28.02.1986
Neðri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera örfáar athugasemdir við ræður manna í þessu máli.

Hæstv. félmrh. talaði hér áðan um hina frjálsu samvinnu sveitarfélaga sem sjaldan verður oflofuð. Hann benti á að ekki bæri alltént að fara eftir erlendum sérfræðingum - ég held að hann hafi talað um norska sérfræðinga - ekki bæri að apa allt eftir þeim. Þetta er hverju orði sannara. Þó er það svo að fjöldamargt í löggjöf okkar Íslendinga og Norðurlandabúa er svipað og af sömu rótum runnið, þó það hafi breyst nokkuð í aldanna rás. Enn í dag hafa Norðurlandaþjóðir með sér víðtækt samstarf á löggjafargrundvelli. Svo er ekki fyrir það að synja að við höfum talið okkur eitthvað í ætt við Norðmenn. Ég man ekki hver sagði það, það var einhver fræðimaður fyrr á öld sem tók þannig til orða:

„Coelum non animum mutant, qui trans mare currunt.“ Það er að segja: „Þeir sem sigla yfir hafið skipta um himin en ekki hug.“

Þess vegna hlutu forfeður okkar að taka talsvert með sér af norskum réttarvenjum og hugsunarhætti þegar þeir lögðu út á hafið og fundu Ísland hér „úti í gullnum sænum“.

En það var annað sem hæstv. félmrh. vék að sem ég ætlaði að gera að umtalsefni. Ég ætla mér ekki á neinn hátt að rýra hlut hans í þessu máli og ég skil vel áhuga hans á að koma þessu frv. fram. En ég skil líka áhuga þeirra, sem ekki geta í öllum atriðum fellt sig við frv., að þeir vilji koma hugsunum sínum á framfæri. Hann talaði um að menn rækju sig alls staðar á agnúa í löggjöfinni, agnúa þess efnis, að mér skildist, sem gerði það að verkum að sveitarfélögin gætu ekki starfað af fullum krafti. Ég vík aðeins að þessu síðar. Þá sagði hæstv. ráðh.: Vegagerð ríkisins leggur vegina en ekki sýslunefndin. Þetta er náttúrlega hverju orði sannara, en hitt er annað mál að veganefnd sýslunefndar, t.d. Snæfellinga, leggur á ráðin og segir hvar vegina eigi að leggja þó hún standi ekki í verkunum sjálf.

Þá sagði hæstv. ráðh. loks: Sýslunefnd Snæfellinga er óvirk í dag, stærsta sveitarfélagið er farið út. Ég bið menn að taka vel eftir þessum orðum, bæði heima og heiman. Ég fullyrði að Snæfellingar vilja halda áfram að vinna saman á héraðsgrundvelli hér eftir sem hingað til.

Það má svo ekki minna vera en ég beini örfáum orðum til eina sýslunefndarmannsins sem ég hygg að sitji hér í salnum en það er hv. 6. þm. Suðurl. (Gripið fram í: Þeir eru nú reyndar tveir í deildinni.) Ja, er ekki hv. 6. þm. Suðurl. sá eini sem situr í sæti sínu eins og er? Þá mun ég aðeins tala við hann, en það verður náttúrlega í mjög vinsamlegum tón því ég kann vel að meta alla heiðarlega sýslunefndarmenn og hef starfað með þeim vel og lengi og met hvern sýslunefndarmann öðrum betur, því að af þeim hef ég góða reynslu. Í samstarfi við þá þykist ég hafa komið mörgum góðum málum til leiðar og þokað þó nokkrum málum áleiðis.

En hann kvartaði undan því að sýslunefnd ætti það til, og þá sýslunefnd Rangæinga væntanlega, að stórhækka gjöld á hreppana og ekki væru næg tengsl milli sýslunefnda og sveitarstjórna. Þarna skil ég hann allvel því að þetta er maður sem gætir vel allrar fjársýslu og honum hefur komið illa ef sýslunefndin hefur einhvern tíma sent honum bakreikning.

