28.02.1986
Neðri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2942 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um það málefni sem hér er á dagskrá. Mig langar hins vegar til að fara nokkrum orðum almennt um þetta mál án þess að ég tíni upp efnisatriði þessa frv. eða samkomulags.

Ég dreg enga dul á að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að eitthvað slíkt þyrfti að gerast, nánast þjóðarsátt til að ná fram bættum kaupmætti launafólks í landinu. Ég var þeirrar skoðunar að þetta hefði þurft að gerast 1984. Við munum öll til hvers þeir samningar leiddu. Það þarf auðvitað ekki að rifja upp fyrir hv. þingdeildarmönnum hvað hefur gerst í kjarasamningum hér undangengin ár og áraraðir.

Það þarf ekki að minna t.d, á það sem var gert í tíð ríkisstjórnar 1974-1978. Það þarf heldur ekki að minna á hvað gerðist í tíð vinstri stjórnarinnar svokölluðu 1978-1979 með samningana í gildi. Það þarf heldur ekki að minna á hvað gerðist í tíð ríkisstjórnar 1980-1983 þegar einn af þeim flokkum sem þá sat við völd og réði hvað mestu bar fram neyðaráætlun um útgönguleið úr þeim ógöngum sem ríkisstj. sjálf var búin að koma þjóðarbúinu í.

Þetta eru að sjálfsögðu þau dæmi sem við eigum að varast, koma í veg fyrir að slíkt gerist. Við höfum fordæmin fyrir okkur þó við förum ekki lengra aftur í tímann en tólf ár. Og hér er einmitt meginþátturinn í því efni sem það samkomulag sem nú hefur verið gert ræður úrslitum um. Ætlar núv. ríkisstj. að snúa á sömu leið og aðrar ríkisstjórnir hafa gert, að ógilda í einu eða öðru formi það samkomulag sem nú hefur tekist? Um það snýst meginspurningin. Við skulum ekki fyrir fram gera ráð fyrir því, en ég óttast eigi að síður að það geti hent ekkert síður þessa ríkisstj. en aðrar.

Auðvitað hafa ríkisstjórnir verið misjafnlega langt með puttana í því að ógilda gerða kjarasamninga. Þessi ríkisstj. hefur gengið hvað lengst. Eigi að síður bera aðrar ríkisstjórnir líka ábyrgð á slíku á undangengnum árum. Ég óttast mjög að ríkisstj. slái slöku við að standa við sinn hluta af þessum sáttmála þjóðarinnar, ef svo má það orða. Við skulum samt vona að menn taki á þessu máli af alvöru og láti það ekki sannast, þegar slíkt hefur gerst, að enn ætli stjórnvöld að bregðast.

Það var hins vegar hjákátlegt að heyra það í gær þegar hæstv. fjmrh. var hér að tala utan dagskrár um þessi mál. Hann sagði eitthvað á þá leið að aðilar úti í bæ, atvinnurekendur og forustumenn verkalýðshreyfingar, hefðu alltaf samið þvert á gerðir stjórnvalda í þessum efnum. Hver skyldi hafa ráðið ferðinni öðrum megin frá í þessum efnum á þessum tíma? Það var að sjálfsögðu fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands sem réði ferðinni, sá hinn sami og nú skipar sæti hæstv. fjmrh. Það var hann sem gekk þvert á gerðir annarra ríkisstjórna í samningamálum ásamt þá, eins og hann segir, verkalýðshreyfingunni sem var knúin til þess að mörgu leyti að gera þá hluti.

