27.02.1986
Efri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2853 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Nýir kjarasamningar hafa verið gerðir og í tengslum við þá liggur nú fyrir það frv., sem hér er til umræðu, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum.

Mikil tíðindi hafa gerst hér á Íslandi nú á fáum vikum. Undanfari þessarar samningsgerðar er flestum kunnur. Hann var sá að nokkurn veginn á sama tíma urðu miklar hækkanir á fiskafurðum okkar á Bandaríkjamarkaði annars vegar og hins vegar stórfelld lækkun á olíuverði svo að líkja má við verðhrun. Íslendingar hlutu sem sagt mikinn happafeng nú í byrjun nýs árs. Þessi happafengur, sem hefur stórbætt viðskiptakjör þjóðarinnar, opnar möguleika til þess að unnt verði að ná stórsigrum í baráttu við verðbólgu, þveröfugt við það sem var hér áður fyrr þegar menn glímdu við versnandi viðskiptakjör, bæði í formi hækkandi olíuverðs og hlutfallslega lækkandi fiskverðs.

Það sjá allir að hér hafa skapast miklir möguleikar á að losna við verðbólgu og það er í ljósi þessa að samtök vinnumarkaðarins hafa tekið höndum saman um samningsgerð sem m.a. felur það í sér að ríkisstj. er fyrirskipað að beita sér fyrir stórfelldum efnahagsaðgerðum, þar með talið að færa niður verðlag fyrir fjárhæðir sem nema milli 1500 og 2000 millj. á ári. Jafnhliða þessu hafa aðilar vinnumarkaðarins komið sér saman um nýjan kjarasamning út þetta ár en kaupmáttur í þeim kjarasamningi er þó bersýnilega ekki mikið hærri en var á árinu 1985 að meðaltali. Á ég þá við meðalkaupmátt ársins 1986.

Síðan hefur það gerst að ríkisstj. hefur fallist á að hlýða þessum fyrirskipunum samtaka vinnumarkaðarins og hún hefur samþykkt öll þau útgjöld sem þau samtök hafa gert tillögur um. Jafnhliða þessu hefur ríkisstj. gripið til þess óvænta úrræðis, sem ég hygg að öllum hljóti að koma nokkuð á óvart, að taka víxil fyrir allri upphæðinni og ætla skattgreiðendum á komandi árum að standa skil á þessum efnahagsaðgerðum. Það er sem sagt engin tekjuöflun í þessu skyni sem fylgir með og heldur enginn niðurskurður ríkisútgjalda. Aftur á móti er samið milli aðila vinnumarkaðarins og við ríkisstj. um umtalsverðar félagslegar ráðstafanir, enn einn félagsmálapakka, sem vissulega ber ekki að vanmeta.

Af þessari lýsingu minni er ljóst að ég sé þá kjarasamninga, sem gerðir hafa verið, bæði í ljósum og dökkum litum. Ljósu hliðarnar eru þær að möguleikar skapast til að ná verðbólgu verulega niður hvort sem því marki verður náð sem að er stefnt, það er líklega nokkuð snemmt að hafa uppi fullyrðingar um það. En einnig hefur verið samið um verulegar félagslegar umbætur, eins og ég hef hér nefnt. Þetta er hvort tveggja mjög ákjósanlegt og hlýtur að vera fagnaðarefni okkar allra.

Dökku hliðarnar tvær eru aftur á móti þær að við eigum að búa áframhaldandi í þessu þjóðfélagi við sama lága kaupmáttinn og gilti hjá launafólki almennt á liðnu ári. Þótt vissulega fari kaupmáttur hækkandi á árinu er hann nú þegar sokkinn töluvert niður fyrir það sem hann var að meðaltali á seinasta ári. Þó að hann lyfti sér undir árslok nokkuð hærra en hann var að meðaltali á seinasta ári er heildarútkoman á árinu lítið skárri en hún var á s.l. ári. En það ár var kaupmáttur lægri en hann hafði nokkru sinni verið um mjög langt skeið. Þetta eru ekki góð tíðindi og síst af öllu séð í því ljósi að þjóðartekjur hafa farið mjög vaxandi og þjóðarframleiðsla og aukning hennar ætti auðvitað að gefa okkur kost á að greiða láglaunafólki í landinu verulega miklu betur en verið hefur.

Hin dökka hliðin á þessum samningum er svo aftur sú að hér er um hreina ávísun á framtíðina að ræða og þar við bætist að ríkissjóður er fjarskalega illa undir það búinn að taka þessa byrði á sig.

Þær miklu umbreytingar í ríkisfjármálum, sem verða að eiga sér stað í kjölfar þessara samninga, fela í sér bæði stórfelldar breytingar á fjárlögum og lánsfjárlögum, geta talist fjórða kollsteypan í ríkisfjármálum á aðeins hálfu ári. Fyrsta kollsteypan kom í september þegar fjárlagafrv. var kynnt. Önnur kollsteypan kom svo nokkru eftir að skipt var um ríkisstj. Þriðja kollsteypan kom svo þegar fjárlagafrv. var stokkað upp að nýju í desembermánuði og nú upplifum við þann einstæða atburð í þjóðarsögunni að sama fjárlagafrv. er stokkað upp í fjórða sinn á hálfu ári.

