27.02.1986
Efri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Á árunum 1971- 1979 náðist ákveðinn bati í hag manna hér á landi og annar stór árangur sem þar náðist líka var jafnvægi í byggð landsins. Á árunum 1979-1986 hefur orðið um 30% kjaraskerðing, þar vegur náttúrlega stærst stökkið sem tekið var 1983, og samfara þessu hefur orðið mjög mikil röskun í byggð landsins. Nú er búið að lögfesta þessa kjaraskerðingu, þ.e. hingað skal hún en reyndar ekki lengra, og verkalýðshreyfingin er búin að samþykkja aðgerðir þessarar ríkisstj. sem hófust árið 1983 og verkalýðshreyfingin barðist reyndar ákaft á móti þá. Vinnubrögðin við gerð þessara samninga eru að mínu áliti forkastanleg og Alþingi ekki sæmandi. Ég lýsti þeirri skoðun minni í umræðum utan dagskrár sem urðu um þetta mál á þingi í gær.

Samningurinn í sjálfu sér er ekki hér til umræðu, þ.e. þau atriði sem samið var um, launaprósenturnar, dagarnir sjö sem fólk má nú eiga með börnum sínum á launum þegar þau eru veik og námskeiðin fyrir fiskvinnslufólkið sem gefa því eins launaflokks hækkun á þessu ári og tveggja flokka hækkun á næsta ári. Þetta eru í raun og veru þau atriði sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um. Það sem hér er til umræðu eru þau skilyrði eða forsendur sem aðilar vinnumarkaðarins gáfu sér, í fyrsta lagi forsendurnar og þá um leið þau skilyrði sem þau settu ríkisstj., fast gengi, fast verðlag, lækkanir á tekjuskatti, launaskatti, tollum, verðjöfnunargjaldi og vöxtum, hækkanir á húsnæðislánum og ákveðnar lýsingar á því hvernig skyldi farið með þessi mál og hvernig þau skyldu leyst.

Menn hafa reyndar talað um að hér hafi verið farnar nýjar leiðir, en ég minni á að þó að sú leið hafi verið farin núna að aðilar vinnumarkaðarins ákvæðu í svokölluðum frjálsum samningum úti í bæ að hafa fast gengi hér á landi höfum við reynslu af því hvernig fer þegar reynt er að halda gengi föstu án tillits til kostnaðar í þeim atvinnugreinum sem háðastar eru gengi. Við þurfum ekki að leita lengra aftur fyrir okkur en til 1980 þegar þetta var reynt og munum eftir þeirri holskeflu sem skall yfir þegar stíflan brast sem byggð var með því að halda genginu föstu. Að því leyti er þetta ekki ný lausn. Hún er bara ákveðin eftir svolítið öðrum leiðum en þá var gert.

Þessir frjálsu samningar, sem hér eru lagðir til grundvallar, eru að því leyti frjálsari en nokkru sinni áður að þar taka tveir aðilar saman höndum um að gera samning sín á milli um að skuldbinda þriðja aðilann sem er ríkisstjórnin. Það má eiginlega segja að öllu frjálsari geti samningar varla orðið. En ríkisstj. hefur lýst sig reiðubúna til þess að taka, eins og hún kallar það, nokkra áhættu í þessu máli. Hún hefur lýst sig reiðubúna til þess að uppfylla þau skilyrði og þær forsendur sem aðilar vinnumarkaðarins settu og gáfu sér. Þessu lýsir ríkisstj. í plaggi sem er fskj. 2 með þessu frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

"Ríkisstj. fellst á grundvallaratriði þeirra hugmynda sem fram koma í yfirlýsingu samningsaðila um húsnæðismál og er tilbúin til þess að athuga þær vandlega í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega útgjöld ríkisins í þessu sambandi. Ríkisstj. er reiðubúin til að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum um húsnæðismál í samræmi við niðurstöður þeirrar athugunar. Í samræmi við samkomulag samningsaðila mun ríkisstj. beita sér fyrir því að til viðbótar við áður ákveðnar 200 millj. kr. verði 300 millj. kr. varið á þessu ári til að aðstoða þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna húsbygginga. Ríkisstj. mun beina því til banka og sparisjóða að þeir lengi lánstíma lána til húsbyggjenda í samræmi við samkomulagið.“

Samkomulagið, sem hér er verið að vitna til, er fskj. með kjarasamningnum sem undirritaður er 26. febrúar, fskj. sem merkt er 1 og fjallar um húsnæðismál. Fylgiskjölin með samningnum eru alls þrjú, þ.e. eitt um húsnæðismál, eitt um lífeyrismál og eitt þar sem launatafla ASÍ og VSÍ, sem gilda á frá gildistöku samningsins, er sýnd. Í þessu fskj. með samningi aðila vinnumarkaðarins um húsnæðismál stendur:

„ASÍ, VSÍ og VMS eru sammála um að eitt brýnasta úrlausnarefni kjarasamninganna sé að leita leiða til úrlausnar á þeim greiðsluvanda húsbyggjenda sem nú eiga í erfiðleikum og jafnframt að finna varanlega lausn á fjármögnunarvanda þeirra sem eru að eignast sína fyrstu íbúð. Samkomulag er milli aðila um eftirfarandi aðgerðir í þessum efnum:

Aðgerðir til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar.“ - Þær aðgerðir snúast um þessar 300 milljónir til viðbótar sem ríkisstj. lýsir sig reiðubúna til þess að afla.