En menn vitkast vonandi með árunum. Ég vona að það eigi við um hæstv. fjmrh. að hann taki sinnaskiptum eftir því sem árin færast yfir og snúi af villu síns vegar í þessum efnum. Ég vil trúa því og ég hygg að svo sé um fleiri.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan að sér léki forvitni á að vita hvaða efnisatriði það væru sem menn væru á móti í þessu samkomulagi. Það hlýtur að vekja athygli að þingflokkur Alþb. er klofinn í málinu. Þá væri enn fróðlegt að vita hvað annar helmingurinn, þó lítill sé skulum við segja, af þingflokki Alþb. telur fram sem ástæðu til þess að vera á móti. (Gripið fram í.) Það er greinilegt að formaður Alþb. hefur ekki heyrt það því að hann spurði. Honum er ekki ljóst hver afstaðá hins helmingsins af þingflokknum er til málsins. (Gripið fram í: Það var handboltinn.) Var þetta handboltinn hjá honum? (Gripið fram í: Nei, öllum.) Nú, sérðu til. Ekki er málefninu sýndur mikill áhugi ef handbolti gengur fyrir hjá formanni þess pólitíska flokks í landinu sem telur sig forustusauð í verkalýðshreyfingunni. En auðvitað vekur athygli að í svona máli skuli þingflokkur Alþb. vera klofinn í afstöðunni. Það hlýtur að vekja athygli. (GJG: Það er nú ekki stórt.) Það er ekki stórt. Það er út af fyrir sig kannske rétt. Ég veit ekki hvernig menn meta það. Það getur farið eftir ýmsu.

En það er, af því að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson greip hér fram í, full ástæða til að nota tækifærið og spyrjast fyrir hjá hv. þm. sem þátt tók í þessum samningaviðræðum og ég hygg að hafi átt nokkurn hlut að því að samningar tókust. Nú veit ég að eftir þennan tíma hefur hann heyrt ýmislegt frá sínum umbjóðendum í hreyfingunni. Kannske lumar hann á einhverjum gögnum sem nauðsynlegt væri að fram kæmu til staðfestingar því úr hreyfingunni að þetta þyrfti að styðja til hins ýtrasta og næði fram að ganga. Ég hygg að hv. þm. lumi á ýmsu sem deildarþm. væri fróðlegt að fá vitneskju um og engin ástæða til annars en að hv. þm. láti í sér heyra hér. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Guðrún Helgadóttir samþykkir það.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að verðbólgan hefði ætt yfir á undanförnum árum. Auðvitað er það rétt. En hvenær var hún mest? Hvenær var verðbólgan mest á Íslandi? Það var einmitt þegar hann var sjálfur ráðherra. (GJG: Það hefði nú þótt fráleitt.) Hvað segir hv. þm. Guðmundur J.? Hann hefur ráðherrann fyrrv. við hliðina og ætti að vera traustur í sessi. Það er alveg rétt. Verðbólgan æddi yfir og þess vegna kom neyðaráætlunin fram á sínum tíma fyrir kosningarnar 1983 til þess að bjargast frá því víti sem verðbólgan var á þeim tíma sem þessir hv. þm. og þá ráðherrar réðu ferðinni.

Auðvitað vekur það athygli, ekki síst innan verkalýðshreyfingarinnar, að þingflokkur Alþb. skuli skiptast í þessu máli. Þetta er miklu stærra mál en það að þeir flokkar sem telja sig til verkalýðsflokka, telja sig brautryðjendur á þeim kanti stjórnmálanna, skuli ætla sér að greiða atkvæði gegn slíku í stöðunni eins og hún er. Auðvitað geta menn haft skiptar skoðanir á þessu máli. Ég segi fyrir mig að það er ýmislegt sem ég hefði viljað á annan veg en samkomulagið hljóðar upp á. En það er nú einu sinni svo að í samningum fá menn ekki allt sem þeir vilja hver og einn. Við verðum oft að kyngja því að fetið ráði ferðinni í þessum efnum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við upplifum það innan verkalýðshreyfingarinnar að við fáum miklu minna en við teljum okkur eiga rétt á. Það er ekkert nýtt fyrirbæri í hinni pólitísku sögu. Það væri hins vegar fróðlegt að fá vitneskju um það í þessum umræðum hvað þeir sem munu greiða atkvæði gegn þessu vildu að hefði verið gert í staðinn. Hvað átti að gera í þeirri stöðu sem málin voru í og eru raunar enn áður en búið er að lögfesta þetta eða samþykkja það í félögum? Hvað vildu menn þá gera í staðinn? Vildu menn fara sömu leið og BSRB fór á sínum tíma 1984 í mikilli prósentuhækkun sem búið var að taka nánast um leið og samningar voru undirskrifaðir? Bauð staðan upp á það að launafólk væri betur sett að fara þá leið? Ég held ekki.

