28.02.1986
Neðri deild: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2932 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Ég gat um það við utandagskrárumræðuna í gær, sem í raun og veru var umræða um þetta frv. sem þá var rétt ókomið fram, að það væri ánægjulegt til þess að vita að þessir samningar hefðu tekist. Ég endurtek það og eins ef við eigum von á því að við Íslendingar getum horft fram á þá tíma að hér verði um að ræða svo lágt verðbólgustig sem talað hefur verið um eða að hún fari niður fyrir 10%. En ég get hins vegar ekki sagt að ég sé bjartsýn á þessari stundu. Margt gerir það að verkum að ég get ómögulega leyft mér það.

Auk þess gat ég um það við umræðuna í gær að mér fyndist óeðlilegt að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki hafa haft burði í sér til að hafa frumkvæði að því að láta fólkið í landinu njóta þess að nú væri lag til að rétta við hag þess. Hún þurfti að láta aðila vinnumarkaðarins segja sér fyrir og gefa sér upp uppskriftina að því hvernig standa ætti að þeim málum.

Ég ætla ekki að rekja nánar þau atriði sem ég gat um við umræðuna í gær vegna þess að það væri eingöngu endurtekning, en ég vil í öllum efnisatriðum taka undir orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur er hún gat um í umræðunum áðan um hve óeðlilegir þessir samningar væru.

Sé litið nánar á þessa samninga get ég ekki betur séð en að þeir líti út eins og von eða ósk um happdrættisvinning sem eru alveg eins og jafnvel meiri líkur á að fólk tapi eins og að það vinni eitthvað. Þannig stöðu tel ég ekki að margir í þjóðfélaginu þoli eins og nú er ástatt og eins og staða þeirra er nú eftir allar þær hremmingar sem þeir hafa gengið í gegnum á undanförnum árum.

Einnig er það svo að mörg atriði eru svo óljós í þeim samningum sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi. Það er t.d. þetta með verðlagið. Það er ekkert sem tryggir að vörur í verslununum haldi ekki áfram að hækka jafnvel þó að tollarnir á þeim lækki. Það er ekkert getið um að veita beri aukið fjármagn í að verðlagseftirlit verði hert eða jafnvel að verðstöðvun eigi að ríkja meðan þessi atriði eru að ganga í gegn. Í því sambandi langar mig til að vitna í viðtal í Þjóðviljanum í dag við Birgi Björn Sigurjónsson hagfræðing BHM. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Höfuðatriði í þessum samningi er það náttúrlega að kostnaðaraukanum, sem þessum samningi kann að fylgja fyrir fyrirtækin, er dengt á ríkissjóð og hann mun birtast launafólki og einkanlega ríkisstarfsmönnum meðal launafólks af fullum þunga til baka. Það er bara spurningin hvenær það verður.“

Enn fremur segir Birgir síðar í þessu viðtali, með leyfi forseta:

„Miðað við þá skuldastöðu sem er hjá ríkinu í dag, þá sér maður að olnbogarými til að fara út í lántökur út af þessu er ekki fyrir hendi þannig að þetta kemur af fullum þunga til baka mjög hratt.“

Ég vil taka undir þessi orð og vitna enn frekar í það sem hann segir í lok þessa viðtals, með leyfi herra forseta:

„Hvers vegna eru launamannasamtökin að biðja um lækkun tolla á bílum? Hvers vegna eru þeir svona spenntir fyrir vaxtalækkunum? Eru þetta lán á venjulegu fólki? Nei, þetta eru allt atriði sem spila inn í vísitölugrundvöllinn. Ég bendi á að það fólk sem er að kaupa eða byggja nýtt er yfirleitt með allt verðtryggt og þar eru vextirnir að hækka, en það kemur ekki inn í vísitölugrundvöllinn.“

