06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu. Ég vil, með leyfi forseta, lesa nál. á þskj. 507:

„Nefndin hefur fjallað um tillöguna og athugað þær umsagnir sem henni bárust. Fram hefur komið í umsögnum að víða eru heimilisstörf metin til starfsreynslu í kjarasamningum. Nefndarmenn leggja til að þáltill. verði afgreidd með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem till. þessi fjallar um efni sem ber að semja um í kjarasamningum en ekki ákvarða með fyrirmælum frá Alþingi telur sameinað þing ekki ástæðu til ályktunar í þessu máli og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Stefán Benediktsson og Guðmundur J. Guðmundsson.“

Undir þetta rita Ólafur Þ. Þórðarson, Pétur Sigurðsson, Eggert Haukdal, Birgir Ísl. Gunnarsson, Eiður Guðnason.

Hér er fyrst og fremst tekin sú afstaða að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja um málefni sem þetta. Það er eitt af því sem kom mjög sterkt fram í þeim umsögnum sem bárust að menn telja að það sé eðlilegt. Það kom einnig fram í þeim umsögnum að víða hefur þetta þegar verið metið og starfsreynsla er viðurkennd eins og hér er ætlast til í samningum við bæjarfélög. Telja verður að þetta mál sé þegar í ákveðnum farvegi hvað það snertir að þróast til einhvers samkomulags á milli þess sem telur að meta beri þetta að fullu og þeirra sem telja að meta beri þetta að hluta.

Það kom fram í umsögnum að ástæður fyrir því að starfsreynsla er metin til launahækkana er skilgreind á tvo vegu:

Með því að starfa lengi að sama starfi fæst leikni í starfinu sem gerir það að verkum að viðkomandi starfsmaður skilar meiri afköstum og á þar af leiðandi rétt á meiri launum.

Hin ástæðan var sú að sá sem ynni lengi hjá sama fyrirtæki skapaði vissa kjölfestu í starfsmannahaldi sem bæri að meta og greiða honum hærri laun af þeirri ástæðu.

Mér er ljóst að þetta er eitt af því sem menn geta deilt um endalaust, hvort Alþingi Íslendinga eigi að taka fyrir ákveðin atriði og segja: Þetta á að framkvæma í samningum. Ríkisvaldið á að samþykkja þessa kröfu. Við gefum fyrirmæli um slíka hluti. - Ég tel aftur á móti að slík ákvörðun af okkar hendi þýði tvímælalaust að við erum að segja við samningamennina: Þið eruð ekki færir um að leysa þessa hluti. Við ætlum að gefa ykkur fyrirmæli.

Það brýtur hvað minn skilning varðar eðlilegar leikreglur í því samfélagi sem við búum í ef þingið ætlar með svo ótvíræðum hætti að hlutast til um á hvaða nótum framkvæmdavaldið skrifar undir samninga. Og mér er spurn: Hvar verða þá landamærin, hvað er það í opinberum samningum sem við teljum að eigi að vera okkur óviðkomandi?

Það er jafnframt vitað að auðvitað hljóta samningar sem hinn frjálsi markaður gerir á hverjum tíma að hafa áhrif á þá samninga sem ríkisvaldið gerir og einnig að þeir samningar sem ríkisvaldið gerir hafa áhrif á hina frjálsu samninga. Mér finnst að þróunin í þjóðfélaginu sé frekar sú að aðilar vinnumarkaðarins stilli framkvæmdavaldinu og þinginu upp við vegg en ekki að þingið sé í einhverri sterkri aðstöðu til að fara að stilla aðilum vinnumarkaðarins upp við vegg. Ég fyrir mína parta treysti mér ekki til að mæla með þeim vinnubrögðum og af þeirri prinsipástæðu hef ég skrifað undir þetta nál.

Það breytir engu um að persónulega er ég þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að sú þróun haldi áfram að þessi störf séu metin þegar menn setjast við samningaborðið, en það hljóta þá að vera þeir sem sitja í samninganefndunum sem verða að meta hvort þeir telja meira virði að fá þessi atriði inn eða einhver önnur sem þeir eru að fást við hverju sinni.

Hitt skil ég út af fyrir sig mætavel að einstakir þm. telji að ákveðin atriði séu veigameiri en önnur í kjarasamningum og vilji hafa á það áhrif. Spurningin er aðeins hvort menn telja að sú stefna sé líkleg til að skila meiru í kjarasamningum en hin að láta samninganefndirnar vinna þessi verk.

Ég er sannfærður um að það hleypir frekar illu blóði í þá sem sitja að slíkum samningum ef Alþingi ætlar að fara að gefa fyrirmæli eins og hér er lagt til.