04.03.1986
Sameinað þing: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

294. mál, fullvirðisréttur í landbúnaðarframleiðslu næstu verðlagsár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi fullyrðir að ekkert hafi verið gert til að hamla á móti aukningu mjólkurframleiðslu. Það er af fáfræði sagt því að á s.l. sumri var gjald á kjarnfóðri hækkað. Það var einmitt fyrst og fremst það ráð sem hægt var að nota á grundvelli hinna eldri laga og það stjórntæki sem menn höfðu fyrst og fremst samkvæmt þeim lögum. Það var nýtt á þann hátt að hækka gjaldið á s.l. sumri þegar stefndi í aukna mjólkurframleiðslu. En síðan hefur komið í ljós að það nægði ekki. Þau varnaðarorð sem ég og fleiri bárum fram um hvernig bændur þyrftu að haga sér með tilliti til þess samnings sem gerður var á s.l. sumri nægðu því miður ekki. Það er ekki fyrr en útreikningarnir liggja fyrir sem öllum var ljóst hvert stefndi þó að það ætti að vera augljóst þegar að samningum loknum í sumar.