Það er ekki nóg að horfa á vísitölu framfærslukostnaðar í heild sinni. Þar verður einnig að koma til að taka út þann lið sem vegur þyngst í vísitölu framfærslukostnaðar, þ.e. matarkostnaðurinn. Sá liður einn hefur hækkað um 84,2% frá því 1. febr. 1984 til l. febr. 1986 á meðan heildarvísitala framfærslukostnaðar hefur á sama tíma hækkað um tæplega 68%. Þetta er ekki svo lítið atriði. Það sem skiptir máli þegar verið er að tala um að hækka laun hinna lægst launuðu og rétta af hag þeirra er að það þarf að gera eitthvað í því að lagfæra þann lið sem mest vegur í útgjaldahlið þess fólks sem lægst hefur launin. Það er maturinn, eins og ég sagði áðan. Sá liður hefur sem sagt hækkað um 84,2% síðan 1. febr. 1984. Hins vegar hefur Alþýðusambandið alltaf miðað við framfærsluvísitöluna í heild sem hefur hækkað miklu minna. Staðreyndin er að í rauninni hafa launin ekki rýrnað eins mikið gagnvart vísitölu framfærslukostnaðar í heild sinni og gagnvart vísitölu framfærslukostnaðar þegar matarliðurinn er tekinn út einn sér.

Þessir útreikningar allir eru orðnir svo skekktir. Þess vegna vil ég nefna það í framhjáhlaupi að af heildarútgjöldum framfærslukostnaðar vegur maturinn 23-24% á meðan rekstrarkostnaður bifreiðar er farinn að vega 18-20%. Það segir sig sjálft að það kemur ekki heim og saman. Það hlýtur að vera hærri rekstrarkostnaður hlutfallslega á matarliðnum í framfærsluvísitölunni en á rekstrarlið bifreiðar. Það segir sig sjálft. Svo er hann orðinn skekktur þessi grundvöllur. Það hefði þurft að lagfæra hann fyrst og fremst áður en haldið er áfram að miða við hann. Þess vegna er það að þær breytingar sem nú eiga sér stað eru að mínu mati mjög tilviljunarkenndar og til þess gerðar einna helst að snuða þessa framfærsluvísitölu.

Ef dæmi er tekið úr þeim greinum frv. sem fjalla um breytingar á lögum um tollskrá er mjög umdeilanlegt hvaða vörur eða vöruflokka á að lækka þar. Þar eru tekin út dæmi eins og lækkun á heimilistækjum. Ég spyr: Er það sem heitir vídeó heimilistæki? Það er ekki meira heimilistæki en svo að fjöldi manns á ekkert slíkt tæki og telur það ekki neitt nauðsynlegt heldur. Það er til fólk sem hefur slappað alveg af og látið þann lið eiga sig. Ég segi t.d. fyrir mig að ég á ekki vídeó og tel mig ekki þurfa að eiga vídeó á meðan ég tel mig alls ekki komast hjá því að eiga og þurfa að eiga ýmislegt annað. Þessi tæki, vídeóin, eru hins vegar lækkuð úr 75% tollskrárflokki í 40%. Hins vegar eru bráðnauðsynleg tæki, og ég tel að það sé ekki fært fyrir nokkurn mann að komast hjá því að nota þau, tæki eins og klósett, vaskur og baðkar. Þetta eru tæki til að sinna brýnustu frumþörfum. Það er alveg sama hvar maður er staddur. Maður þarf að nota þau. Slíkt mundi ég miklu frekar flokka undir heimilistæki og það meira að segja bráðnauðsynleg heimilistæki. Ég verð að segja að ég mundi flokka þau undir bráðnauðsynlegri heimilistæki, jafnvel þó að oft sé erfitt að vega og meta hvað sé nauðsynlegt og hvað sé ekki nauðsynlegt, heldur en vídeó.

En við skulum aðeins líta á þá tollskrárflokka sem heimilistæki eru í, þ.e. þau heimilistæki sem ég er að tala um, hreinlætistækin. Þau eru öll í 80% tollflokki + 24% sérstakt tímabundið vörugjald. Þau eru öll í þessum flokki nema vaskar úr ryðfríu járni og stáli. Öll önnur hreinlætistæki eru í 80% tollflokki og bera þar að auki 24% sérstakt tímabundið vörugjald. Ég þarf auðvitað ekki að geta um að að sjálfsögðu er söluskattur þar að auki. Það er sem sagt lúxustollaflokkun á þessum vörum. Þetta eru munaðarvörur. Lækkun á þeim mundi ég segja að gæti orðið til að rétta við hag þeirra sem eru að reyna að baksa við að koma þaki yfir höfuð sér.