Hann vék að oddvitum sýslunefndanna, þeir væru ekkí svo vakandi sem skyldi. Þetta atriði hefur komið fram í þessum umræðum hvað eftir annað. En þó ég segi þetta efast ég ekki um að hv. 6. þm. Suðurl. hafi reynst og muni reynast hinn ágætasti sýslunefndarmaður.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. er nú hlaupinn af hólmi. Hann vék einnig að frjálsu samstarfi sveitarfélaga og gat þess m.a. að Þingeyingar við austanverðan Eyjafjörð ynnu í ýmsum félagsmálum með Eyfirðingum. Þetta sannar mitt mál að því leyti að ég held því fram að þrátt fyrir núverandi löggjöf, sem svo margir finna margt til foráttu, hafi þó getað átt sér stað hin margvíslegustu samskipti sveitarfélaga á frjálsum grundvelli. Hins vegar er það rétt hjá honum að það er dálitið ankannalegt að menn á Svalbarðsströnd taki fullan þátt í félagslífi Eyfirðinga en þurfi svo að sækja veðbókarvottorð norður á Húsavík. En ekki vildi hann fresta þessu máli.

Hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. kom fram að hann og væntanlega ýmsir af hans flokksmönnum eru reiðubúnir að styðja þau ákvæði þessa frv. sem nauðsynlega þurfa að komast fram fyrir vorið. Þetta er vel mælt af hans hálfu og vel boðið þeim flokkum sem hér fara með völd í landinu, að ég tel. Hann taldi auðvitað fjöldamargt horfa til bóta í þessu frv. og það mælir enginn um þau efni á annan veg. Hvernig á heldur annað að vera þar sem svo margir höfðingjar og ágætir menn hafa um fjallað og lagt hönd að verki mörg undanfarin ár?

Mig langar ekki að fara sérstaklega að takast á við varaformann minn, hv. 2. þm. Reykv., enda er hann allt að því með höndina í fatla, svo að ég vil ekki beita hann neitt hörðum tökum, enda engin ástæða til þess með svo mætan mann og góðan dreng. Þó vil ég gera þá athugasemd við hans málflutning, sem hvað eftir annað hefur komið fram í ummælum annarra úr þessum ræðustól, að þeir eru að tala um hvort eigi að lögfesta þriðja stjórnsýslustigið. Ef þeir meina eitthvað svipað og ég, er hér fyrst og fremst af þeirra hálfu um að ræða að fella niður þriðja stjórnsýslustigið eða þann vísi að því sem kemur fram í störfum sýslunefnda skv. lögum. Það má, eins og hv. 2. þm. Reykv. segir, halda áfram að velta því fyrir sér hvort eigi að lögfesta þriðja stjórnsýslustigið í öðru formi. En það er ekki nóg með að þessir hv. þm. taki svo til orða heldur eru þeir fyrst og fremst að reyna að fella niður það stjórnsýslustig sem hefur gilt um aldir í landinu og virðist vera eitthvað að flækjast fyrir þeim. Ég spyr: Eru sýslufélögin eitthvað að leggja stein í götu þessara manna, æðstu manna þjóðfélagsins? Nei, ég held að það sé þvert á móti, að þau unni þeim alls hins besta.

Það er nú svo að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég hef talað um að ég gæti vel fallist á það atriði, sem komið hefur fram í ræðum manna, t.d. að oddviti sýslunefndar þyrfti ekki að vera sýslumaður sjálfur. Þvert á móti kæmi annað til greina. Ég hef tekið fram að ég gæti vel hugsað mér að kosningar til sýslunefnda færu fram á annan veg en nú er ákveðið í lögum og ég hef í þriðja lagi getið þess mjög greinilega að ég væri frá mínum bæjardyrum séð fyllilega til viðræðu um að breyta störfum sýslunefnda á ýmsan veg. En hér lítur dæmið út eins og sé verið með einhverja tilraunastarfsemi. Hér er talað sem svo, að það geti margt út úr þessu komið o.s.frv.

Ég vil svo nefna að það er rætt um að þetta mál þurfi að hafa skjótan framgang í þinginu. Ég veit ekki til þess að hæstv. ríkisstj. sé búin að gera skrá yfir þau frv. sem hún vill að nái samþykki fyrir þinglok. Fyrr en svo er sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að taka þetta eina frv. út úr og keyra það áfram með slíkum hraða og hörku eins og hér er höfð í frammi.

Vitanlega eru mér kannske hugstæðust sýslufélögin og sveitarfélögin á Vesturlandi og ég segi fyrir mig: Það fær mig engin til að samþykkja það í dag, svo að ég taki dæmi, að leggja niður Dalasýslu sem sýslufélag. Þetta eru fámennir hreppar, en þó níu að tölu. Þeir hafa sameiginlegan vettvang, sem er sýslunefndin, í miðju héraði. Þetta eru hreppar sem eru komnir hvað lengst í því, eins og hæstv. félmrh. veit, að ræða um það í fullri alvöru að sameinast, jafnvel í tvo hreppa eða í einn hrepp. Mundi það vera stuðningur við þessi sveitarfélög, ef við núna sviptum þau þeim vettvangi sem hrepparnir hafa þó öll þessi ár haft til þess að ræðast við á, en það er sýslunefndin, þar sem þeir hafa rætt sín mál í héraði? Nei, það held ég alls ekki.