Í næstu grein í þessu fskj. um húsnæðismál segir, með leyfi hæstv. forseta, um Byggingarsjóð ríkisins: „Lögum um Byggingarsjóð ríkisins verði breytt þannig að lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins verði bundnar því að lífeyrissjóður umsækjanda hafi gert samkomulag við sjóðinn um skuldabréfakaup. Stefnt sé að því að lögin taki gildi 1. sept. 1986. Lán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn verði sem hér segir miðað við samninga um skuldabréfakaup lífeyrissjóða í eftirfarandi hlutfalli af ráðstöfunarfé sjóðanna að vali hvers lífeyrissjóðs:

Ef hlutfall ráðstöfunarfjár er 20% verður lánið 700 þús., ef það er 30% verður það 1100 þús., ef það er 40% verður það 1,5 millj., ef það er 50% verður það 1,9 millj. og ef það er 55% verður það 2,1 millj.

Lán til þeirra sem eru að kaupa eldri íbúð í fyrsta sinn verði 70% af framangreindum tölum. Lánstími verði 40 ár og vextir aldrei hærri en 3,5%. Lán samkvæmt þessum tölulið hafi forgang fram yfir lán skv. lið 2.2 hér á eftir.“

Í 4. lið þessa skjals segir um Byggingarsjóð verkamanna:

„Fé Byggingarsjóðs verkamanna verði aukið um 200 milljónir á árinu 1986. Lánsfé Byggingarsjóðs verkamanna verði síðan aukið miðað við fast verðlag. Lánshlutfall af lánum til 42 ára hækki nú þegar úr 80 í 85%. Veitt verði lán til allt að tveggja ára til þeirra sem eiga í erfiðleikum með 15% útborgun.“

Um leiguhúsnæði stendur í 5. lið fskj.: „Húsnæðisstofnun ríkisins verði falið að framkvæma könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði hér á landi.“ - Er það líklega til þess að koma í veg fyrir að nokkrum manni detti í hug að farið verði að flytja út Íslendinga. - „Skal þeirri könnun hraðað eins og kostur er þannig að hægt sé við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 1987 að veita fjármagni til byggingar leiguhúsnæðis í ljósi þeirrar þarfar sem er fyrir byggingu slíks húsnæðis hér á landi.“ Í 6. lið fskj. stendur:

„Lánveitingar lífeyrissjóða til húsnæðismála: Stefnt verði að því að lífeyrissjóðir verji tilteknu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum af ríkissjóði sem renni óskipt til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Bréf þessi skulu vera verðtryggð og boðin með ekki lakari kjörum en ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði hverju sinni.“ - Nú vildi ég gjarnan biðja, hæstv. forseti, um að fjmrh. verði kallaður í salinn. (Forseti: Það er verið að gera hæstv. fjmrh. viðvart.) (Gripið fram í: Hann er kominn.)

Ég ætlaði að bera fram spurningu eða spurningar til hæstv. fjmrh. vegna þess sem kallað hefur verið fskj. 1 með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og varðar húsnæðismál. Þar er lýst ákveðnum breytingum á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins um ákveðnar lánsupphæðir sem fari eftir hlutfalli ráðstöfunarfjár vegna kaupa lífeyrissjóða og þar er lýst auknum framlögum til Byggingarsjóðs verkamanna með auknu lánshlutfalli. Það segir í 6. lið þessa fskj., og um það snýst kannske grundvallaratriði þeirrar spurningar sem ég ætla mér að spyrja, eftir að sagt hefur verið að stefnt verði að því að lífeyrissjóðir verji tilteknu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum af ríkissjóði sem renni óskipt til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, þetta er í raun og veru það skilyrði sem ég álít að aðilar vinnumarkaðarins séu að skuldbinda sig til að uppfylla:

„Bréf þessi skulu vera verðtryggð og boðin með ekki lakari kjörum en ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði hverju sinni.“

Nú er það sem sé alkunna að ríkissjóður er sá aðili á almennum fjármagnsmarkaði sem býður hæsta ávöxtun. Er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs reiðubúinn til þess að samþykkja þetta eða felst í fskj. 2 með frv., þar sem ríkisstj. lýsir því yfir að hún fyrir sitt leyti samþykki þennan samning aðila vinnumarkaðarins, loforð um að greiða hæstu mögulegu ávöxtun sem hægt er að fá hér á innlendum fjármagnsmarkaði til lífeyrissjóðanna vegna þessara skuldabréfakaupa?