Ég hef trú á því að almenningur innan verkalýðshreyfingarinnar og raunar almenningur í landinu vilji að slík leið sé reynd eins og nú er verið að gera og látið á það reyna hvort stjórnvöld ætla sér að standa við sinn hlut í málinu eða ekki.

Ég tek undir það, sem menn hafa sagt hér, að hér er um tímamótaatburð að ræða, tímamótaatburð sem hefði átt að gerast fyrr. Þá hefðum við fyrr verið leidd í þann sannleika sem slíkt hefði leitt af sér eins og hér er verið að gera tilraun með. Hvað segir t.d. hv. síðasti ræðumaður sem talaði í umboði jafnaðarmanna? Hann sagði að svona samkomulag samrýmdist ekki hugsjónum jafnaðarmanna í landinu. Hvað vilja þeir jafnaðarmenn aðrir en þeir sem eru í Alþfl.? Hvaða leið vildu þeir fara? (JBH: Kjósa forsrh. beint.) Það var heldur dregið í land með það hjá hv. þm. Guðmundi Einarssyni áðan. Ég skildi hann svo að hann væri að færast undan því. Hann sór og sárt við lagði að hann hefði ekki minnst á slíka hluti. (KH: Hann bauð nú líka upp á ræðu um það.) Væri hv. þm. við eru menn tilbúnir. Ég heyri að Kvennalistakonur taka undir með þm. Bandalags jafnaðarmanna í þessum efnum.

En það má líka spyrja: Hvað vilja Kvennalistakonur? Þær hyggjast greiða atkvæði á móti þessu. Hvað vildu þær í staðinn? (Gripið fram í: Sitja hjá.) Sitja hjá. Það tel ég afskaplega slælega afstöðu í svona stórmáli, að sitja hjá. Það er nánast skoðanalaus samviska sem slíkt gerir í slíku stórmáli sem hér um ræðir að menn ætli að sitja hjá, láta málið lönd og leið. Slíkt er ekki ábyrg stefna. Og hvað vildu Kvennalistakonur í staðinn? Það er eðlilegt að um það sé spurt. Vildu þær fara sömu leiðina og gert var 1984 sem hafði þær afleiðingar sem ekki þarf að tíunda hér? Launafólk var verr sett eftir en áður.

Ég hygg að menn hafi ekki áttað sig nógu vel á því að þetta er sá eini kostur sem var um að ræða að gera tilraun til að rétta hlut launþega og að einhverju leyti, ef stjórnvöld standa við sitt, að bæta efnahag þjóðarinnar. Mér þykir hins vegar sýnt að með því frv. sem hér liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir að taka undir þær hugmyndir sem t.d. fulltrúar atvinnuveganna og verkalýðshreyfingar settu fram um fjárhagslegu hliðina á þessu máli. Menn annaðhvort ætla sér að slúffa því eða fresta að taka afstöðu til þess. Ég held að menn komist ekki út úr þessu, finni ekki útgönguleið út úr þessu án þess að taka á þeim vanda málsins. Það er sá ótti sem við hinir raunverulegu jafnaðarmenn óttumst að rætist að því er varðar hæstv. ríkisstj., að menn ætli að láta þetta lönd og leið. Við vörum sérstaklega við því að ríkisstj. láti skeika að sköpuðu í þessum efnum. Nógu margar ríkisstjórnir hafa gert það þannig að það er ekki á bætandi að þessi geri það líka.

Ég vænti þess, og það skulu vera mín lokaorð, herra forseti, að ríkisstj. taki undir þær hugmyndir sem fram hafa komið af hálfu samningsaðila og noti þann byr sem nú gefst til að feta sig út úr þeim vandræðum í efnahagsmálum sem þjóðin hefur búið við allt of lengi.