Það gegnir e.t.v. nokkuð öðru máli um Snæfellsness- og Hnappadalssýslu. Þar hafa risið upp öflug kauptún, fjölmenn sjávarþorp, og það er eðlilegt að þau hafi ýmsum málum að sinna fyrir sig. En ég held að sýslunefnd hafi þarna ekki staðið í vegi fyrir neinum. Þau sveitarfélög sem hafa vaxið að áhrifum og fólksfjölda hafa fengið sín réttindi eins og þau hafa óskað eftir að lögum. Ólafsvíkurbúar fengu kaupstaðarréttindi 1983. Þeim var óskað til heilla með þessi réttindi og ekki lagður neinn steinn í götu þeirra. Þvert á móti.

Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. Það eru öflug sýslufélög. Þar hafa bæði sveitarfélögin, þ.e. hrepparnir, unnið vel saman, einnig sýslurnar. Ég minni á Andakílsárvirkjun frá 1947. Eigendur hennar eru Mýra- og Borgarfjarðarsýslur og Akraneskaupstaður. Þetta farsæla fyrirtæki er gott dæmi um hvað tvö sýslufélög og einn kaupstaður geta tekið höndum saman og hrint góðu verki í framkvæmd.

Ég minni á Sparisjóð Mýrasýslu sem þeir hafa staðið mjög traustan vörð um, svo traustan að það hefur enginn ríkisbanki hingað til lagt út í að reisa útibú í Borgarnesi, a.m.k. meðan það er í óþökk heimamanna sem hafa staðið mjög vel saman um sinn sparisjóð.

Ég þarf ekki að rekja fleiri dæmi öllu lengra, en ég hygg að þá sem á mál mitt hlýða og sem hlustuðu á það sem ég sagði í gær þurfi ekki að undra þó það séu nokkur atriði sem staldrað sé við í þessu máli.

En ég fullyrði að sýslunefndir hafa ekki staðið í vegi fyrir því að sveitarfélög innan þeirra vébanda hafi getað þroskast og gengið sína framþróunarleið. Þvert á móti hefur verið stutt að frjálsu samstarfi sveitarfélaga. Hér á landi starfa mörg landshlutasamtök sem láta margt gott af sér leiða. Ég tek enn dæmi af Vesturlandi þar sem landshlutasamtökin hafa unnið mjög gott starf. Þar eru nú fjögur sýslufélög og tveir kaupstaðir. Ég hygg að samstarf sveitarfélaga á landshlutagrundvelli hafi óvíða verið blómlegra né farsælla en á Vesturlandi og ég fagna því. Þá er það Samband ísl. sveitarfélaga sem vinnur af miklum krafti og styður sveitarfélögin í einu og öllu. Ég hef bent á að sýslur og kaupstaðir geta engu síður unnið saman en hreppar og hin fámennari sveitarfélög. Og að sjálfsögðu vinna héruð innan hvers kjördæmis saman að mörgum málum.

Ég viðurkenni að það þarf ýmsu að breyta í þessum málum. Að sjálfsögðu er rétt að breyta löggjöfinni og laga hana og færa í nútímahorf. Ég hef aldrei mótmælt því. Það þarf að huga að hreppa- og sýslumörkum, verkefnaskiptingu og tekjuskiptingu hreppa og ríkis o.fl. o.fl. Menn eru sammála um fjöldamargt í þessum efnum. En eigi að síður finnst mér að þetta frv. sé ekki nógu vel búið til fullnaðarafgreiðslu. Það er aðeins einn angi af þeim málum sem ég hef hér minnst á. Þess vegna vil ég ítreka orð mín frá því í gær: Það er betra að flýta sér hægt, huga betur að málunum, vanda betur sín verk en samþykkja eitthvert lagafrv. sem þarf svo strax að fara að hugsa um að breyta á næsta ári. Það er ekki hlutverk löggjafans. Hlutverk löggjafans er tvímælalaust að setja lög sem ætlað er að standa til nokkurrar frambúðar, en ekki þau sem á að endurskoða á næsta ári eða tveim. Við verðum að muna að við erum að setja þessa löggjöf, sem ber að vanda til þess að efla byggðaþróun í landinu okkar og stuðla að því að byggðir landsins utan Reykjavíkur taki höndum saman við þéttbýlið og þróun mála beinist á farsælan veg í framtíðinni.