljós, og reyndar flutt um það frv., að ég teldi að þarna ætti að haga þessu með öðru móti. Eins og hv. þm. gat um veldur þessi umskráningarregla stundum erfiðleikum fyrir eigendur, tryggingar o.fl. fyrir utan vinnuna við bifreiðaeftirlitið.

Ég skal svo ekki tefja tímann meir en vil ítreka að ég þakka fyrir þann áhuga sem hér hefur komið fram í deildinni fyrir því að ná þessu frv. fram með þeim breytingum þá sem menn komast að niðurstöðu um að séu til bóta og vil stuðla að því að það megi takast.