04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

286. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um þessa till. Till. svipaðs efnis var flutt í fyrra af flestum sömu flm. Hún er þó í veigamiklum atriðum frábrugðin og grg. sérstaklega öll önnur og betri.

Ég skrifaði grein í tilefni þessarar till. í fyrra sem hv. 1. flm. sárnaði mjög. En ég sé þó mér til ánægju að tekið hefur verið tillit til ýmislegs sem á var bent í þeirri grein. Svo komu lögin um ferðamál í fyrra og það hefur haft sín áhrif til bóta.

Flm. hafa séð að menn geta ýmislegt gert af sjálfsdáðum til að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna án þess að öllu sé stefnt á einhvern tóman sjóð. Það hefur gerst. Um það höfum við séð mörg þýðingarmikil dæmi á undanförnum 1-2 árum.

Ég held að það geti varla verið af öðru en hinu góða að menn reyni að komast að því hvar skórinn kreppir í þessum efnum. Mér dettur í hug að áætlanadeild Framkvæmdastofnunar hefði gert margt vitlausara en að hyggja að kostnaði við gerð slíkrar könnunar. Auðvitað getur könnun sem þessi orðið nokkuð dýr ef hún fer út í öll smæstu smáatriði málsins. Hún þarf ekki að vera dýr ef menn halda sig nokkuð við aðalatriðin og ekki verður um of mikinn sparðatíning að ræða. Það er allt of auðvelt að týna sér í smámunum í þessum efnum.

Ég held að það sé alveg rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að það er ekki úr vegi að hafa þessa atvinnugrein sæmilega skipulagða frá byrjun.

Ég er ekki alveg sammála þeirri áherslu sem lögð er á lengingu ferðamannatímans í grg. Ég er ekki viss um hvort við getum það að nokkru marki. Langvíðast á ferðamannastöðum erlendis er árstíðabundinn toppur, árstíðabundinn annríkistími. Það fer eftir aðstæðum á hvaða árstímum þetta tímabil er en stuttur ferðamannatími er held ég nokkuð viðloðandi flesta ferðamannastaði.

Eitt atriði, sem mig langaði til að minnast á hér í þessu sambandi og er ekki getið um í till., er menntun og þjálfun starfsfólks til að sinna ferðaþjónustu. Ég veit um góða menntun t.d. leiðsögumanna. Leiðsögumenn eru vel menntaðir, sömuleiðis þjónar og veitingafólk hér á höfuðborgarsvæðinu og í helstu ferðamannastöðum. En fólk, sem sér um aðra þætti ferðaþjónustunnar, hefur oft sáralitla ef nokkra menntun eða þjálfun í þessum störfum. Þó verð ég að segja að erlendir ferðamenn eru tiltölulega ánægðir og reyndar undrandi á því hversu vel ungt fólk hér talar tungum og getur gert sig skiljanlegt og skilið gesti.

En ég álít að þarna mætti gera betur, e.t.v. ekki með mjög löngu námi heldur stuttum, t.d. þriggja eða fjögurra mánaða, námskeiðum í þessum efnum. Mér hefur dottið í hug að til þess gætum við hugsanlega notað okkar ágætu kvennaskóla sem nú eru margir hverjir í vandræðum og mikilli óvissu um framtíðina. Það gæti verið möguleiki að bæta slíkri klausu inn í þessa tillögu í nefnd sem um þetta fjallar. Ég hef ekki haft tækifæri til að skoða þessa hugmynd nánar en skýt henni þó hér fram.

Ég held sem sagt að það sé þarft verk að þessi könnun verði gerð ef hún ekki fer of mikið út í smáatriði málsins en heldur sig við aðalatriðin.