27.02.1986
Efri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Vegna fsp. hv. 8. þm. Reykv. um þau atriði í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og yfirlýsingu ríkisstj. frá í gær er lúta að húsnæðismálum er rétt að minna á það að því er vexti varðar af þeim bréfum sem ríkissjóður hefur boðið til sölu að þeir eru ærið mismunandi. Af ríkisskuldabréfum hafa verið greiddir 6% vextir, af spariskírteinum hafa verið greiddir upp á síðkastið mismunandi vextir á hinum hefðbundnu bréfum, frá 6 og upp í 9% eftir lengd lánstíma.

Þær lántökur sem fyrirhugaðar eru skv. þessu frv. eru 925 millj. kr. frá lífeyrissjóðunum. Hluti af þeim fjármunum fer til Byggingarsjóðs ríkisins eða 300 millj. kr. Að hinu leytinu er rétt, sem fram kemur í því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu um nýtt húsnæðislánakerfi, að byggt er á miklu meiri þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun þess kerfis en verið hefur. Það verður auðvitað eitt af þeim atriðum sem kemur til athugunar í þeirri vinnu sem fer af stað í kjölfar þessa samkomulags.

Það er eindreginn ásetningur ríkisstj. að bregðast mjög skjótt við og hefja nú þegar þá vinnu sem nauðsynleg er til að stuðla að framkvæmd þessa samkomulags. Þar eru ýmis atriði óljós, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi. Í ýmsum efnum er minnst á x kr. og eðlilegt að aðilar og stjórnvöld vinni að frekari útfærslu á þessum hugmyndum og geri sér glögga grein fyrir kostnaðarþáttum þessara breytinga. Báðir aðilar verða að huga að þeim atriðum áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar og nýtt húsnæðislánakerfi er staðfest með lögum.

Lífeyrissjóðirnir hafa notið að mínum dómi hagstæðra vaxtakjara varðandi sölu á ríkisskuldabréfum og ég geri ráð fyrir því að svo verði áfram eins og hingað til, en endanlegar ákvarðanir, bæði af hálfu ríkisstj. um vexti á ríkisskuldabréfum annars vegar og spariskírteinum, liggja ekki fyrir.

Ég geri þó fastlega ráð fyrir því að innan ekki langs tíma verði unnt að lækka vexti af spariskírteinum, en eins og hv. þm. vita er ráðgert að selja spariskírteini fyrir u.þ.b. 2100 millj. kr. á þessu ári miðað við að innlausn á eldri skírteinum verði um 1700 millj. þannig að það eru tæplega 400 millj. kr. sem ríkissjóður tekur að láni á þann veg.

Það sem af er þessu ári hefur sala spariskírteinanna gengið allvel. Um miðjan þennan mánuð hafði nettólántaka, mismunur á sölu og innlausn, verið í kringum 70 millj. kr. Þær breyttu efnahagslegu forsendur sem við erum að leggja drög að með þessu samkomulagi og þeirri lagasetningu sem hér fer fram gera það að verkum að ég á von á því að innan ekki langs tíma verði unnt að lækka vexti á þeim spariskírteinum sem eru til sölu.

Þetta samkomulag, sem hér liggur til grundvallar, byggist á því að fjármögnun á þeim lántökum sem ríkissjóður og byggingarsjóður taka á þessu ári upp á 925 millj. kr. fari fram á þeim vaxtakjörum sem ríkissjóður hefur boðið að undanförnu. En hvað varðar vexti, af spariskírteinum og vexti af ríkisskuldabréfum á næstu árum er auðvitað ekki unnt að segja neitt til um á þessu stigi. Við væntum þess að þeir geti lækkað í takt við nýjar og breyttar efnahagslegar forsendur.

Svar ríkisstj. um þetta efni var alveg skýrt og um það fullt samkomulag á milli samningsaðila hvernig framhaldsvinnu að þessu leyti verður háttað. Ég vænti að sú vinna skili góðum árangri og hef lengi verið þeirrar skoðunar að uppbygging húsnæðislánakerfisins byggðist á auknu samstarfi Byggingarsjóðs ríkisins og lífeyrissjóðanna. Með þessu samkomulagi, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert, hafa verið lögð drög að þeirri miklu kerfisbreytingu. Það er alveg ljóst að hér er verið að halda af stað með grundvallarbreytingu á húsnæðislánakerfinu sem ég fastlega vænti að leiði til góðs.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir skjót vinnubrögð. Það er ljóst að verið hefur knappur tími til stefnu og málið er umfangsmikið, en á það er að líta að það eru miklir hagsmunir í húfi að þetta mál hafi hraðan framgang. Ég ítreka þakklæti mitt til hv. fjh.- og viðskn. og til þingdeildarmanna fyrir þá allvíðtæku samstöðu sem tekist hefur um að greiða fyrir framgangi þessa máls.