Í frv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að 300 millj. kr. renni til aðstoðar þeim húsbyggjendum sem eiga í greiðsluerfiðleikum. En þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum og öðrum þeim sem eru að koma þaki yfir höfuð sér væri mjög auðveldlega hægt að hjálpa eða aðstoða með því að lækka tolla á þessum nauðsynjavörum sem ég er að tala um og alveg er bráðnauðsynlegt að hafa í húsum og íbúðum sem þetta fólk er að basla við að koma yfir sig.

Einnig má nefna að þeir sem eru að byggja eru í allflestum tilfellum fólk sem jafnframt þarf að fjármagna kaup á vörum vegna ungra barna sinna, svo sem barnavagna, öryggissæti í bifreiðar fyrir börnin o.s.frv. Ég flutti um það brtt. við fjárlög fyrir 1986 að hreyft yrði við þessum flokkum. Þá sagði ég, með leyfi herra forseta:

„Með þeirri till. sem hér er flutt er m.a. verið að gera foreldrum og aðstandendum ungra barna auðveldara að verja börn sín gegn slysum í umferðinni. Miklum áróðri og þrýstingi hefur verið beitt til að fá foreldra til að nota öryggistæki fyrir börn sín í bíla. En hvað gagnar nú slíkur áróður og þrýstingur ef þessi öryggistæki eru svo dýr að fólk hikar við að festa kaup á þeim? Hvað mikið ætli það spari ekki ríkissjóði í reynd að fella niður aðflutningsgjöldin af þessum vörutegundum? Með því eykst möguleikinn á því að slysum á þessum ungu þjóðfélagsþegnum fækki og þar að auki möguleikinn á að hægt sé að draga úr þjáningum og harmi. Það sparar auðvitað ríkissjóði ómældar fjárhæðir í sjúkrakostnað og endurhæfingu þeirra barna sem lifa af þessi hroðalegu slys.“

Enn fremur sagði ég um barnavagnana:

„Það vill svo til að það verður 100% hækkun á þeim frá innkaupsverði eins og nú er háttað. Það er þá í formi þess að tollur er 50%. Auk þess er reiknað 24% vörugjald og svo auðvitað söluskattur. Það þýðir auðvitað ekkert að vera alltaf að tauta um það að gera verði aðstæður fólks þannig úr garði að því sé kleift að eignast börn.“

Svo mörg voru þau orð.

En þetta sem ég hef talið hér fram er sem sagt talin vera lúxusvara. Ég vil hér með boða brtt. við frv. sem felur í sér að nokkur tollskrárnúmer verði tekin inn í frv. og til verulegrar lækkunar. Þessi brtt. er á þskj. 558 og er frá mér og Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur. Þessi tollskrárnúmer, ég ætla ekki að lesa þau upp hvert og eitt fyrir sig, þau eru á þskj. svo að ekki ætla ég að taka tíma þingsins í það, gilda um hreinlætistæki þau sem ég vil kalla heimilistæki og auk þess um barnavagna og öryggissæti í bifreiðar fyrir börn. Við leggjum til að tollar á vörum í þessum tollskrárnúmerum, sem getið er um á þskj., verði 20%. Þau fari úr 80 og 50% niður í 20%. Ef ekki er talið gerlegt að koma því við fer ég fram á að í staðinn verði tekinn út vídeóliðurinn og inn settur í staðinn sá sem við leggjum til hér, skipta sem sagt á þessu tvennu. Allir hljóta að vera sammála um réttlæti þess. Bara svo að ég nefni eitt dæmi: Ef þessi hreinlætistæki væru í sama tollflokki og vídeóin, 40%, mundi það muna þá sem eru að kaupa þau og jafnframt eru að koma yfir sig þaki og eiga erfitt, eftir því sem okkur hefur verið gert ljóst, 20 þús. miðað við allægsta verðflokk þessara tækja. Ef við hins vegar færum niður í 20% tollflokk, sem ég tel eðlilegt vegna þess að þetta á ekki að vera munaðarvara, mundi það muna hvern og einn 30 þús. kr. eða um það bil, á þeim vörum sem eru lægstar í verði á markaðnum núna. Þetta eru svo sem ekkert stórar upphæðir í sjálfu sér, en þær vega mikið þegar fólk á varla peninga til þess að kaupa slík tæki.

Ég tel að með því fái hæstv. ríkisstj. tækifæri til að sýna vilja sinn í verki, hvað það er raunverulega sem hún er viljug til að gera fyrir það fólk sem á í þessum bágindum.