28.02.1986
Neðri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil út af orðum sem hér hafa fallið í umræðunum af hálfu hv. 2. þm. Reykv., svo og af vörum hæstv. félmrh., varðandi þriðja stjórnsýslustigið mæla hér örfá orð. Ég held að það sé mikið vanmat hjá þessum hv. þm. og hæstv. ráðh. að það sé ekki ríkur áhugi á því að koma á þriðja stjórnsýslustigi í landinu. Menn kann að greina á um í hvaða formi það beri að gera, hvaða tilhögun, mörk og verkefni eigi þar til að koma, en ég leyfi mér að fullyrða að áhuginn á því að koma slíkri skipan á, til þess að bæta stöðu landsbyggðarinnar og styrkja hana, er ríkur og vaxandi án þess að ég fullyrði nákvæmlega hvernig staðan er meðal sveitarstjórnarmanna einna og sér. Ég gæti, ef ástæða þætti til, vitnað í fjölmargar ályktanir, m.a. samtaka sveitarstjórnarmanna út um landið sem lýst hafa stuðningi við slíka skipan mála, og þeim hefur farið fjölgandi að undanförnu. Margar þessar ályktanir fela í sér að menn vilja fá slíkt nýtt afl samtaka fólks á stærri vettvangi en nokkur von er til að náist með stækkun sveitarfélaga, kjörið í beinum lýðræðislegum kosningum, með lýðræðislegum hætti. Það er að mínu mati eina sæmandi formið þegar að því kemur að menn ná saman um stofnun slíks nýs stjórnsýslustigs.

Eins og fram kom í máli mínu fyrr við þessa umræðu er ég fyrst og fremst að mæla með slíku stjórnsýslustigi til að færa verkefni frá ríkisvaldinu út í landshlutana, draga úr miðstýringarvaldi ríkisins og samsöfnun valds og verkefna á Reykjavíkursvæðinu og færa það út. Ég efast um það, hæstv. félmrh., að þeir séu margir sveitarstjórnarmennirnir á landinu, fyrir utan kannske hér á Reykjavíkursvæðinu, sem ekki hafa áhuga á slíkri valddreifingu og verkefnadreifingu. Ég er ekki að mæla með því að til þriðja stjórnsýslustigs verði með lagaboði lögð verkefni frá sveitarfélögunum. Það kemur skýrt fram í þeirri brtt. sem ég hér flyt. Þar er eingöngu um að ræða verkefni sem áhugi væri á af hálfu sveitarfélaganna á viðkomandi svæði að fela þessu nýja stjórnsýslustigi. Ekkert valdboð í þeim efnum.

Ég hygg að það gæti talsverðs misskilnings um þessi efni hjá mörgum og hugmyndirnar eru líka misjafnar, það vitum við, í þessum efnum, en mér er það alls ekki í hug að fara að færa með valdboði verkefni frá sveitarfélögunum til slík millistigs í stjórnsýslunni. Ég held raunar þvert á móti að það þurfi að efla sveitarfélögin til þess að geta færst meira í fang og það beri einnig að gera jafnhliða því sem við komum upp slíku þriðja stjórnsýslustigi fyrst og fremst til að dreifa verkefnum frá ríki nær fólkinu.

Mér þykir leitt að heyra það í þessari umræðu, eins og það kom fram frá hv. talsmanni meiri hl. félmn., að innan Sjálfstfl. virðist mjög takmarkaður áhugi á að taka á þessu máli með þeim hætti eða með svipuðum hætti og ég er að mæla hér fyrir. Hv. 2. þm. Reykv. vitnaði til landsfundar eða flokksþingssamþykktar sjálfstæðismanna sem kvað á um að þeir vildu fá IX. kaflann felldan út úr þessu frv. Hann fól í sér vísi að slíku stjórnsýslustigi. Ég hef ekki heyrt neinar markaðar tillögur af hálfu Sjálfstfl. um eitthvert annað form. Á meðan það kemur ekki fram verðum við að ætla að þar séu ekki undirtektir við þriðja stjórnsýslustigið.

Hæstv. félmrh. greindi okkur ekkert frá því hver væri staða þessara mála innan Framsfl. Við heyrðum hér í hv. 5. þm. Vestf., en hann talar oft nokkuð öðrum tungum en meiri hluti manna í hans flokki. Það þekkjum við hér úr sölum Alþingis. Hæstv. félmrh., sem hlýtur að teljast gildur talsmaður síns flokks í þessum málum, er ekki talsmaður þriðja stjórnsýslustigs. Það kemur hér ítrekað fram við þessa umræðu.

Ég held að þessi staða í ríkisstjórnarflokkunum hljóti að vera slæm tíðindi fyrir marga í landinu, þá mörgu, og þeim fer fjölgandi, sem áhuga hafa á að menn nái saman um þriðja stjórnsýslustig, bærilega stórar og öflugar einingar til að andæfa gegn hinu miðstýrða ríkisvaldi og stofnanavaldi höfuðstaðarins. En við skulum vona að einnig innan þessara flokka vaxi þeim ásmegin sem eru reiðubúnir að taka höndum saman með mönnum úr öðrum flokkum til að ná slíkri skipan fram. Ég rakti hvernig þessi mál standa í flokkum stjórnarandstöðunnar svona í aðalatriðum, gleymdi þó í máli mínu í gær að nefna það sem fram kemur af hálfu Alþfl. sem samkvæmt nál. og máli talsmanns 1. minni hl. félmn. er jákvæður í sambandi við nýtt stjórnsýslustig og leggur til að að því verði unnið með nefndaskipan og reynt að koma því á innan fárra ára.

Ég ítreka von mína um að menn nái saman um þetta efni. Ég er sannfærður um að það skiptir mjög miklu máli að slík skipan komist á fyrr en seinna. Ég skil, herra forseti, sjónarmið þeirra manna sem sakna sýsluskipanarinnar, telja að þar hafi margt gott áunnist á liðinni tíð, og alveg sérstaklega í ljósi þess að það er ekkert sem á að koma í staðinn annað en sá óskapnaður sem við höfum rætt hér í formi héraðsnefnda og ég ætla ekki að orðlengja frekar við þessa umræðu.