27.02.1986
Efri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Efni þessa frv. er að uppfylla þau skilyrði sem aðilar vinnumarkaðarins settu ríkisstj. um niðurfærslu verðlags við undirritun kjarasamninga. Eins og ég lét koma fram við 1. umræðu þessa máls er ljóst að mál þetta hefur bæði ljósar og dökkar hliðar. Dökku hliðarnar eru þær að kaupmátturinn verður áframhaldandi harla lágur og áframhaldandi verða launamenn í landinu að búa við mjög ófullnægjandi kjör. Það var upplýst á nefndarfundi og viðurkennt af öllum viðstöddum að mikill fjöldi fólks hefði innan við 20 000 kr. mánaðartekjur og auðvitað undruðust menn hvernig unnt væri að lifa af slíkum tekjum.

Aftur á móti verður að viðurkenna að um er að ræða kaupmáttaraukningu á samningstímabilinu sem mun nema um 8%. En vegna þess hve kaupmátturinn hafði fallið mikið nú í ársbyrjun, þ.e. var orðinn 4% lægri en hann var að meðaltali á seinasta ári, og þar sem hann hækkar ekki meira en 8% á árinu er ljóst að meðaltal þessa árs verður litlu hærra en meðaltal seinasta árs.

Í öðru lagi er það mjög dökk hlið á þessu máli að ríkisstj. skuli afgreiða sinn hluta þess með ávísun á framtíðina.

Aftur á móti ber ekki að vanmeta ljósu hliðarnar sem eru hinar miklu félagslegu umbætur sem um var samið milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. hefur fallist á að fjármagna. Eins ber ekki að vanmeta að góðar vonir standa til þess að verðbólga lækki mjög verulega á þessu ári. Að sjálfsögðu fyrst og fremst í kjölfar verðlækkunar á olíu og hækkunar á fiskverði.

Umsagnaraðilar, sem mættir voru á fund í morgun frá Þjóðhagsstofnun, vinnuveitendum, Alþýðusambandi og Seðlabanka, voru ekki alveg með sömu áætlanir um það hvernig verðbólguþróun yrði á árinu. Rétt er að geta þess að í tölum Þjóðhagsstofnunar voru greinilega uppi spádómar um að verðbólga yrði heldur meiri á árinu en aðilar vinnumarkaðarins höfðu gengið út frá. En auðvitað á þetta allt eftir að koma á daginn.

Ég tel hins vegar einsýnt að tryggja verði framgang gerðra kjarasamninga og reyna að færa niður verðlag til að nýta til fulls það tækifæri sem nú gefst til að ná niður verðbólgu í kjölfar lækkunar á olíuverði og hækkunar á fiskverði. Því er ég samþykkur þessu frv., en þó með nokkrum fyrirvara.

Ég minni á, eins og ég hef þegar tekið fram, að kaupmáttur launa verður áfram mjög lágur og ófullnægjandi fyrir allan þorra launafólks á þeim tíma þegar þjóðartekjur fara ört vaxandi.

Í öðru lagi bendi ég á að æskilegt hefði verið að meiri áhersla hefði verið lögð á það í þessum ráðstöfunum að greiða niður verðlag á brýnustu lífsnauðsynjum fólks, eins og matvörum og lyfjum.

Í þriðja lagi bendi ég á að niðurgreiðslur raforkuverðs, sem nú koma í stað verðjöfnunar á raforku, mega ekki falla niður á næsta ári heldur verður ríkisvaldið áfram að tryggja jöfnun raforkuverðs í ekki minna mæli en nú er. Í fjórða lagi: Ákvæði um skerðingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eiga engan rétt á sér, hvorki í þessu frv. né öðrum frumvörpum. En þetta var samþykkt við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar og er því enn tilefni til að mótmæla ákvæði af þessu tagi sérstaklega, en það er í 24. gr. frv.

Ein mikilvægasta forsenda þessara samninga eru áformaðar úrbætur í húsnæðismálum. Standi ríkisstj. ekki við loforð sín í þeim efnum eru forsendur þessarar samningsgerðar brostnar.

Í sjötta lagi: Því miður hefur ríkisstj. valið þann kostinn að taka allan hlut ríkissjóðs í þessari samningsgerð, um 11/2 milljarð kr., að láni. Með því er einfaldlega verið að ávísa á skattgreiðendur í framtíðinni með óhjákvæmilegum skattahækkunum á komandi ári. Því miður vísaði ríkisstj. á bug hugmyndum aðila vinnumarkaðarins um tekjuöflun til að mæta útgjöldum frv., t.d. sérstökum eignarskatti og bankaskatti. Ríkisstj. hefur því sýnt áfram mikið ábyrgðarleysi í fjármálum ríkisins svo að nú stefnir í hrikalegan halla ríkissjóðs á þessu ári.

Þetta er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni, en þrátt fyrir það sem ég hef hér að framan rakið eru ákvæði þessa kjarasamnings svo mikilvæg fyrir launafólk í landinu að ég tel rétt að mæla með samþykkt þessa frv. með framangreindum fyrirvara.