27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

Kjarasamningar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fsp. frá hv. 3. þm. Reykv. um hvernig farið verður með bætur almannatrygginga í kjölfar þessara samninga er rétt að taka fram að það er ráð fyrir því gert að ellilífeyririnn hækki í réttu hlutfalli við þær launahækkanir sem kjarasamningarnir gera ráð fyrir eins og venja stendur til og þar að auki komi sérstök hækkun á tekjutrygginguna í samræmi við þau ákvæði kjarasamninganna sem tryggja þeim lægst launuðu sérstakar kjarabætur í formi krónutöluuppbóta á laun. Það er unnt að greina frá því hér að þessar bætur munu hækka fyllilega í samræmi við þessa samninga og þar á meðal í takt við þá sérstöku hækkun sem þeir lægst launuðu njóta og tekjutryggingin verður hækkuð í samræmi við það. Fjárlagafrv., eins og því verður breytt, gerir ráð fyrir því að þetta verði unnt að framkvæma. Hæstv. heilbr.- og trmrh. mun nú þegar gera ráðstafanir til að breyta reglugerðum í þeim tilgangi að þetta nái fram að ganga.

Ég ætla að taka undir það að þessar umræður hafa á margan hátt verið gagnlegar og skýrt það mál sem hér er til umræðu. Það er mjög mikils um vert. Ég vænti þess að það lagafrv. sem lagt verður fram innan stundar hljóti skjótan framgang í þinginu og fagna því að fram hafa komið yfirlýsingar um að menn eru tilbúnir að greiða fyrir framgangi þess þó eðlilega geti menn greint á um einstök atriði og stefnu ríkisstjórna, enda væri kannske býsna furðulegt ef full samstaða væri milli stjórnar og stjórnarandstöðu um stjórnarstefnu. En aðalatriðið er að ég þykist heyra og sjá að menn gera sér grein fyrir því að hér hafa verið gerðir merkir samningar sem við vonum að leiði til góðs.