04.03.1986
Sameinað þing: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

294. mál, fullvirðisréttur í landbúnaðarframleiðslu næstu verðlagsár

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 540 leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. landbrh.:

„1. Hvenær er þess að vænta að fyrir liggi tillögur og ákvarðanir um fullvirðisrétt bænda fyrir næsta verðlagsár: a. vegna nautgripaafurða, b. vegna sauðfjárafurða?

2. Hvert er það framleiðslumagn sem landbrh. gerir ráð fyrir að fullt verð komi fyrir árlega í hefðbundnum búgreinum næstu fimm árin?

3. Hvenær geta bændur vænst þess að vita um fullvirðisrétt sinn á umræddu tímabili, þ.e. fyrir verðlagsárin 1987-1991?"

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu þýðingarmikið er fyrir bændastéttina að fá vitneskju um hvert stefnir í sambandi við framleiðslu hefðbundinna búvara og þann rétt sem ríkið ætlar bændum í sambandi við fullt verð fyrir afurðir þeirra. Umræðan um nýlega útgefinn fullvirðisrétt vegna mjólkurafurða á yfirstandandi verðlagsári hefur verið mikil og gagnrýni eðlilega komið fram vegna þess hvernig þar var staðið að málum. Nú skiptir miklu varðandi framhaldið að bændur fái sem skilmerkilegastar upplýsingar fram í tímann því að það þarf tíma til að skipuleggja búrekstur og halda þannig á málum í búrekstri að kostnaður verði sem minnstur og bændur viti rétt sinn og geti tekið ákvarðanir í samræmi við það.