04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2971 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. taldi að ég hefði fellt harða dóma og hann spurði: Hvers vegna hefur þessu ekki verið breytt fyrr? Ég held að þegar menn fara langt aftur í fortíðina, eins og hæstv. ráðh. gerði, verði menn að taka svolítið tillit til hvernig aðstæður voru á þeim tíma. Ég held að á þeim tíma sem markar upphaf í þessum efnum höfum við átt í landhelgisstríði, höfðum nýlega tapað tapað miklum mörkuðum og þar fram eftir götunum. Það hefur vafalaust haft sitt að segja. Ég held við höfum líka haft minni burði þá. En spurningunni um það hvers vegna þessu hafi ekki verið breytt held ég að verði best svarað með því að menn hafa í rauninni aldrei þorað að hugsa almennilega um þetta. Í hvert skipti sem þetta mál hefur komið til umræðu hafa menn hlaupið í skotgrafirnar og hin skynsamlegri umræða hefur verið kærð. Það hefur verið rík tilhneiging til þess í dag líka og þá ekki hvað síst af hálfu hæstv. ráðh.

Það er hægt að vera með einfalda útúrsnúninga eins og þá að menn viti ekki verðið fyrr en daginn eftir. En við skulum hafa í huga þá sem ástunda viðskipti, hvort sem er af þessu tagi eða öðru, verðbréfaviðskipti eða hvað það nú er, þá sem eru í alþjóðlegum viðskiptum, það er þeirra list að vita hvert stefnir, að geta getið sér með skynsamlegum hætti til um hvort markaður sé hækkandi eða fallandi. Það er á því sem margt byggist í þessum efnum.

Annars skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég þakka hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir þann stuðning sem hann veitti mér í þessu máli með því lýsandi dæmi sem hann dró upp af því sem ég einmitt var að fjalla um í inngangsorðum mínum sem sanna náttúrlega hvernig kerfið er hjá okkur og skýringin á því að það er svona er sú, að mínum dómi, sem ég dró fram í fyrstu ræðu minni.

Ég þakka líka þeim þm. öðrum, Birgi Ísl. Gunnarssyni og Valdimar Indriðasyni, sem hafa sýnt ákveðinn skilning á því að hér sé á ferðinni mál sem þarfnist sérstakrar skoðunar.