30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

9. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er flutt um breytingu á stjórnarskrá

lýðveldisins er um margt athyglisverð. Tillagan er um það að þegar þingmenn taki við ráðherraembætti

láti þeir jafnframt af störfum þingmanna og varamenn taki við. Einkum er vísað til fordæmis

Norðmanna þar sem þessi háttur er á hafður. Hugmyndin er ekki ný af nálinni. Það sakar ekki að geta

þess að hún var verulega til umræðu í störfum stjórnarskrárnefndar meðan hún starfaði dyggilega undir

formennsku hæstv. fyrrv. forsrh. Gunnars Thoroddsens. Við fulltrúar Alþfl. í þeirri nefnd lýstum þar

áhuga á þessari tillögu þó við hefðum jafnframt gert grein fyrir því að hún væri kannske ekki svo

auðveld í framkvæmd ein sér. Ég vek athygli á því að þingmannafjöldi á Íslandi er býsna hár sem

hlutfall af íbúatölu. Sjálfsagt mundi Bandaríkjamönnum ofbjóða nokkuð ef þingmannafjöldi þar yrði 60

þúsund og fara að þykja nóg um. Ráðherrafjöldi á Íslandi er sömuleiðis ört vaxandi og er nú kominn

upp í töluna 10. Þess eru dæmi að stofnuð hafi verið ný ráðuneyti um málaflokka sem áður voru

bréfhausar í öðrum ráðuneytum og allt tilheyrir þetta Parkinsons-lögmálinu.

Ef þessi till., sem hefur margt til síns ágætis, yrði framkvæmd þyrfti það helst að gerast í tengslum

við þær breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins að þingmönnum yrði fækkað, en það teldi ég mjög

skynsamlega tillögu út af fyrir sig. Þannig að ef við gæfum okkur t.d. að þingmannatala yrði á bilinu

25-30 væri um leið eðlilegra að þessi skipan væri tekin upp þ.e. að þeir sem yrðu þá handhafar

framkvæmdavalds í umboði þings gegndu ekki störfum þingmanna því þessi till. hefur þann ókost að ef

hún yrði framkvæmd við óbreyttar aðstæður mundi þingmönnum hér bráðlega fjölga, sennilega í 73, og

er nóg komið. Minni ég á t.d. tillögur okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma þegar

breytingar á stjórnarskrá voru síðast á döfinni. Þá lýstum við okkur andvíg fjölgun þingmanna og

töldum að unnt væri að ná sömu leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar án fjölgunar þingmanna, og

vísuðum í því efni til till. sem fulltrúar Alþfl. í stjórnarskrárnefnd höfðu lagt fram á sinni tíð.

Kannske er rétt að nefna annað mál. Ef menn vildu fækka þingmönnum á Íslandi, nota um leið

tækifærið til að draga skarpari skil milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þyrftu líka að koma til

ýmsar aðrar breytingar. Ég hef í huga tillögur sem hafa verið fluttar af jafnaðarmönnum í báðum

flokkum um þá breytingu á starfskipan þingsins að þingnefndir starfi árið um kring og að þingnefndir

fái aukið valdsvið til eftirlits með störfum framkvæmdavaldsins.

Við höfum séð það á afgreiðslu stjórnarskrármálsins, sem margir gagnrýna, að það virðist vefjast

ákaflega mikið fyrir hv. þm. að komast að skynsamlegri niðurstöðu um breytingar á þeim leikreglum

sem eiga að ráða vali þingmanna. Það sjónarmið hefur sennilega vaxandi fylgi nú um stundir að í raun

og veru sé ekki æskilegt að þingmenn setji sjálfir þær leikreglur sem ráða vali þeirra. Þess vegna hafa

verið uppi hugmyndir um að stjórnarskrármálið eigi að færa í annan farveg með því að efna til sérstaks

stjórnlagaþings sem kosið væri til með sérstökum hætti, gjarnan skv. ákvæðinu einn maður, eitt

atkvæði. Síðan yrði það stjórnlagaþings að kveða á um þær leikreglur sem framvegis yrði fylgt við val

þingmanna og þá einnig um fjölda þingmanna eins og þessi tillaga víkur að. Þannig að mér finnst fyrir

mitt leyti að margt gott sé að segja um þessa tillögu en ég er hræddur um að örlög hennar verði svipuð

og annarra tillagna um breytingu á stjórnarskrá að seint verði samstaða um hana milli þingflokka og að

því aðeins komi breytingarnar, sem lagt er til að gera, að gagni að þær yrðu liður í róttækari

endurskoðun á stjórnskipuninni og kosningalögunum sem miðuðu að því í fyrsta lagi að fækka

þingmönnum, í annan stað að bæta starfsaðstöðu þingmanna til þess að framfylgja hlutverki sínu sem

eftirlitsaðili með framkvæmdavaldinu, svo sem eins og fælist í auknu valdsviði þingnefnda og því að

þær störfuðu allt árið sem og hinu að samstaða næðist um að taka þann beiska kaleik frá þingmönnum

sjálfum að þeir kveði á um leikreglur við val þingmanna, þ.e. kosningalög, og að efnt yrði til sérstaks

stjórnlagaþings til að lúka því verki sem reyndar var nokkuð á veg komið í tíð stjórnarskrárnefndar

Gunnars Thoroddsens, sem ég minni reyndar á að lagði fyrir hv. Alþingi frv. til endurskoðunar á

stjórnarskránni þó að, meðal annarra, flokksbræður hans mættu ekki á heilum sér taka að taka efnislega

afstöðu til þess af ástæðum sem mér eru kannske ekki endilega best kunnar.