05.03.1986
Efri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

302. mál, veð

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. og tel að það sé mjög þarft. Það er laukrétt, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að það hefur mjög skort á að þessi svo mjög mikilsverðu fyrirtæki fengju þá fyrirgreiðslu sem full þörf er á.

Það er alveg ljóst að samkvæmt því sem hér er lagt til er gert ráð fyrir að það verði engar tímaskorður. Frv. gerir ekki ráð fyrir neinum tímaskorðum varðandi veðsetningu eins og gildir um aðrar þær afurðir sem vikið er að í umræddri 4. málsgr. 4. gr. laganna. Mig langaði aðeins að víkja að því og spyrja þá hæstv. ráðh. hvort ekki hefði verið eðlilegt að þarna hefðu einhverjar tímaskorður verið settar einfaldlega til þess að ekki yrði nein óvissa um þessi efni og/eða togstreita á milli lántakenda og lánveitenda.

Ég veit til þess að lánastofnanir leggja mjög ríka áherslu á að lán, sem veitt verða á þessum grundvelli, verði tryggð. Það er að því vikið í athugasemdum með frv. að tryggingafélög bjóði tryggingar í þessu skyni. Nú kann það vel að vera hreinn óþarfi að taka slíkt fram í lögum og kannske beinlínis óhæfa frá lagatæknilegu sjónarmiði en þá kem ég aftur að þeirri óvissu sem kann að ríkja á milli lántakanda og lánveitanda, hvort eðlilegt væri að setja skýrari reglur í þeim efnum, þ.e. að skýrt yrði fram tekið í lögum að núverandi og væntanleg verðmæti yrðu tryggð hjá tryggingafélagi svo að þau yrðu veðhæf. Ég vil ekkert fullyrða um þetta en mér þætti vænt um ef hæstv. ráðh. viki að þessu einhverjum orðum. Ég veit að hann og hans menn hafa út í þetta hugsað.

Það er ljóst að hér er í raun um hvort tveggja, rekstrar- og afurðalán að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en því að lánin nái jafnframt að hluta til yfir þann tíma sem þessar afurðir kunna að vera í sölumeðferð. Sé það ekki svo hef ég skilið frv. með röngum hætti.

Að öðru leyti ætla ég ekki að víkja að þessu frv. Eins og ég sagði í upphafi fagna ég því að það skuli hér fram komið og tel fulla þörf á að auka þessum heimildum við umrædd lög.