28.02.1986
Neðri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætlaði að víkja hér að örfáum atriðum sem fram hafa komið í ræðum manna og rétt er að ég skýri betur en í minni fyrri ræðu.

Hv. 5. þm. Austurl. hafði af því nokkrar áhyggjur að mér væri ekki að fullu ljóst hvar fjórðungaskiptin væru með réttu. Ég fór ekki í það í minni fyrri ræðu að gera nákvæma grein fyrir því hvar fjórðungaskipti milli Austurlands og Norðurlands eða Austurlands og Suðurlands væru, taldi satt best að segja að hann væri þar á heimavelli og gæti varla ætlast til þess að honum væru bornar fréttir af slíku af 5. þm. Vestf. Það sem ég veit sannast um mörk Austurlandsfjórðungs hins forna er að hann hafi náð frá Fúlalæk að Helkunduheiði og þaðan eins og vötn skiptu á Langanestá. Ég er ekki kaþólskari en páfinn í þeim efnum að sé af heimamönnum önnur skipting í næsta nágrenni þessara merkja talin æskilegri, þá hef ég ekkert við það að athuga, kæmi til þess að fylki yrðu sett upp á Íslandi, sem ég vona.

Hv. 1. þm. Vesturl. flutti hér mjög ítarlega ræðu og kom víða við. Vissulega var margt í hans ræðu sem ég get tekið undir. Hann undraðist það í mínum málflutningi að ég hefði talað um að menn hefðu breytt mörkum Vestfirðingafjórðungs hins forna eftir að þeir hefðu komist með eðlilegum hætti yfir Hvítá. Ég veit ekki hvort mönnum almennt er ljóst hvílíkur farartálmi Hvítá í Borgarfirði hefur verið á þeim tímum en mér þótti það dálítið merkilegt að ég hygg að hún falli um eina nafnlausa dalinn sem ég veit um á þessu landi. Það þótti ekki skipta neinu máli að geta sagt að menn byggju í þessum dal. Það sem þótti skipta máli var að geta sagt hvorum megin við ána þeir byggju. Þess vegna heitir annar helmingur dalsins Hvítársíða en hinn Hálsasveit. Dalurinn ber ekkert nafn, slíkur farartálmi var Hvítá.

Á Sturlungaöld var komin trébrú á Kljáfoss og þá voru kappar þess tíma búnir að finna nokkur vöð á ánni. En ég ætla að fram að þeim tíma hafi menn, sem ferðuðust þar um, orðið að fara allhátt upp með því vatnsfalli áður en þeir lögðu í að fara yfir það. Ég tel að í dag séu engar forsendur til þess að skipta við Hvítá og þess vegna tel ég að seinni tíma skiptingin sé hin rétta í þeim efnum.

Hins vegar fannst honum að mín afstaða að taka þá ákvörðun að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um þetta mál minnti helst á afstöðu smaladrengs. Nú er það svo með smaladrenginn að hann situr hjá og ætlar fjárhópnum allmikið rými til að rása um og skiptir sér ekki af, telji hann að hann fari sér ekki að voða. Ég sé engin þau hættumerki í þessu að ég telji að þingheimur fari sér að voða þó að hann samþykki það sem hér er lagt fram.

Hitt er alveg ljóst að þetta er svo fjarri því að skila þeim árangri til skipulegrar uppbyggingar þjóðfélagsins að ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með því.

Í öðru orðinu er það viðurkennt að sýslunefndirnar, eins og þær hafa verið, heyri sögunni til og í hinu orðinu er það viðurkennt að það verði að vera þriðja stjórnsýslustigið. Boltanum er nánast sparkað heim í hérað og sagt: Hafið þetta eins og ykkur sýnist. Það má vel vera að það sé stjórnviska að gera þetta á þennan hátt. En auðvitað veit enginn hvað út úr því kemur.

Annað, sem við blasir því miður, er að hreppadeilur og hrepparígur hafa oft spillt eðlilegum samskiptum á milli byggðarlaga og nú er svo komið að ég fæ ekki betur séð en að hreppar geti staðið utan við ákveðin samtök þótt þau verði stofnuð á heimavelli. Dálítið erfitt hlýtur það þá að verða hjá ríkisvaldinu að fela slíkum aðilum mikil völd. Ég hvika þess vegna ekki frá þeirri skoðun minni að það er ekki gert sem þurfti að gera, að stofna hér fylki.