Ég hygg að víxillinn, sem nú verður tekinn til að greiða fyrir þessum kjarasamningum, sé tvímælalaust stærsta óreiðuskuldin sem stofnað hefur verið til á Íslandi fyrr og síðar og margfalt stærri en nokkru sinni hefur sést í íslenskri sögu.

Ég minnist þess í stjórn dr. Gunnars Thoroddsens að það gerðist oft að ríkisstj. liðkaði til fyrir kjarasamningum með ýmiss konar efnahagsaðgerðum, en það var meginreglan að annaðhvort hafði við afgreiðslu fjárlaga verið gert ráð fyrir allhárri fjárhæð í þessu skyni eða þá að aflað var tekna til þess. Síðara dæmið er frá vorinu 1982 þegar ríkisstj. ákvað að færa niður verðlag og það kostaði um 30 millj. Þeirrar fjárhæðar var aflað með ýmsum hætti, bæði niðurskurði og tekjuöflun. Í fjárlögum bæði árin 1981 og 1983 voru teknir til hliðar allverulegir fjármunir til efnahagsaðgerða á þeim árum. Nú er þessu ekki að heilsa. Þvert á móti er nýlega búið að afgreiða ríkissjóðsdæmið með stórfelldum halla sem sennilega er þó miklu rosalegri en það dæmi birtist okkur í fjárlögunum sjálfum og ofan á þetta verður nú tekinn, eins og ég sagði áðan, stærsti víxill Íslandssögunnar og þá fellur það í hlut komandi ríkisstjórna á komandi árum að greiða þennan víxil.

Ég þakka fyrir þær aðgerðir sem nú hafa verið ákveðnar í húsnæðismálum. Ég held að þeirra hafi verið mikil þörf og ég vænti þess að þær skili verulegum árangri. Ég held að það hljóti að vera verulegt áhyggjuefni allra hvað íbúðabyggingar hafa dregist stórkostlega saman á seinustu árum og þá alveg sérstaklega út um landsbyggðina. Á s.l. ári var ekki lokið við byggingu nema á liðlega 300 íbúðum utan Faxaflóasvæðisins. Sambærileg tala fyrir fáum árum var frá 1000 og upp í 1200. Ástandið hefur ekki verið jafnslæmt hér á Faxaflóasvæðinu fram til þessa, en mér er sagt að nú sé verulegur samdráttur á ferðinni. Ég ætla sannarlega að vona að þær aðgerðir, sem núna hafa verið ákveðnar í húsnæðismálum, snúi þessari þróun við, en þó hef ég áframhaldandi verulegar áhyggjur af þessum málum úti um landið vegna þess að það er ýmislegt sem þar kemur til sem veldur þessum gífurlega samdrætti og þar á meðal hvað fasteignaverð hefur fallið þar rosalega. Skýringin á því er aftur á móti sú hvað kaupmáttur er lélegur og að um hefur verið að ræða umtalsverðan flótta fólks utan að landsbyggðinni til Faxaflóasvæðisins og það í stórauknum mæli miðað við það sem áður var.

Ég þakka líka fyrir þann þátt félagsmálapakkans sem gerir ráð fyrir fjarvistarrétti foreldra vegna veikinda barna. Það þarf varla að útskýra það í þessari deild hvers vegna ég þakka sérstaklega fyrir það því að ég hef flutt nokkrum sinnum frv. um þetta efni einmitt hér í deildinni og mælti fyrir frv. af þessu tagi seinast á mánudag og því var vísað til hv. félmn. Mér er að vísu ekki alveg ljóst af þeim upplýsingum sem gefnar hafa verið um fjarvistarréttinn hvernig honum verður hagað og hvort þar er um fullnægjandi réttindi að ræða og ég hygg að nákvæmlega sömu spurningar og vöknuðu þá í umræðunni hljóti að vakna í þessu sambandi, þ.e. varðandi réttindi þeirra sem eru ekki búnir að vera lengi í vinnu hjá sama atvinnurekanda.

En ég gleðst yfir þessum myndarlega félagsmálapakka. Ég gleðst yfir því ef okkur tekst að ná verðbólgunni verulega niður. Við Alþýðubandalagsmenn virðum þetta samkomulag. Við viljum greiða fyrir því að það verði staðfest á Alþingi. En jafnframt hlýt ég að harma ef kaupmáttur á að vera til langframa svo svívirðilega lágur sem hann var á s.l. ári og verður bersýnilega áframhaldandi með þessum samningum. Ég hlýt jafnframt að harma meðferð ríkisstj. á málinu í heild og það ábyrgðarleysi sem felst í því að ofan á stórskuldugan ríkissjóð, sem safnar verulegum skuldum á þessu ári, skuli lagður slíkur baggi án þess að nokkur tilraun sé gerð til að jafna þau gjöld með annaðhvort niðurskurði eða auknum tekjum.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni, enda gefst betra tækifæri til að ræða málið við 2. umr.