28.02.1986
Neðri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið nokkuð gagnrýnt og það er út af fyrir sig kannske ekki óeðlilegt. En verulegur hluti af þeirri gagnrýni er byggður á misskilningi. Fyrst og fremst hafa menn rætt hér um sýslunefndir og niðurlagningu þeirra. Flestir aðilar, sem sendu inn athugasemdir við þetta frv., einmitt varðandi sýslunefndirnar, vildu breyta þeim. Sumir vildu leggja þær alveg niður en svo voru aðrir með tillögur um breytingar. Það voru engir með tillögur um óbreytt fyrirkomulag.

Skv. IX. kafla frv., eins og það liggur nú fyrir, er einmitt lagt til að kosnar verði héraðsnefndir sem komi í stað sýslunefndanna. Þær yrðu kosnar af hreppsnefndum og í flestum tilfellum yrði það oddvitinn. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að þessi kafli falli út en í staðinn komi héraðsnefnd skv. 6. gr., eins og hv. síðasti ræðumaður var að lýsa. Ég vil í þessu sambandi lýsa eindregið yfir því að ég tel að þriðja stjórnsýslustigið komi ekki til greina. Það á bara að vera tvö stig, ríki og sveitarfélög. Þess vegna er sagt í brtt. við 6. gr.: „Verkefni þau, sem sýslunefndum eru nú falin með lögum, skulu falla til sveitarfélaga.“ Það er meginmálið. Síðan kemur: „Héraðsnefndir skulu myndaðar um lausn þeirra verkefna.“

Þarna er algerlega skýrt kveðið á um að héraðsnefndir, sem þá eru myndaðar af sveitarstjórnunum á viðkomandi svæði, fari með lausn þessara verkefna. Um leið og sýslunefndirnar eru lagðar niður eru þessi verkefni falin sveitarstjórnunum og samvinnunefndum þeirra eins og eðlilegt og sjálfsagt er. Þarna er aðeins um að ræða lítillega breytt kerfi.

Hv. 1. þm. Vesturl. flutti hér mikla og góða ræðu í gær og ræddi þar um sýslunefndirnar. Það var ekki óeðlilegt að við þessi tímamót, þegar þær eru óbeinlínis lagðar niður, en þó ekki lagðar niður, eins og ég sagði áðan, flytti hann hér sitt mál um þessi efni þar sem hann var skörulegur sýslumaður og stjórnaði sýslunefndum um árabil. Ég efast ekkert um að hjá honum hafi sýslunefnd verið vakandi, forusta hans góð og þess vegna haft mikil áhrif á hans svæði. Gallinn við margar sýslunefndir er bara sá - og það er það sem kannske fyrst og fremst fellir þær - að forusta þeirra víða í héruðum hefur ekki verið slík að af sé hægt að státa. Það er kannske það sem fyrst og fremst drepur þetta kerfi. Ef sýslumaður hefur verið vakandi um héraðsmál og áhugamaður um sveitarstjórnarmálefni, eins og í mörgum tilfellum hefur orðið raun á sem betur fer, þá hafa þær starfað vel og komið mörgu fram á sýslugrundvelli. Þar sem það hefur ekki verið hefur þetta ekki haft þau áhrif sem skyldi.

Það sem veldur því að þær hafa ekki náð sínum markmiðum er: að þær hafa ekki verið nægilega tengdar sveitarstjórnum. Störf sýslunefnda er fyrst og fremst sveitarstjórnarstarf. Þær hafa t.d. það vald að ákveða gjöld á viðkomandi hreppa. En oft eru sýslufundir haldnir löngu eftir að hreppar hafa gert sínar fjárhagsáætlanir. Þá kemur sýslunefnd saman og hækkar kannske stórkostlega gjöld á hreppana. Þetta er alveg út úr kortinu og algjör skortur á tengslum, að menn sem ekki eru starfandi í sveitarstjórnum eða tengdir sveitarstjórnum komi saman og ákveði slík gjöld á hreppana þegar komið er langt fram á ár. Að sjálfsögðu hafa verið margir nýtir sýslunefndarmenn þó að þeir væru ekki í sveitarstjórnum. En þetta er gagnrýnivert kerfi. Þetta er alls ekki rétt í dag og hefur raunar aldrei verið svo.

Ég vil leggja á það áherslu að sterkasti örlagavaldur í því að þessu kerfi er breytt er að þessar nefndir og forusta þeirra víða í héruðum hefur ekki staðið sig sem skyldi. Það verður bara að viðurkennast. Sjálfur er ég í sýslunefnd og hef lengi verið og kannske ekki verið þar of vakandi. En í minni sveit hafa oddvitar um áratugi setið í sýslunefnd og ég held að það sé eðlilegra kerfi. Og það verður einmitt alls staðar með því að við samþykkjum hér brtt. við 6. gr. Þó að það heiti ekki lengur sýslunefnd heldur héraðsnefnd þá skulu þær myndaðar um lausn þessara verkefna en betur tengdar sveitarstjórnum.

Hér var talað um og hér eru tillögur uppi um að lögfesta lágmarks íbúatölur í sveitarfélagi en þær eru of háar og eðlilegt að hafa þær eins og þær eru í frv. Það leysir engan vanda og það er ekki ástæða, og einnig úr takt við kerfið, að lögbinda svo háa tölu í dag. Þetta verður að koma með þróun. Sveitarfélögin hafa slegið sér saman sjálfviljug til samstarfs um að leysa ýmis stærri verkefni. Það hefur í mörgum tilfellum ekki verið á sýslugrundvelli, það hefur verið eftir aðstæðum. Þau hafa gengið til þess samstarfs sjálfviljug og svo mun verða áfram.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég held að eðlilegt og sjálfsagt sé að samþykkja þessi lög eins og þau liggja nú fyrir. Kannske hafði mátt eyða nokkru meiri tíma í að skoða þau betur, en það bíður þá seinni tíma. Það er nauðsynlegt nú að breyta kosningadögum og kosningaaldri. Sveitarfélögin hafa lengi beðið eftir því að fá ný sveitarstjórnarlög. Þau fá núna með þessum lögum allsæmileg lög eins og staðan er í dag en að sjálfsögðu verður þeim síðar breytt eftir þörfum hverju sinni.