Það kom aftur á móti fram hjá hv. 2. þm. Reykv. að ástæða þess að hann teldi ekki rétt að stofna hér fylki væri fámenni þjóðarinnar. Það er nú svo. Það er eiginlega sama ástæðan og margir erlendir aðilar hafa fært fyrir því að það væri vitleysa að hafa hér sjálfstætt ríki norður á hjara veraldar. Samt er það svo að við völdum okkur það stjórnarfyrirkomulag sem fjölmennasta þjóð í hópi Vesturlanda hafði tekið upp. Við töldum okkur geta haft þjóðþing með eðlilegum hætti. Við töldum okkur geta haft sveitarstjórnir með eðlilegum hætti. En millistigið, sem einnig er til í Bandaríkjunum, í sambandslýðveldinu, töldum við að við værum ekki nógu stórir til að hafa.

Ég hygg að þegar menn koma með rökfærslu eins og þessa hafi það eitt á skort að þeir hafi ekki sest niður og hugsað málið. Það hvarflar ekki að mér að bera það á hv. 2. þm. Reykv. að hefði hann sest niður og hugleitt þetta mál í grunn, þá hefði hann talið að hægt væri að fórna millistiginu. Hann hefur aftur á móti ákveðið að standa að því að varpa boltanum heim í hérað og láta sjá hvernig mál þróast. Auðvitað geta þau þróast á jákvæðan hátt, ég vil ekki bera á móti því. Mér er ekki ljóst aftur á móti á hvern veg þau munu þróast. Það sem fyrst og fremst er þó jákvætt í þeim efnum er það að margt bendir til að það gæti orðið til þess að kaupstaðirnir, sem voru farnir út úr sínu samfélagi, fari aftur inn í sitt samfélag.

Þá ætlaði ég að víkja að þeim orðum hans að hann væri reiðubúinn að gerast hluthafi í hlutafélagi, sem Samband ísl. samvinnufélaga ætti 60% í, ef gróðavonin væri nægilega mikil. Nú er það svo, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr - og það veit hv. 2. þm. Reykv. - að ef menn eiga hlutafélag að meiri hluta, þá ræður sá meiri hluti við hvaða aðila er verslað. Ef hann á nú það hlutafélag, ekki kannske að 60% heldur að 90%, getur vel verið að hann kjósi miklu fremur að hagnaðurinn komi fram í því hlutafélagi.

Ég verð að segja eins og er að ég er ekki búinn að sjá það að hans túlkun á þessu máli sé algerlega í samræmi við hans innstu hjartans sannfæringu þótt hann hafi ákveðið að velja þann kost að svara þessu á þennan veg. En ég bíð og sé hvort mér berast þau tíðindi að hann sé orðinn eignaraðili að hlutafélagi þar sem Sambandið á hreinan meiri hluta.

Hitt var öllu verra - og þar fór hann með hreinar blekkingar og ég kemst ekki undan því að svara - að hann lýsti því hér yfir að hann væri í hópi þeirra 60% af þjóðinni sem hefðu aðeins 40% af atkvæðaréttinum. Það er nú svo. Eftir þær breytingar, sem gerðar voru á kosningalögum til Alþingis, veit hv. 2. þm. Reykv. fullvel að vægi atkvæða hvers einasta Íslendings í þessu landi er jafnt. dHondt reglunni var fórnað. Það veit hann. Þess vegna munu hinar strjálli byggðir ekki kjósa til þings nema hluta af þeim þm. sem skráðir verða sem þm. viðkomandi svæðis. Hinir verða kosnir af Reykvíkingum og þéttbýlisbúum.

Ég vona að þetta liggi svo ljóst fyrir hv. 2. þm. Reykv. að til þess að sannfæra hann um að málin eru á þennan veg þurfi ekki að koma til þess að flutt verði sú till. hér í þinginu að kosið verði til sveitarstjórna á sama hátt og kosið er til Alþingis. Ég býst nefnilega við því að þá verði fáir brattari hér í stólnum að mótmæla slíku en hv. 2. þm. Reykv. ef reikningsregla hins stærsta afgangs ætti að vera notuð við borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Það er eins og það sæki á mig sú hugsun að hæstv. forseti mundi veita honum dyggilegt lið í þeim efnum einnig.

Ég tel ástæðulaust að lengja þetta mál en vona að ég hafi svarað þeim atriðum sem fram komu í máli manna og sérstaklega var til mín beint.