04.03.1986
Sameinað þing: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

294. mál, fullvirðisréttur í landbúnaðarframleiðslu næstu verðlagsár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. taldi að það hefði verið ástæðulaust fyrir mig að rifja upp hvernig landbrn. hefði unnið að því að undirbúa skiptingu á framleiðslumagni fyrir næstu ár, en eins og ég gat um á samkvæmt lögum að leita tillagna um hana frá hagsmunasamtökunum. Ég taldi að það væri nauðsynlegt til þess að ljóst lægi fyrir hvernig ráðuneytið hefði gert það og hvað það hefði gert til að reyna að hraða því að þetta lægi fyrir. Þarna var alls ekki verið að biðja eingöngu um tillögur um mjólkurframleiðsluna fyrir þetta verðlagsár heldur fólst í þessu beiðni um reglur sem gætu gilt til lengri tíma og einnig um sauðfjárræktina, eins og kom fram í bréfi sem ég las upp.

Mér finnst dálítið erfitt að skilja það þegar hv. fyrirspyrjandi er að segja að þurft hefði að liggja miklu fyrr fyrir skipting á því afurðamagni sem bændur fá fullt verð fyrir þegar haft er í huga að á síðasta Alþingi lagði Alþb. eindregið til að afgreiðslu hinna nýju laga væri frestað. Þá hefðu hin eldri lög gilt um þetta. Samkvæmt þeim vissu bændur aldrei fyrr en að loknu verðlagsári hvað það afurðamagn yrði mikið sem þeir fengju greitt fullt verð fyrir. Alþb. taldi í vor enga ástæðu til að gera neitt til þess að bændur gætu fengið að vita um þetta fyrir fram. En nú er talað um að þetta komi of seint. (Gripið fram í.) Bændasamtökin stóðu að því að gera brtt. við frv. eins og það var afgreitt á Alþingi og flestar þeirra ábendingar voru teknar til greina.

En hvað snertir viðhorf mitt til þess afurðamagns sem um verður samið á næstu árum, þá held ég að það komi skýrast fram í þeim samningum sem ég stóð að að gera fyrir tvö fyrstu ár þessa tímabils. Samkvæmt þeim var mjólkurmagnið sem um var samið um það bil meðaltal framleiðslu síðustu sjö ára og kindakjötssamningurinn mátti heita nákvæmlega það sem kom í sláturhúsin á s.l. hausti. Ég held að þessir samningar sem ég stóð að því að gera segi miklu meira um viðhorf mitt og vilja í þessum málum en ef ég færi að gera einhverja spá fram í tímann.

Hv. fyrirspyrjandi minntist á útreikninga sem nefnd á vegum forsrh. hefði gert um samdrátt í sauðfjárframleiðslunni. Það var útreikningur sem gerður var eftir ákveðnum forsendum, sem menn gáfu sér, en alls ekki einhver tilraun til að meta endilega hvernig þróun yrði á þessu sviði. En eins og ég hef látið koma fram marka nýju lögin um búvöruframleiðsluna þá stefnu að þeir framleiðendur sem að þessum atvinnugreinum standa geti haft þá bústærð sem gefi þeim viðunandi afkomu. Það er sú stefna sem við hljótum að verða að fylgja í sambandi við þá skiptingu sem gerð verður í framtíðinni og stefnumörkun í þessum málum.