Í 7. lið fskj., þar sem fjallað er um húsnæðisafslátt, er talað um að frá og með árinu 1986 verði þeim sem kaupa eða byggja í fyrsta sinn veittur húsnæðisafsláttur, x kr. á ári í tíu ár miðað við núgildandi verðlag. Þarna mun x standa fyrir einhverja upphæð sem aðilar þessa þríhliða samnings munu ætla að koma sér saman um. Afsláttur þessi miðist við hvern einstakling og dragist frá sköttum og geti verið útborganlegur. Jafnframt verði þak á afslætti í núverandi mynd 200 000 kr. Þeir sem byggðu 1985 eða fyrr geta valið um hvort þeir fylgja núgildandi reglum eða nýjum reglum, enda verði þeirri ákvörðun ekki breytt eftir að hún hefur verið tekin.

Nú geri ég mér grein fyrir því að þar sem eftir er að fylla inn í eyðuna þar sem x-ið er vita menn ekki um hvaða upphæðir þeir eru þarna að tala. Mér segir reyndar svo hugur um að þær geti orðið allháar. En er ríkisstj. fyrir sitt leyti, með því að leggja fram þetta frv. og með því að leggja fram með því það fskj. sem því fylgir, þar sem hún lýsir yfir að hún sé reiðubúin að eiga viðræður við aðila vinnumarkaðarins um vanda þeirra einstaklinga sem eigi aðild að lífeyrissjóðum, að hún fallist á grundvallaratriði þeirra hugmynda sem fram komu í yfirlýsingu samningsaðila um húsnæðismál, að lofa því að fyrir 1. sept. 1986 verði búið að setja lög um þessa hluti?

Ég spyr um þetta af þeirri einföldu ástæðu að ég held að sá ljósgjafi sem raunverulega stafi birtu á þessa samninga, það sem heldur bjartsýnisvísitölu fólksins í dag vegna þessara samninga yfir hundrað, séu einmitt þessi loforð í húsnæðismálum.

Aðrir sem hér hafa talað á undan mér eru búnir að lýsa efasemdum sínum um að ríkisstj. nái að standa við gefin loforð um fast gengi, fast verðlag og að lækkanirnar sem boðnar eru verði ekki teknar í erlendum lánum. Samt sem áður ætla fjórir flokkar hér á þingi að samþykkja þetta frv. Þegar maður les nál. 3. minni hl., þ.e. Alþfl., og 2. minni hl., þ.e. Alþb., sýnist manni að öll þau rök sem þeir tína til mæli með því að þeir standi ekki að samþykkt þessa frv. Maður spyr reyndar hvað það sé sem rekur þá til að gera það. Þeirri spurningu er auðvelt að svara út af fyrir sig þegar maður áttar sig á því að þessir aðilar líta þannig á að þeir beri ábyrgð á kjarasamningum vegna hagsmunatengsla sinna við verkalýðshreyfinguna og hugsa í raun og veru ekki út í að þeir eru hér að tala um aðgerðir ríkisvaldsins en ekki kjarasamninga. Þannig verður eiginlega að líta á atkvæði þeirra hérna inni, ekki sem atkvæði þingmanna eða löggjafa heldur fyrst og fremst sem atkvæði verkalýðsforingja, því að ef þeir tækju hlutverk sitt alvarlega sem löggjafar kæmi þeim ekki til hugar, held ég, að styðja þetta frv. þar sem ekkí er á nokkurn hátt gerð grein fyrir því hvernig á að standa við þessi loforð. Það tiltaka þeir sjálfir í sínum nál. Þeir horfast í augu við þá staðreynd að þetta er álíka „blankó“ og ég lýsti í gær ef við hefðum einhver tekið það upp hjá okkur að leggja fram þáltill. um að ríkisstj. tæki 1800 millj. kr. lán innanlands til að greiða niður verðlag í landinu.

Ég mun ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt, eins og fram er komið í minnihlutaáliti 4. minni hl. Ég vona að svör hæstv. fjmrh. við þeim spurningum sem ég bar hér fram vegna fskj. um húsnæðismál, sem einhverra hluta vegna hefur verið mjög hljótt um í þessum umræðum, verði skýr. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað mönnum gengur til að leita ekki skýrra svara við þessum atriðum því að þessi atriði skipta öllu máli um það hvort fólk raunverulega treystir á þessar gerðir og styður þær á þann hátt með bjartsýni sinni.